Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2010 Mars

31.03.2010 12:21

Kvennareið með karlana


Á morgun, 1. apríl, verður farin hin árlega kvennareið með karlana.

Það verður lagt af stað frá hesthúsinu hans Árna Gunn kl 15:00

Gjaldið er 1,000 kr á manninn og leggja skal það inn á reikn:

0317-26-7622 kt. 540776-0169  í dag.

Vinsamlega sendi greiðslukvittun á
isbud@simnet.is

28.03.2010 19:10

3. vetrarmót

Jæja gott fólk þá er 3. og síðasta vetrarmóti þessa vetrar lokið og gekk bara ljómandi vel. Svona þegar tæknin komst í lag hjá okkur.

Mig langar að þakka ykkur öllum fyrir komuna jafnt keppendum sem áhorfendum. Veðrið var gott þó kalt væri en hvorki knapar né aðrir létu það á sig fá
Ég er búin að koma úrslitunum til hennar Dóru og hún kemur þeim hér inn á síðuna fljótlega. Ég veit líka að hún tók heilmikið af myndum svo við eigum væntanlega von á því hér inn líka.  Mig langar líka að benda fólki á að endilega senda henni myndir frá mótunum okkar því ég veit að margir eru að taka myndir bæði í dag og á fyrri mótum. Myndir og auðvitað annað skemmtilegt má senda henni á netfangið
dorajg@simnet.is Ekki vera feimin við að senda.

Að lokum langar mig að minna ykkur á að Firmakeppnin verður Sunnudaginn 11. apríl kl 14:00 á Sindravelli og vonandi sé ég ykkur sem allra flest þar.

Með þökk fyrir daginn í dag
Formaður

24.03.2010 17:11

Kvennareið með karlana
 
Hin sívinsæla og árlega kvennareið með karlana er
 
fyrirhuguð 1. apríl næstkomandi.
 
Að vanda verður riðinn góður reiðtúr frá hesthúsinu
 
hans Árna og eftir reiðtúrinn verður snæddur matur
 
í Leikskálum en þar mun gleðin ríkja við völd fram
 
eftir kvöldi.
 
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir sunnudaginn
 
28. mars hjá:

Dóru í síma: 895-5738 (e-mail dorag@hive.is)

eða hjá Árna í síma 893-9438

 
F.h.

Ferða-og fræðslunefnd hmf Sindra

23.03.2010 08:59

Frá yfirdýralækni

Neytendavernd - lyfjaskráning - örmerkingar


1.        Aukin eftirfylgni með lögum sem eiga að tryggja að ekki séu
lyfjaleifar í hrossakjöti.


Matvælastofnun hefur eftirlit með notkun dýralyfja í íslenskum landbúnaði og
er ætlað að tryggja að engar lyfjaleifar séu í íslensku kjöti hvort sem það
er ætlað á innlendan markað eða til útflutnings. Samkvæmt lyfjalögum lýtur
öll notkun dýralyfja ströngum reglum og er löggjöfin í samræmi við
lyfjalöggjöf Evrópusambandsins. Þar eru m.a. settar kvaðir á dýralækna um
útgáfu lyfseðla og að þeir skrái alla notkun á dýralyfjum. Nánari reglur um
skráningu á notkun dýralyfja, svo og um ábyrgð dýraeigenda í því sambandi,
er m.a. að finna í reglugerðum um aðbúnað hrossa nr. 160/2006 og merkingar
búfjár nr. 289/2005, með síðari breytingum.

Matvælastofnun hafa nú borist ábendingar frá Evrópusambandinu  vegna
eftirlits með framkvæmd framangreindra laga og reglugerða  og kröfur um
aukna eftirfylgni, þannig að áfram verði heimilt að flytja út hrossakjöt til
aðildarríkja Sambandsins.

Kröfurnar lúta fyrst og fremst að bættri skráningu á allri lyfjanotkun og
þeim  biðtíma til afurðarnýtingar sem við á.  Þannig geta sláturhús
sannreynt að hross sem koma til slátrunar séu ekki í sláturbanni vegna
lyfjanotkunar. Til þess að hægt sé að tryggja öryggi afurðanna og ganga úr
skugga um að þær séu lausar við lyfjaleifar, þarf að auka eftirlit í
sláturhúsum og tryggja eftirfylgni með einstaklingsmerkingum hrossa. Í
reglugerð um merkingar búfjár er kveðið skýrt á um að skylt  sé að
einstaklingsmerkja öll hross í landinu eldri en 10 mánaða.
Úrbætur þessar þurfa að vera komnar í gagnið fyrir miðjan apríl 2010,  eigi
að vera um frekari útflutning á hrossakjöti til Evrópusambandsins að ræða.


2.        Hestapassi

Í Evrópusambandinu er gefinn út hestapassi fyrir öll hross með nákvæmri
lýsingu á hrossinu auk ýmissa annarra upplýsinga. Þar er kveðið á um hvort
nýta megi sláturafurðir af hrossinu til manneldis og skylt er að skrá í
hestapassann meðhöndlanir með tilteknum lyfjum sem leiða af sér langan
biðtíma til afurðarnýtingar. Hestapassinn fylgir hrossinu við eigendaskipti,
flutninga og að lokum í sláturhús. Evrópureglugerðin um hestapassa hefur
ekki verið innleidd hér á landi enda vart talið framkvæmanlegt miðað við
þann hjarðbúskap sem algengastur er í íslenskri hrossarækt og á sér ekki
hliðstæður í Evrópu.

Við útflutning á hrossum verður að gefa út hestapassa og er sú útgáfa á
hendi Bændasamtaka Íslands sem einnig halda utan um allar skráningar hrossa
í gagnagrunninum Veraldarfeng (www.worldfengur.com ), WF. Nýjasta útgáfan af
hestapassanum gerir ráð fyrir lyfjaskráningu með sama hætti og annars staðar
í Evrópu og þurfa því upplýsingar um lyfjanotkun a.m.k. 6 mánuði aftur í
tímann að liggja fyrir þegar hestapassinn er prentaður út.

Matvælastofnun hefur í samvinnu við Bændasamtök Íslands lagt alla áherslu á
að fá WF viðurkenndan af Evrópusambandinu sem rafrænan hestapassa. Með því
móti teljum við okkur geta haldið utan um allar upplýsingar er varða
neytendavernd og sjúkdómavarnir.


Búið er að byggja inn í WF möguleikann á skráningu allrar lyfjanotkunar í
hross auk þess sem upplýsingar um biðtíma til afurðarnýtingar birtast nú á
forsíðu þeirra hesta sem við á.  Þetta  auðveldar sláturhúsum að fyrirbyggja
að kjöt af hrossum í sláturbanni fari inn í fæðukeðjuna.


3.        Helstu atriði sem eigendur og umráðamenn hrossa verða að hafa í
huga:

·        Öll hross eldri en 10 mánaða eiga að vera skráð og örmerkt. Hross
sem fædd eru árið 2008 eða síðar skulu vera örmerkt en frostmerking er áfram
tekin gild sem einstaklingsmerking eldri hrossa.
·        Ekki má meðhöndla hross nema þau séu einstaklingsmerkt. Í
bráðatilfellum er þó vikið frá þessari reglu og hrossin annað hvort örmerkt
samtímis meðhöndluninni eða tilvikið tilkynnt Matvælastofnun sem mun ganga
eftir að ákvæðum merkingarreglugerðarinnar sé fylgt. Hross með svo óskýr
frostmerki að ekki er hægt að lesa af þeim með öryggi skoðast ómerkt. Sama á
við um hross sem skráð eru með örmerki sem ekki finnst. Hafi hross verið
örmerkt en merkingin ekki skráð í WF,  þarf eigandinn að sjá til þess að
skráningu verði lokið innan viku. Að öðrum kosti verður tilvikið tilkynnt
Matvælastofnun sem mun ganga eftir að ákvæðum merkingarreglugerðarinnar
verði fylgt.
·        Allar lyfjameðhöndlanir og upplýsingar um biðtíma til
afurðarnýtingar ber að skrá í WF.  Bæði dýralæknar og eigendur bera ábyrgð á
að svo sé gert.
·        Aðeins má senda einstaklingsmerkt hross til slátrunar. Undanþegin
eru folöld yngri en 10 mánaða en þau skulu merkt með einstaklingsnúmeri
móður, t.d. með hálsbandi. Af því leiðir að aðeins er leyfilegt að nota
skráðar og einstaklingsmerktar hryssur til kjötframleiðslu. Berist ómerkt
dýr í sláturrétt sláturhúss skal því slátrað og eiganda þess gefinn 24 klst.
frestur til að færa sönnur á uppruna dýrsins. Yfirdýralæknir metur í hverju
tilviki hvað telst fullnægjandi sönnun. Takist ekki að sanna
uppruna/einstaklingsnúmer dýrsins er óheimilt að setja afurðirnar á almennan
markað.Í janúar 2010

Halldór Runólfsson,
yfirdýralæknir

21.03.2010 18:22

Búfjáröryggi

Viðbrögð við gosi í Eyjafjallajökli færu eftir árstíð og aðstæðum en yrðu þó svipuð í fyrstu ogviðbrögð við gosi í Kötlu. Þegar gos hefst, þarf strax að huga að því að safna saman og taka á hús það sem unnt er af fénaði sem úti er, einkum þar sem hætta er á öskufalli. Halda þarf frá beit, t.d. með rafgirðingum sem auðvelt er að setja upp með litlum fyrirvara, grasbítum sem ekki verða hýstir, þ.e. einkum hrossum. Hvatt er til að slíkar girðingar séu til í nægilegu magni í verslunum. FYRIRHYGGJUSAMIR KAUPA SJÁLFIR SLÍKAN BÚNAÐ ótilkvaddir.

Tryggja þarf skepnum, sem úti eru ómengað fóður og rennandi vatn annað hvort í lækjum eða úr vatnslögnum. Hindra þarf aðgang skepnanna að beit og pollum eða grunnum vötnum og lygnu straumvatni, sem gæti mengast tímabundið af flúorríkri ösku eða vikurflákum. Flytja getur þurft fénað burt af öskufallssvæðum, einkum yngri dýr. Skynsamlegt gæti verið að fresta slætti þar til rignt hefur á öskuna eða flúormengun minnkað. Menn gætu þurft að bjarga heyöflun með grænfóðurrækt þar sem kostur er eða með því að flytja að ómengað hey. Steinefnablöndur hafa verið settar saman fyrir búfé á svæðum í grennd við álver erlendis. Þær blöndur eru kalkríkar og oft einnig með álsöltum. Bæði þau efni binda flúor fljótt og vel. Mismunandi skoðanir eru þó á gagnsemi þeirra til að afstýra flúoreitrun.

16.03.2010 16:15

ATH breytt dagsetning á kvennareiðtúr !!

Farinn verður kvennareiðtúr með karlana þann 1. apríl
Nánar auglýst síðar

kveðja
Mótanefnd

12.03.2010 01:00

Úrslit vetrarmóts eru loksins komin inn.


Ef einhverjir voru með myndavél á svæðinu væri gaman að fá eitthvað af myndum
frá ykkur svo það komi einhverjar myndir inn á síðuna.

Endilega sendið þær á dorajg@simnet.is

11.03.2010 10:26

NÁMSKEIÐ...

Jæja á morgun rennur upp fyrsti dagur námskeiðsins hjá krökkunum okkar. það er 15 krakkar sem ætla að leggja land undir fót og skreppa á Hellu og æfa sig. Þetta verður eflaust mikið fjör og mikið gaman. Það er búið að send út póst á foreldra þeirra barna sem eru skráð á námskeiðið og þar eru allar upplýsingar um hverjir keyra hvern og allt svoleiðis. Ég vona bara að einhver af bílstjórunum taka með sér myndavél og smelli af nokkrum myndum sem hægt verður svo að smella hér inn við tækifæri.

En að allt öðru. Ég er búin að senda Dóru úrslit síðasta vetrarmóts og þau hljóta að fara koma  hér inn.

Ég skora á þá sem eru með myndir frá síðasta vetrarmóti nú eða því fyrsta að senda henni Dóru nú myndir.. Því hún er ekki sjálfkjörinn myndasmiður félagsins og getur kanski ekki alltaf verið á staðnum að mynda allt. En ég veit að einhverjir voru með myndavélar og endilega að senda henni..

Eins ef þið hafið frá einhverju skemmtilegu að segja að senda henni svo hægt sé að deila með okkur hinum.

Með félagskveðju
Formaður
emoticon

05.03.2010 10:25

2. Vetrarmót

Jæja gott fólk
Valkvíða mínum lauk í gærkvöldi eftir að hafa farið í skoðunarferð á Sindravöll og átt gott spjall við spekinga og niðurstaðan er þessi.


2. Vetrarmót Sindra VERÐUR haldið sunnudaginn 7. mars kl 15:30 á Reiðvellinum í Vík.

Ástæða þess að Vík varð fyrir valinu er einfaldlega sú að þrátt fyrir að hringvöllurinn sé nánast auður á Sindravelli. Þá er allt umhverfi í kring mjög þungfært og blautt svo ekki sé meira sagt og við sáum fyrir okkur að það yrðu unnar miklar skemmdir á vallarsvæðinu ef við færum að hleypa umferð þar inn á.. Og ekki viljum við það

Þannig að nú vona ég bara að það rigni sem mest í dag og að hægt sé að ryðja af vellinum í Vík en ég var búin að gera ráðstafanir þess vegna.

Hlakka bara til að sjá ykkur öll á sunnudaginn í góða skapinu..
kveðja f.h Mótanefndar
Petra

04.03.2010 09:44

2. Vetrarmót

Jæja gott fólk..
Ný líður að sunnudegi og stefnan er tekin á að halda Vetrarmót nr 2 þá. Eins og kanski einhverjir eru búnir að sjá þá hefst það ekki fyrr en 15:30 vegna Æskulýðsmessu i Víkurkirkju. (auglýst í Vitanum kl 14)
Nú ég er komin með verulegann valkvíða þar sem ég veit ekkert hvort á að halda mótið á Sindravelli (sem er nánast alveg auður) eða í Vík á reiðvellinum þar (töluverður snjór þar enn) En það spáir rigningu á morgun og laugardag.. En þá spurningin hvort völlurinn í Vík verði kanski svo blautur að ekkert sé varið í að vera þar..
 Mér þætti óskaplega vænt um ef einhverjir sæu sér kanski fært að kanna aðstæður t.d á morgun í Vík.. Þar sem það eru jú þið sem ætlið að keppa en ekki ég og þar að auki hef ég ekki hundsvit á hvort völlurinn sé nothæfur eða ekki.

Hins vegar vil ég fá skráningar á netfangið mitt: solheimar2@simnet.is  eða í síma 866-0786 fyrir hádegi á sunnudag í síðasta lagi.

Hlakka hinsvegar til að sjá ykkur sem allra flest á sunnudaginn og hafið góða skapið með ykkur..

Kveðja
formaður mótanefndar

03.03.2010 11:45

"Hestanálgun" í Rangárhöll

Sunnudaginn 7. mars nk. kl. 13 verður boðið upp á nýstárlegan og mjög svo áhugaverðan viðburð í Rangárhöllinni  á Hellu. Um er að ræða samsetta kennslusýningu undir nafninu "Hestanálgun" þar sem að koma nokkrir kennarar og sýnendur og fjallað verður um allt ferlið:  Meðhöndlun, tamningu og þjálfun hestsins frá fyrstu snertingu að fullmótuðum hesti á keppnisbraut.

Sýningin fer þannig fram að fyrst fjallar Magnús Lárusson í fyrirlestri um fortamningar ungra hrossa og sýnir vinnubrögð við fortamninguna. Þar á eftir munu reiðkennararnir Ísleifur Jónasson og Sara Ástþórsdóttir, auk knapans knáa Jóhanns K. Ragnarssonar, fjalla um ábendingar, þjálfun gangtegunda og jafnvægi í áframhaldandi þjálfun.

Að kaffihléi loknu munu svo stórknaparnir Vignir Siggeirsson, Hinrik Bragason og Sigurður Sigurðarson mæta til leiks og verður þeim leiðbeint um þjálfun keppnishrossa af sjálfri Rúnu Einarsdóttur - Zingsheim sem koma mun alla leið frá Þýskalandi til að taka þátt í sýningunni. Rúna mun einnig fjalla um mismunandi áherslur í þjálfun hrossa á meginlandi Evrópu og hér á landi, auk þess að svara fyrirspurnum. Það verður örugglega ekki komið að tómum kofanum þar sem Rúna á í hlut, enda margverðlaunaður knapi með áratuga reynslu í þjálfun keppnishrossa.
Sýningin er öllum opin.

Aðgangseyrir er kr. 2.000

Frítt er fyrir börn fædd 1997 og yngri.
  
Ekki missa af þessum einstaka viðburði!

01.03.2010 10:04

Landsmót 2010

Forsala er hafin á Landsmót hestamanna 2010 á

Vindheimamelum 27. júní - 4. júlí.

Forsalan stendur til 1. maí.
 
 


Vildarkjör eru í boði fyrir félaga í aðildarfélögum LH og BÍ sé miði
keyptur í forsölu. Í forsölu er veittur allt að 25% afsláttur, sé miðað
við fullt verð á vikupassa, og að auki fá félagar í LH og BÍ 25% afslátt.

Forsala miða hér
 

01.03.2010 09:50

Reiðnámskeiði frestað

Reiðnámskeiði sem halda átti 3. mars

hefur verið frestað um eina viku vegna veðurs og ófærðar

  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 257
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 150
Samtals flettingar: 1136488
Samtals gestir: 173513
Tölur uppfærðar: 2.3.2021 19:11:37