Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2013 Ágúst

28.08.2013 11:15

HM-ferð unglinganna okkar til Berlínar


Eflaust hafa mörg ykkar orðið vör við "okkur unglingana" á síðustu tveimur árum þegar við vorum að nurla saman krónum til þessarar háleitu en bráðskemmtilegu hugmyndar að fara hópferð til Berlínar á heimsmeistaramót íslenska hestsins. Krakkarnir unnu ötullega að fjáröflun ferðarinnar í tæp 2 ár, seldu klósettpappír, sælgæti og bakkelsi og unnu m.a. garðvinnu og fleira fyrir fólk af mikilli elju, vinnan skilaði sér þannig að þau áttu fyrir allri ferðinni, flugi, gistingu, HM-miðunum og uppihaldi alla dagana og gott betur, þau eiga núna afgang sem auðvitað verður nýttur vel;-)

Lagt var af stað í leiðangurinn þann 6. ágúst síðastliðinn og kemur stutt ferða saga hér:

Að kvöldi 6. ágúst hittist hópurinn, 10 unglingar og 6 fullorðnir á "bankaplaninu" í Vík, uppáklædd nýja einkennisfatnaðinum frá Víkurprjón, merkt í bak og fyrir af styrktaraðilum. Teknar voru myndir af mannskapnum sem síðan voru sendar á ýmsa fjölmiðla og hlutu mikla athygli, enda föngulegur hópur þarna á ferð ;-)

Eftir myndatöku var lagt "í'ann" og næsta stopp Keflavíkurflugvöllur. Inntékk og "boarding" gekk eins og í sögu svo að undir kl 01:00 var hópurinn kominn í loftið og rúmlega 3 tímum síðar vorum við mætt til Berlínar í 30 stiga hita að morgni til.
Heimsborgarnarir sem við erum skelltum okkur í samgöngutæki Berlínar eins og ekkert væri auðveldara og þykir nokkuð grunsamlegt að við skyldum ekki einu sinni hafa villst örlítið alla ferðina, en það verður jú að viðurkennast að meðal áhyggjuefna fyrir ferðina var að vera villtur á flakki um Berlín með 15 andarunga í eftirdragi

Fyrsti dagurinn var nýttur í skoðunarferðir þar sem við gátum ekki tékkað okkur inn á hótel fyrr en um 14:00. Við sáum m.a. Brandenburger hliðið, Berliner dom og fórum í 365 m háan útsýnisturn. Það sem mesta athygli vakti þó var fullt af "brand" búðum á torginu svo það varð strax ólga í mannskapnum að komast í búðirnar. Seinni part dagsins var HM svæðið tekið út og strax orðin mikil tilhlökkun að verja næstu dögum þar, næstu 4 dögum eyddum við svo í vellystingum á HM svæðinu og nutum sýninganna og stemmingarinnar. Það var því heldur tómlegt að yfirgefa HM svæðið á sunnudagseftirmiðdegi eftir endalausar gæsahúðasýningar.

Mánudagurinn var nýttur í verslunarleiðangur þar sem stærri hluti hópsins gjörsamlega missti sig í búðarrápi frá morgni til kvölds. Á þriðjudeginum fórum við svo í hinn 160 ára gamla dýragarð Berlínar og höfðum ofan af fyrir okkur með því að horfa á hinar fjölbreyttustu og forvitnilegustu dýrategundir, örlítið var kíkt í búðir á "laugavegi" Berlínar en að kvöldi var haldið á flugvöllinn og beinustu leið heim til Íslands. Það voru sælir en þreyttir ferðalangar sem lentu á Keflavíkurflugvelli undir miðnætti á þriðjudagskvöld og brunuðu svo heim á leið í næturhúminu.

Ferðin varð alveg hrein ævintýraferð sem heppnaðist alveg fullkomlega enda áttu þessir dugnaðarforkar okkar það fullkomlega skilið eftir allt harkið síðastliðin 2 ár, við getum aldeilis verið stollt af þessum einstaklega duglegu og frambærilegu einstaklingum sem við í hmf. Sindri eigum.

Við sendum styrktaraðilum okkar innilegar þakkir fyrir veittan stuðning og aðstoðina við það að láta drauminn verða að veruleika.

 

Með kveðju f.h. æskulýðsnefndar Sindra

Vilborg

 


01.08.2013 11:31

Félagsferð

Vegna lítillar þátttöku verður félagsferðin okkar því miður ekki farin þetta árið.
  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 302
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 150
Samtals flettingar: 1136533
Samtals gestir: 173513
Tölur uppfærðar: 2.3.2021 20:14:33