Við þökkum ykkur öllum krakkar sem komuð með okkur í þennan skemmtilega reiðtúr, þetta var ljómandi gaman. Veðrið var eins og best verður á kosið og allir brosandi hringinn. Fararstjórar voru Vilborg og Ásta Alda og í för voru alls 13 krakkar þar af 3 strákar sem héldu utan um stelpuhópinn. Riðið var að Klifandi en áð við Flúðarnef þar sem við fundum Svala og Prince póló undir steini:-) Ekki var mikið verið að hangsa og riðið ákveðið heim, reiðtúrinn tók 1 klst og held ég að bæði menn og hestar hafi farið sæl heim.
Boðað er til fyrsta fundar varðandi fyrirhugaðrar HM ferðar 2013, á morgun miðvikudaginn 25. Apríl. Kl. 20:30 í grunnskólanum. Efni fundarins eru fjáröflunarleiðir ofl.
Æskulýðsnefnd flautar til skemmtireiðtúrs mánudaginn 23. Apríl næst komandi. Farið verður frá húsinu hans Árna Gunnars kl 18:00 og farinn góður reiðtúr.
Laugardaginn 21. apríl 2012 verður Firmakeppni Sindra haldinn á Sindravelli.
Keppni hefst kl 14:00
Flokkar verða í þessari röð: pollar, börn, unglingar, konur, karlar og unghross. Pollar, börn, unglingar og unghross keppa á hringvellinum en karlar og konur á hlaupabrautinni. Dómarar eiga að horfa í FEGURÐ Í REIÐ þannig að ekki skiptir máli hvort hross er á tölti, brokki eða jafnvel skeiði. Miðað er við að hver knapi í kvenna- og karlaflokki fari 2x fram og til baka. Í öðrum flokkum verða 3-4 hross (fer eftir þátttöku) inni á hringvellinum í einu og þulur lætur vita þegar dómarar hafa séð nóg. Miðað er við 2-3 hringi á hvert holl. Hægt er að skrá fyrirfram á netfangið solheimar2@gmail.com eða á Sindravelli milli 13:00-14:00 á keppnisdag. Mótanefndarmenn eru byrjaðir að safna firma og verðið er það sama og verið hefur í mörg ár, 1000 kr. Ef einhvern langar að kaupa firma en fær ekki heimsókn frá okkur, þá er hægt að hafa samband við formann. (einungis gengið í hús í Vík og milli bæja í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum) Að lokinni keppni ætla krakkarnir sem eru að fara til Berlínar á HM íslenska hestsins 2013 að hefja sína fjáröflun með kaffi og kökusölu og verður verði stillt í hóf (enginn posi á staðnum) Við hvetjum alla til að mæta og eiga skemmtilegan dag, horfa á falleg hross og styrkja í leiðinni þessa duglegu krakka.