Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2010 Maí

28.05.2010 09:47

FRÉTTIR AF FÉLAGSFUNDI

Ákveðið var á félagsfundi í gær að fresta hestaþingi Sindra sem vera átti 12-13 júní. það var einnig ákveðið að svo stöddu að blása það ekki af alveg strax en stefna á að reyna að halda það í ágúst. Hins vegar verður sú ákvörðun tekin eftir Landsmót hestamanna (ef  það verður).
Okkur og þeim sem mættu á fundinn fannst að eitthvað þyrfti að gera og því ákvað fundurinn að við myndum halda mót "Sumarmót Sindra" samhliða Kópsmótinu á Klaustri 19-20 júní. þar sem að keppt yrði í gæðingakeppni og jafnvel fleiru og veitt verðlaun samkvæmt því.
Núna þarf mótanefnd að hittast og bretta upp ermar og gera endanlega dagskrá með þetta sumarmót. Þetta verður svo að sjálfsögðu kynnt hér inni og á öðrum vettvangi. Ég vona líka að fólk taki vel í það að aðstoða á einn eða annan hátt að undirbúa og starfa á mótinu á Klaustri.

Varðandi úrtöku fyrir Landsmót 2010.
Þá samþykkti fundurinn að við myndum halda sameiginlega úrtöku með félögunum sem eru aðillar að Rangárbökkum ehf. Sú úrtaka verður á Hellu dagana 11-13 júní og verður auglýst betur þegar nær dregur.

Þessi ákvörðun varðandi Hestaþing Sindra var ekki auðveld og síður en svo ánægjuleg. En miðað við aðstæður á og við völlinn þá er engan veginn forsvaranlegt að halda úti móti í júní og alls ekki hægt að leggja það á neinn hvorki menn né skepnur.

Við vonum bara að sem flestir sjái sér fært að koma á Sumarmót Sindra og gera sér glaðann dag hvort sem er sem keppandi eða áhorfandi.
með félagskveðju
Formaður

27.05.2010 10:23


Bakteríusýking helsti orsakavaldurinn

Nú liggur fyrir að smitandi hósti er ekki af völdum neinna af þeim alvarlegu veirusýkingum sem þekktar eru og leggjast á öndunafæri hrossa. Bakterían Streptococcus zooepidemicus hefur hins vegar ræktast úr öllum sýnum sem tekin hafa verið úr hrossum með hósta og graftarkenndan hor, en ekki úr hrossum sem eingöngu hafa verið með nefrennsli eða heilbrigð.

 Ljóst er að bakteríusýkingin er afgerandi fyrir sjúkdómsmyndina og að hún er bráðsmitandi. Rannsóknirnar hafa verið unnar á Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við hérlendar og erlendar rannsóknarstofnanir.

   Bakterían hefur nokkrum sinnum ræktast úr veikum hrossum á Íslandi, t.d. úr hópsýkingu folalda í stóðhestagirðingu sem voru með graftarkenndan hor og stækkaða kverkeitla. Hún er því ekki ný af nálinni í umhverfi hestanna okkar og ætla mætti að ónæmi gegn henni væri nokkurt. Hún hefur aldrei áður valdið faraldri hér á landi svo vitað sé. Almennt er talið að bakterían nái sér fyrst og fremst á strik í kjölfar annara sýkinga, einkum veirusýkinga, en einnig í einstaklingum með litla mótstöðu. Hún er algeng ástæða öndunarfærasýkinga í hrossum erlendis en leiðir alla jafna ekki til faraldurs þar sem mótstaðan gegn henni er meiri.


Enn er gert ráð fyrir að óþekkt og þá væntanlega tiltölulega væg veira hafi borist til landsins og  komið faraldrinum af stað. Sú staðreynd að allir hestar virðast næmir fyrir sjúkdómnum styður þá kenningu. En sá möguleiki er einnig fyrir hendi að einhverjar aðrar ástæður hafi orðið þess valdandi að bakteríusýkingin blossaði upp og varð að þeim faraldri sem raun ber vitni.

Komið hefur í ljós við rannsókn á uppruna veikinnar að nokkuð hefur verið um hósta í hesthúsum víða um land undanfarin tvö ár.  Grunur um smitsjúkdóm vaknaði þó ekki fyrr en nú í apríl. Ekki er ljóst hvort um sömu veiki var að ræða og nú geisar enda hafa þessi hross öll veikst aftur meira eða minna.

Möguleikinn á að bakterían hafi búið um sig í nokkuð langan tíma er fyrir hendi. Mikill þéttleiki hrossa, innistaða, álag og streita í tengslum við þjálfun, sýningar og keppni, auk lítillar mótstöðu í stofninum í heild sinni, eru þættir sem gætu hafa gert það að verkum að smitið magnaðist upp og faraldur braust út.

Að lokum má geta þess að nú er verið að rannsaka hvort um sé að ræða nýjan stofn af bakteríunni og hvort það geti útskýrt faraldurinn.

Hvað svo sem setti þennan faraldur af stað er verkefnið núna að vinna úr afleiðingunum.

Reynslan hefur sýnt að smitefnið magnast upp í hesthúsunum og einkenni sjúkdómsins verða alvarlegri eftir því sem hestum er haldið meira á húsi. Útigangshrossin veikjast venjulega vægar. Þetta gefur vonir um að vandamálið minnki eftir því sem fleiri hrossum er sleppt út á rúmt land.

Mikilvægast er að koma sem flestum hrossum út en þeir sem telja sig þurfa að hýsa áfram þurfa að hreinsa og háþrýstiþvo húsin, jafnvel sótthreinsa. Einnig er áríðandi að hvíla hross sem sýna einkenni sjúkdómsins. Ef það tekst að fyrirbyggja að smitið magnist upp og hrossin verða aðeins fyrir vægu smiti (eins og gerist úti) styttist tíminn sem hrossin bera einkenni veikinnar og þar með tíminn sem þau missa úr þjálfun.

Auka þarf eftirlit með fylfullum hryssum, nýköstuðum hryssum sem og folöldum og varast að halda þennan hóp á þröngu landi eða við aðrar þær aðstæður sem magna smitið upp. Ef hryssur kasta í mjög sýktu umhverfi aukast líkurnar á naflasýkingum í folöldum sem geta haft slæmar afleiðingar.

Ekki er tryggt að hross myndi ónæmi gegn veikinni og því verður  að minnka smitálagið með því að koma hrossunum í hreint umhverfi. Mælt er með því að hestamenn þrífi hesthús sín vel eftir að hrossum hefur verið sleppt í sumarhaga.

Hægt er að meðhöndla hross ef alvarleg einkenni koma fram en annars er æskilegt að hestarnir vinni sjálfir á sýkingunni. Það eykur mótstöðu þeirra seinna meir.

Sigríður Björnsdóttir
Vilhjálmur Svansson
Eggert Gunnarsson
/mast.is

18.05.2010 15:11

ÁRÍÐANDI.. LÍTILLEGA BREYTT

ALMENNUR FÉLAGSFUNDUR.

Verður haldinn fimmtudaginn 27.maí 2010 kl 20:30 á Ströndinni Víkurskála.

Fundarefni: Hestaþing Sindra 2010 og úrtaka fyrir landsmót 2010.

ÁRÍÐANDI AÐ SEM FLESTIR MÆTI Á ÞENNAN FUND.


STJÓRNIN

12.05.2010 11:21

Vegna reiðskóla Sindra
 
Ákveðið hefur verið í ljósi aðstæðna, þ.e. bæði vegna eldgossins
í Eyjafjallajökli og vegna hrossaveikinnar sem er að fara um svæðið hér, að fresta reiðskólum Sindra um óákveðinn tíma en vonumst við til þess að hægt verði að halda skólana í sumar samt sem áður.
 
Með kveðju
Reiðskóla- og æskulýðsnefnd Sindra

05.05.2010 18:22

Smitandi hósti í hrossum - stöðumat 4. maí

Nú eru 4 vikur liðnar frá því tilkynning barst um smitandi hósta í hrossum, nokkuð samtímis í Skagafirði og á Suðurlandi. Þá þegar var ljóst að veikin hafði búið um sig um nokkra hríð, 3-4 vikur hið minnsta og kannski miklu lengur.

Þó ekki sé búið að greina orsökina hefur nokkur reynsla safnast um gang veikinnar og myndin skýrist dag frá degi.

Einkenni:
Greinilegasta einkennið er þurr hósti sem menn verða oft fyrst varir við í reið. Samtímis eða nokkru fyrr má í sumum tilfellum greina slappleika og nefrennsli, í einstaka tilfellum mæði. Þegar frá líður fá mörg hrossanna mikinn, graftarkenndan hor og hósta þá gjarnan mikið og frísa. Þau sem fara verst út úr sýkingunni fá hita. Einkennin vara í 2 - 4 vikur og lengur í einhverjum tilfellum.

Faraldsfræði:
Misjafnt er hversu langan tíma tekur frá því smit berst í hesthús þar til hestarnir fara að hósta eða 1 - 3 vikur. Sjúkdómsferillinn virðist býsna líkur milli hesthúsa og er einkennandi að aðeins fáir hestar veikjast í byrjun og yfirleitt vægilega. Þá er eins og smitið magnist upp og einni til tveimur vikum síðar eru allir hestarnir í húsinu farnir að hósta og jafnvel komnir með graftarkennt nefrennsli. Það má ganga að því vísu að allir hestar sem á annað borð eru í smituðu umhverfi veikist. Bendir það til þess að allur hrossastofninn sé næmur fyrir sýkingunni og því er líklega um nýtt smitefni að ræða hér á landi. Ekki liggur fyrir hversu lengi hross smita út frá sér eða hversu langur tími líður frá því veikin gengur yfir í hesthúsi þar til það verður smitfrítt.

Algengasta og greinilegasta smitleiðin er með smituðum eða veikum hrossum sem flutt eru milli húsa. Einnig berst hún með reiðverum og líklega geta menn borið hana á milli hesta ef ekki er gætt nægilegs hreinlætis. Veikin hefur nú borist í útigangshross en alla jafna sýna þau aðeins væg sjúkdómseinkenni.

Ekki eru fyrirliggjandi tæmandi upplýsingar um útbreiðslu sjúkdómsins þegar þetta er skrifað en vitað með vissu að hann er í: Skagafirði, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Borgarfirði, Reykjavík og á Reykjanesi. Einhver dæmi eru um veik hross í Eyjafirði og í Húnavatnssýslum.

Meðferð veikra hrossa:
Algjör hvíld er lykilatriði allt frá því fyrst verður vart við einkenni sjúkdómsins. Búa verður hrossunum eins loftgott umhverfi og frekast er unnt án þess þó að það slái að þeim eða þeim verði kalt. Gott er að nota ábreiður á hross sem að mestu eru gengin úr vetrarhárum. Með hlýnandi veðri er æskilegt að hafa hrossin mikið úti við. Lyfjameðhöndlun kemur til greina hjá þeim hrossum sem harðast verða úti, einkum þeim sem fá hita og/eða mikinn hor.

Varast ber að byrja brúkun fyrr en hrossin eru örugglega hætt að hósta og helst ætti ekki að byrja að nota þau fyrr en nokkrum dögum eftir að öll einkenni eru gengin yfir. Að öðrum kosti er hætt við að veikin taki sig upp aftur og hrossin verði lengur að komast í nothæft form.  Búast má við að glannaleg meðferð auki líkurnar á asma og öðrum eftirköstum. Byrja skal þjálfun á ný afar rólega m.a. til að tryggja að hrossið sé örugglega hætt að hósta en einnig verður að gera ráð fyrir takmörkuðu þreki og þoli fyrst eftir að bata er náð.

Greiningar:
Veirurannsóknir hafa hingað til ekki skilað árangri. Búið er að útiloka þekktar öndunarfærasýkingar s.s. hestainflúensu, smitandi háls og lungnakvef/fósturlát (herpes týpa 1) og Rhino-kvef. Þó enn sé unnið að greiningu sjúkdómsins er möguleiki á því að orsökin finnist ekki ef um óþekkta veiru í hrossum að ræða og þar af leiðandi engin þekkt próf fyrir hendi. Út frá faraldsfræðinni og klínískum einkennum sem að framan eru rakin má þó telja næsta víst að veirusýking sé frumorsökin og að hún veiki slímhúðina og opni fyrir öðrum sýkingum. 
Bakteríuræktun hefur leitt í ljós að mikið er um sýkingar með Streptococcus zooepidemicus sem reyndar er algeng baktería í nefholi hesta. Svo virðist sem hún nái sér verulega á strik í kjölfar veirusýkingarinnar og valdi bæði alvarlegri hósta og hinum mikla gratarkennda hor.

Hvað er framundan:
Tekið skal fram að ekki er víst að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar orsakir og/eða eftirköst sjúkdómsins og því erfitt að spá fyrir um hvað verður. Vonir eru bundnar við að verulega dragi úr smitinu með vorinu og að sjúkdómurinn valdi því ekki röskunum á sjálfu LM 2010.
Hestaeigendur eru hvattir til að fylgja þeim leiðbeinandi reglum sem gefnar hafa verið út og flytja ekki milli húsa eða staða veika eða smitaða hesta. Alls ekki má mæta með slíka hesta á mót eða sýningar af nokkru tagi og halda skal keppnis- og sýningahaldi í lágmarki.

Sigríður Björnsdóttir
Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun

  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 302
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 150
Samtals flettingar: 1136533
Samtals gestir: 173513
Tölur uppfærðar: 2.3.2021 20:14:33