
Fréttatilkynning
Fjórðungsmót á Austurlandi 20.- 23. júní.
Fjórðungsmót hestamanna á Austurlandi verður haldið á félagssvæði Hornfirðings að Fornustekkum í Nesjum, dagana 20.- 23. júní í sumar.
Að þessu sinni var ákveðið að fjölga aðildarfélögum sem hafa rétt til þátttöku. Öll hestamannafélög á svæðinu frá og með Eyjafirði til Hornafjarðar hafa keppnisrétt á mótinu, eins og var á FM2007, og til viðbótar hefur nágrönnum okkar í vestri, hestamannafélögunum Kópi og Sindra, verið boðin þátttaka.
Þetta fyrirkomulag var ákveðið til þess að fjölga keppendum og áhorfendum á mótinu og um leið til að festa Fjórðungsmót á Austurlandi enn frekar í sessi.
Kynbótahrossum innan hrossaræktarsamtaka á sömu svæðum er boðin þátttaka. Fagráð í hrossarækt hefur samþykkt breytinguna og hefur lagt til eftirfarandi lágmörk:
-Stóðhestar, 4v 7,90
-Hryssur, 4v 7,80
-Stóðhestar, 5v 8,05
-Hryssur, 5v 7,95
-Stóðhestar, 6v 8,20
-Hryssur, 6v 8,10
-Stóðhestar, 7v og eldri 8,25
-Hryssur, 7v og eldri 8,15
Keppt verður í hefðbundnum keppnisgreinum: A-og B-flokki gæðinga, barna-, unglinga- og ungmennaflokkum, Tölti (T1), opnum- og áhugamannaflokki, Slaktaumatölti (T2), 100m fljúgandi skeiði, 150 og 250 metra skeiði. Einnig
verður sýning ræktunarbúa.
Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá: Skógeyjarútreið, grillveislu,
kvöldvöku í félagsheimilinu Stekkhól og dansleik í reiðhöll Hornfirðings.
Á Fornustekkum er keppnisvöllur, félagsheimili, reiðhöll, hesthúsahverfi,
tjaldstæði, beitiland fyrir ferða- og keppnishesta og frábærar útreiðarleiðir.
Fornustekkar eru í ca. 8 km fjarlægð frá Höfn, þar sem öll þjónusta er til staðar, s.s. hótel, gistiheimili, tjaldstæði, veitingastaðir, Nettó-verslun, bakarí,
ýmsar sérverslanir, fatahreinsun, apótek, heilsugæsla, vínbúð, sundlaug, fjölbreytt íþróttaaðstaða og ýmis áhugaverð söfn á sviði menningar og lista.
Mótshaldarar eru Hestamannafélagið Hornfirðingur og Félag hrossabænda - Hornafjarðardeild.
hornfirdingur.123.is