Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2010 Janúar

22.01.2010 20:36

Fyrsta vetrarmót

1. Vetrarmót Sindra verður haldið laugardaginn 30. janúar.

Mótið hefst stundvíslega kl 14:00.

Mælst er til þess að skráð sé fyrirfram á netfangið

solheimar2@simnet.is eða í síma 866-0786/487-1322
 
þó verður tekið við skráningum á staðnum líka.
 
Síðast séns á skrá sig í síma/netfang er kl 10:00 þann 30/1.
 
Varðandi stigakeppnina þá reiknast stigin svona:

1. sæti 12 stig
2. sæti 10 stig
3. sæti 8 stig
4. sæti 7 stig
5. sæti 6 stig
6. sæti 5 stig
7. sæti 4 stig
8. sæti 3 stig
9. sæti 2 stig
10. sæti 1 stig
 
Mótanefnd.

22.01.2010 20:34

Youth Cup 2010


Dagana 10.-18. júlí verður haldið YOUTH CUP í Kalø Økologiske Landbrugsskole í Danmörku.
Sjá nánar á heimasíðu mótsins á www.youthcup2010.dk og um mótsstaðinn á www.kalo.dk

Ísland sendir 8 fulltrúa á mótið og er óskað hér með eftir að æskulýðsfulltrúar hestamannafélaganna komi meðfylgjandi auglýsingu og þessum upplýsingum áfram til áhugasamra unglinga á aldrinum 14-17 ára.

Skila þarf inn umsókn til Landssambands hestamannafélaga til og með 1. mars hvort heldur sem er á tölvupósti: lh@isi.is  - símbréfi 5144031 - eða bréfleiðis til okkar að Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Það sem þarf að koma fram í umsókninni er nafn knapa, heimilisfang, símanúmer, mynd og aldur ásamt upplýsingum um hestamannafélag og keppnisreynslu. Einnig þarf að koma fram enskukunnátta og svo þurfa 2 meðmælendur að skrifa nokkrar línur um viðkomandi. Meðmælendurnir mega ekki vera foreldrar umsækjanda.
Með í för verður fararstjóri og liðsstjóri úr æskulýðsnefnd Landssambandsins.

Kostnaður vegna þátttöku í mótinu er í kringum 600 evrur auk kostnaðar við kaup á flugmiða. Innifalið í kostnaðinum er gisting, fæði, kennsla, hesthúspláss og skráningargjöld fyrir keppendur. Aukagreiðslur eru hugsanlega fyrir flutning á hrossi á mótsstað, leiga á reiðtygjum og dýralækniskostnaður.

Mótið fer þannig fram að á fyrsta degi (laugardegi) er þátttakendum skipt í alþjóðleg lið og er einn liðsstjóri með hverju liði. Fyrstu 3 dagana (sunnudag - þriðjudag) eru þau í þjálfun og undirbúningi fyrir keppnina og er keppt eftir sérstökum Youth Cup reglum.  Síðan hvíla knapar og hestar einn dag (miðvikudag) og er þá hópnum boðið í einhvers konar skemmtiferð. Síðustu 3 dagana (fimmtudag - laugardag) fer síðan keppnin fram. Er þá bæði keppt í liða- og einstaklingskeppni. Foreldrum og öðrum gestum er ekki leyft að vera á mótstað fyrr en keppnin hefst á fimmtudeginum.

Hugmyndin með alþjóðlegu liðunum er að þar fá krakkarnir tækifæri til að kynnst krökkum frá öðrum löndum, þar eignast þau oft vini til lífstíðar og einnig að æfa tungumálakunnáttuna.
Landssamband hestamannafélaga sér alfarið um að útvega keppnishrossin nema ef að þátttakandi hefur aðgang að hrossi þá er það bara hið besta mál og endilega láta það þá koma fram í umsókninni.

Vona að þessum upplýsingum verði komið áleiðis til að gefa unglingum okkar tækifæri á að fara í skemmtilegt ferðalag og kynnast áhugasömum hestakrökkum frá öðrum löndum.

Að lokum, ef að búið er að skipta um æskulýðsfulltrúa, vinsamlega hafið samband við skrifstofu LH og látið vita um breytingarnar.

Með bestu kveðju,
f.h. æskulýðsnefndar LH
Helga B. Helgadóttir, formaður

22.01.2010 14:49

Tilkynning frá yfirdýralækni

 Til hrossaeigenda
Neytendavernd - lyfjaskráning - örmerkingar
1.        Aukin eftirfylgni með lögum sem eiga að tryggja að ekki séu lyfjaleifar í hrossakjöti.


Matvælastofnun hefur eftirlit með notkun dýralyfja í íslenskum landbúnaði og er ætlað að tryggja að engar lyfjaleifar séu í íslensku kjöti hvort sem það er ætlað á innlendan markað eða til útflutnings. Samkvæmt lyfjalögum lýtur öll notkun dýralyfja ströngum reglum og er löggjöfin í samræmi við lyfjalöggjöf Evrópusambandsins. Þar eru m.a. settar kvaðir á dýralækna um útgáfu lyfseðla og að þeir skrái alla notkun á dýralyfjum. Nánari reglur um skráningu á notkun dýralyfja, svo og um ábyrgð dýraeigenda í því sambandi, er m.a. að finna í reglugerðum um aðbúnað hrossa nr. 160/2006 og merkingar búfjár nr. 289/2005, með síðari breytingum.  

Matvælastofnun hafa nú borist ábendingar frá Evrópusambandinu  vegna eftirlits með framkvæmd framangreindra laga og reglugerða  og kröfur um aukna eftirfylgni, þannig að áfram verði heimilt að flytja út hrossakjöt til aðildarríkja Sambandsins.
         
Kröfurnar lúta fyrst og fremst að bættri skráningu á allri lyfjanotkun og þeim  biðtíma til afurðarnýtingar sem við á.  Þannig geta sláturhús sannreynt að hross sem koma til slátrunar séu ekki í sláturbanni vegna lyfjanotkunar. Til þess að hægt sé að tryggja öryggi afurðanna og ganga úr skugga um að þær séu lausar við lyfjaleifar, þarf að auka eftirlit í sláturhúsum og tryggja eftirfylgni með einstaklingsmerkingum hrossa. Í reglugerð um merkingar búfjár er kveðið skýrt á um að skylt  sé að einstaklingsmerkja öll hross í landinu eldri en 10 mánaða.
Úrbætur þessar þurfa að vera komnar í gagnið fyrir miðjan apríl 2010,  eigi að vera um frekari útflutning á hrossakjöti til Evrópusambandsins að ræða.  

2.        Hestapassi

Í Evrópusambandinu er gefinn út hestapassi fyrir öll hross með nákvæmri lýsingu á hrossinu auk ýmissa annarra upplýsinga. Þar er kveðið á um hvort nýta megi sláturafurðir af hrossinu til manneldis og skylt er að skrá í hestapassann meðhöndlanir með tilteknum lyfjum sem leiða af sér langan  biðtíma til afurðarnýtingar. Hestapassinn fylgir hrossinu við eigendaskipti, flutninga og að lokum í sláturhús. Evrópureglugerðin um hestapassa hefur ekki verið innleidd hér á landi enda vart talið framkvæmanlegt miðað við þann hjarðbúskap sem algengastur er í íslenskri hrossarækt og á sér ekki hliðstæður í Evrópu.

Við útflutning á hrossum verður að gefa út hestapassa og er sú útgáfa á hendi Bændasamtaka Íslands sem einnig halda utan um allar skráningar hrossa í gagnagrunninum Veraldarfeng (www.worldfengur.com ), WF. Nýjasta útgáfan af hestapassanum gerir ráð fyrir lyfjaskráningu með sama hætti og annars staðar í Evrópu og þurfa því upplýsingar um lyfjanotkun a.m.k. 6 mánuði aftur í tímann að liggja fyrir þegar hestapassinn er prentaður út.  

Matvælastofnun hefur í samvinnu við Bændasamtök Íslands lagt alla áherslu á að fá WF viðurkenndan af Evrópusambandinu sem rafrænan hestapassa. Með því móti teljum við okkur geta haldið utan um allar upplýsingar er varða neytendavernd og sjúkdómavarnir.


Búið er að byggja inn í WF möguleikann á skráningu allrar lyfjanotkunar í hross auk þess sem upplýsingar um biðtíma til afurðarnýtingar birtast nú á forsíðu þeirra hesta sem við á.  Þetta  auðveldar sláturhúsum að fyrirbyggja að kjöt af hrossum í sláturbanni fari inn í fæðukeðjuna.

 
3.        Helstu atriði sem eigendur og umráðamenn hrossa verða að hafa í huga:

·        Öll hross eldri en 10 mánaða eiga að vera skráð og örmerkt. Hross sem fædd eru árið 2008 eða síðar skulu vera örmerkt en frostmerking er áfram tekin gild sem einstaklingsmerking eldri hrossa.
·        Ekki má meðhöndla hross nema þau séu einstaklingsmerkt. Í bráðatilfellum er þó vikið frá þessari reglu og hrossin annað hvort örmerkt samtímis meðhöndluninni eða tilvikið tilkynnt Matvælastofnun sem mun ganga eftir að ákvæðum merkingarreglugerðarinnar sé fylgt. Hross með svo óskýr frostmerki að ekki er hægt að lesa af þeim með öryggi skoðast ómerkt. Sama á við um hross sem skráð eru með örmerki sem ekki finnst. Hafi hross verið örmerkt en merkingin ekki skráð í WF,  þarf eigandinn að sjá til þess að skráningu verði lokið innan viku. Að öðrum kosti verður tilvikið tilkynnt Matvælastofnun sem mun ganga eftir að ákvæðum merkingarreglugerðarinnar  verði fylgt.
·        Allar lyfjameðhöndlanir og upplýsingar um biðtíma til afurðarnýtingar ber að skrá í WF.  Bæði dýralæknar og eigendur bera ábyrgð á að svo sé gert.
·        Aðeins má senda einstaklingsmerkt hross til slátrunar. Undanþegin eru folöld yngri en 10 mánaða en þau skulu merkt með einstaklingsnúmeri móður, t.d. með hálsbandi. Af því leiðir að aðeins er leyfilegt að nota skráðar og einstaklingsmerktar hryssur til kjötframleiðslu. Berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skal því slátrað og eiganda þess gefinn 24 klst. frestur til að færa sönnur á uppruna dýrsins. Yfirdýralæknir metur í hverju tilviki hvað telst fullnægjandi sönnun. Takist ekki að sanna uppruna/einstaklingsnúmer dýrsins er óheimilt að setja afurðirnar á almennan markað.

18.01.2010 20:03

Læra meira

Þá er kominn tími til að bæta meira við þekkingu okkar og hæfni í reiðmennskunniemoticon

Fyrirhugað er annað námskeið hjá hinum alkunna Magga Lár með áherslu á töltþjálfun.

Hin námskeiðin sem haldin hafa verið voru virkilega fróðleg og skemmtileg
og það er takmarkaður fjöldi þátttakenda líkt og áður.
Svo það er um að gera að skrá sig í hvelli og vera með í fjörinu.
Þetta verða þrjú skipti á tveggja vikna fresti, við byrjum klukkan 13:00 stundvíslega
og verðum að eitthvað fram eftir degi.
Greiðslufyrirkomulag er það sama og hefur verið með greiðslu inn á reikning Hestamannafélagsins Sindra sem gefinn er upp í glugganum hér til hægri á síðunni.

Athugið að það þarf að greiða allt gjaldið fyrir fyrsta dag námskeiðs !

Fyrsti dagur er fimmtudaginn 4. febrúar

Annar dagur er fimmtudaginn 18. febrúar

Lokadagur er fimmtudaginn 4. mars


Námskeiðið verður haldið í Eyjarhólum og ef þannig stendur á er hægt að koma með reiðskjótann kvöldið áður og geyma hann þar yfir nótt endurgjaldslaust.

Þátttakendur þurfa að koma með hest, reiðtygi, hjálm, písk og góða skapið með sér.

Skráning fer fram hjá Hjördísi Rut í S: 861-0294 eða á sudur-foss@simnet.is
og Árna
Gunnarssyni í S: 893-9438

Kær kveðja
Ferða- og fræðslunefnd

08.01.2010 22:20

Fræðslukvöld

Litir hrossa og erfðir á þeim - Selfoss


Í samstarfi Landbúnaðarskóla Íslands og Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu hrossaliti og erfðum þeirra lýst.

Myndir verða mikið notaðar og raunveruleg dæmi tekin til útskýringar.

Markmiðið er að þátttakendur öðlist skilning á helstu atriðum litaerfðanna.

Kennari: Guðni Þorvaldsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Stund og staður: Mið. 13. jan. 2010 kl. 19:45-22:00 í félagsheimili Sleipnis,
 
Suðurtröð á Selfossi.

Verð: 1000 kr til félagsmanna Hrossaræktarsamtaka Suðurlands 

aðrir 1500 kr. Greitt á staðnum, ekki er tekið við kortum.

Skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000.

  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 183
Gestir í dag: 96
Flettingar í gær: 367
Gestir í gær: 187
Samtals flettingar: 1137952
Samtals gestir: 174216
Tölur uppfærðar: 7.3.2021 13:57:15