Frá því Ísland byggðist hefur hesturinn, sem nú er kenndur við landið, þjónað íbúum þess af eljusemi og þeim til yndisauka. Hann var aðal flutningstækið þar til vélar tóku við um og fyrir miðja 20. öld og ýmist notaður til reiðar, burðar eða dráttar. Vísbendingar um þessi þrautseygu burðardýr eru mörkuð í fjöll og heiðar þessa lands og víða má enn sjá gamlar götur milli landshluta sem bera þögult vitni um ferðir hesta og manna, fram og til baka í aldanna rás. Umfjöllunarefnið hér er umbúnaður hestanna, hvað var notað á þá til burðar, dráttar og reiðar.
Þegar talað er reiðver er um að ræða allan reiðskap á hest, þ.e. reiðtygi, aktygi, klyfjareiðskap og allt sem tilheyrði flutningum. Öll reiðver voru unnin af ýmsum hagleiksmönnum og smiðum, en söðlasmíði varð ekki sérstök iðngrein fyrr en á 19. öld. Hér verður því leitast við að gefa yfirlit yfir reiðverasmíð frá landnámi til þeirra tíma er iðnlærðir meistarar tóku að smíða reiðtygi með nýjum aðferðum, og nýju útliti um miðja 19. öld.
Reiðverasmíði hefur alla tíð verið stunduð í landinu. Fáar heimildir eru þó til um þá iðju á fyrstu öldum, en fleiri er nær dregur nútíma. Gera má ráð fyrir að handverkfæri sem notuð voru við söðla- og reiðverasmíð hafi lítið breyst fyrr en farið var að nota ný tæki í kjölfar iðnbyltingar á 18. og 19. öld. Nærtækt er að virða fyrir sér reiðver sem varðveist hafa og skoða lýsingar á þeim í rituðum heimildum. Ritaðar lýsingar eru góðar svo langt sem þær ná en mikilvægust eru sjálf reiðverin. Víða í minjasöfnum landsins eru varðveitt reiðver frá fyrr tíð og lýsa best bæði tækni og þekkingu söðlasmiðanna og hvað bauðst til afnota. Elstu íslensku reiðtygin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Ísland og í danska þjóðminjasafninu.
Ritaðar heimildir um reiðver er víða að finna og vitnað til þeirra í lesmáli þar sem það á við. Veigamestu upplýsingarnar eru í Íslenzku fornbréfasafni, Búalögum, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, Íslendinga sögum, Sturlunga sögu, Íslenzkum þjóðháttum eftir séra Jónas Jónasson, Faxa dr. Brodda Jóhannessonar og greinum um söðlasmíðar í Iðnsögu Íslands eftir Guðmund Finnbogason og Ögmund Helgason í bókinni Hugvit þarf til hagleikssmíðar.
Reiðtygi tóku ýmsum breytingum í aldanna rás. Efnafólk átti glæsilega söðla og fagurlega búin beisli sem hinir efnaminni horfðu á með lotningu. Sauðsvartur almúginn lét sér lynda tvo jafnfljóta eða að henda reiðskinni eða þófa á bak reiðskjótans. Margar útgáfur af reiðtygjum mátti sjá eftir efnum og ástæðum. Í flestum tilvikum riðu menn á þófa heimafyrir en söðluðu hestana ef þeir ætluðu í kirkju eða kaupstað. Karl og kona tvímenntu oft og sat þá konan kvenveg aftan við karlinn eða kona reið ein í söðli sínum. Þófi var úr ullarþæfu og alltaf girtur undir söðla eins og dýna. Söðlar voru yfirleitt frábærlega skreyttir, málaðir eða settir dýrum málmum og steinum. Í setu var söðulesessa til að mýkja sætið og yfir söðulinn var breitt söðuláklæði til að verja söðulinn og konuna fyrir ryki og öðrum óhreinindum.
Standsöðlar karlmannanna sem voru með háum bríkum að aftan og framan og voru notaðir langt fram á 17. öld viku þá fyrir þægilegri og léttari útgáfu, hinum svokallaða bryggjusöðli, en á honum voru bríkurnar framan og aftan miklu lægri en á gömlu söðlunum og farið var fljótlega að tala um hnakka því þeir líktust mjög stólkollum með því nafni. Kvensöðlarnir héldi lagi og nafni miklu lengur. Um miðja 19. öld breyttust bæði kvensöðlarnir og hnakkarnir. Bæði fengu fastan þófa eða dýnu og baksveif kvensöðulsins var mjókkuð og settur klakkur fyrir hægri fót þannig að konan skásnéri fram á hestinum, með vinstri fót á fótafjöl. Reiðbeislin voru yfirleitt stangabeisli, fagurlega skreytt og mjög vandað til þeirra. Taumbeislin voru miklu einfaldari. Auk reiðvera og ýmissa fylgihluta þeirra verða samgöngur og flutningar einnig hér til umfjöllunar.
Nútíma reiðverasmíð á rætur sínar á 19. öld og stendur enn með miklum blóma. Litlu söðlasmíðaverkstæðin, sem tóku við af handverksfólki fyrri alda, virðast senn víkja fyrir stærri framleiðleiðendum og síauknum innflutningi. Vonandi er þó að einhver þeirra haldi velli því ef þau hverfa, hverfur um leið skrefið frá handverkfærum til vélvæðingar. Skrefið sem gjörbreytti áferð og útliti reiðvera fortíðarinnar. Skrefið sem tekið var af gildislærðum iðnmeisturum í kjölfar iðnbyltingarinnar.
Áður tóku margir til hendinni er söðull var smíðaður. Hver vann sitt. Einn komst í rekavið, annar sútaði skinn og elti, þriðji smíðaði skreytti úr góðmálmi, fjórði óf voð, fimmti þæfði ull í þófa, sjötti vann gjarðir úr hrosshári og svo framvegis. Allt kom það saman í fullkomið reiðver þess tíma og verkfærin sem þá voru notuð eru flest horfin í glatkistuna. Sumt af því sem framleitt var er horfið og gleymt, annað hefur varðveist og verið notaðar lengi. Hringamélin halda enn velli og létt reiðver hafa alltaf þótt þægilegri en þung og stirð, þótt enginn þurfi að velkjast í vafa um hvort þótti flottara glæsibúinn standsöðullinn eða ullaþófinn. Mörg tískufyrirbrigði hafa litið dagsins ljós í útliti og gerð reiðtygja, en flest hafa horfið í aldanna skaut.