Klukkan rétt rúmlega 15:00 síðastliðinn föstudag lagði fyrsti bíll með kerru af stað frá Vík til Árbæjarhjáleigu. Bíllinn var drekkhlaðinn af spenntum krökkum, reiðtygjum og kosti fyrir komandi helgi en á kerrunni stóðu sex gæðingar klárir í hressandi helgi í nýju umhverfi.
Í Árbæjarhjáleigu tók Hekla Katarína á móti nemendum, síbrosandi að vanda og hófst strax handa við að miðla til fyrsta hóps af 6 það kvöldið. Alls voru 16 krakkar í æfingabúðum og þar af leiðandi 16 gæðingar krakkanna meðferðis, til útgerðarinnar þurfti þrjá bíla með kerrur og einn fólksflutningabíl. Þetta fyrsta kvöld æfingabúðanna var kennsla til klukkan 20:00 en þá komu allir sér fyrir í sumarbústaðnum "Hellinum" sem við höfum undanfarin ár haft afnot af og gæddu sér svo á grilluðum hamborgurum og frönskum. Eftir matinn voru brettar upp ermar og skunduðu krakkarnir á milli húsa á Hellu og seldu saltfisk til fjáröflunar æfingabúðanna, það voru því nokkuð lúin börn sem skriðu í bælið á föstudagskvöldi.

Á laugardagsmorgni var strax byrjað að kenna klukkan 9:00 en eldri deildin byrjaði í hollum svo yngri deildin hafði ofan af fyrir sér í leikjum og skellti sér svo í sund á Hvolsvelli, eftir hádegi var auðvitað áframhaldandi kennsla en þá var yngri deildinni kennt í hollum og eldri deildin var svo heppin að komast á spennandi bingó í Rangárhöllinni.

Kennsla var til klukkan 17:00 á laugardag en þá var hafist handa við að æfa sýningaratriði sem eldri deildin mun sýna á Æskan og hesturinn næstu helgi, eftir æfingu og umstang um hrossin var haldið beint út að borða á Árhúsum þar sem gómsætar pizzur runnu vel í þreyttan en sælan mannskapinn. Eftir matinn tók svo við "cosy stund" í bústaðnum.

Sunnudagurinn byrjaði einnig snemma og gekk kennslan verulega vel fyrir sig að vanda, það voru því alsælir krakkar sem kvöddu Heklu um klukkan 18:00 og brunuðu heim á leið með þrautæfða gæðingana í eftirdragi.

Við þökkum öllum þátttakendum kærlega fyrir helgina, sendum Heklu Katarínu kærar þakkir fyrir móttökuna og kennsluna og ekki síður foreldrum sem bökuðu bakkelsi fyrir kaffitímana og útveguðu m.a. hádegismat í eitt mál. Auk þess styrkti Víkurskáli krakkana í formi morgunverðar og tveggja máltíða en allt þetta gerir okkur kleift að halda þátttökugjöldum í lágmarki svo allir geta verið með. Við erum strax farin að hlakka til næsta árs enda er þetta alveg orðinn fastur liður í starfi æskulýðsnefndarinnar og skilar sér í verulega auknum áhuga krakkanna og svo ekki sé talað um aukna kunnáttu þeirra.
Með kveðju
Æskulýðsnefnd hmf. Sindra