Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2008 Ágúst

31.08.2008 15:03

Skýrsluhald í hrossarækt

Bændasamtök Íslands halda utan um miðlægan gagnagrunn á netinu um íslenska hestinn. Þessi gagnagrunnur hefur fengið nafnið WorldFengur enda aðgengilegur öllu áhugafólki um íslenska hestinn hvar sem er í heiminum. Gagnagrunnurinn hefur að geyma upplýsingar um alla kynbótadóma, ætterni, kynbótamat, uppruna, ræktendur, eigendur, afdrif og einstaklingsmerkingar. Inn í þennan gagnagrunn senda hrossaræktendur upplýsingar um sín ræktunarhross gegnum skýrsluhald í hrossarækt. Í dag eru öll aðildarlönd FEIF aðilar að WorldFengnum, að Frakklandi, Færeyjum og Kanada undanskildum.

Skýrsluhald í hrossarækt er lykilatriði í ræktun íslenska hestsins en með því er haldið utan um mikilvægustu upplýsingarnar, ætternið. Án þeirra væri ekki um neitt ræktunarstarf að ræða. Bændasamtök Íslands hafa yfirumsjón með skýrsluhaldinu í samvinnu við búnaðarsamböndin.

Hvað þarf til að gerast þátttakandi?
Hafa samband við viðkomandi búnaðarsamband eða Bændasamtök Íslands og óska eftir því að fá senda folaldaskýrslu. Ræktandinn fær úthlutað númeraröð sem hann notar síðan á sín hross. Ef viðkomandi á hross sem ekki eru grunnskráð er nauðsynlegt að byrja á því að skrá þau. Það er hægt að gera með því að fylla út grunnskráningareyðublöð sem hægt er að nálgast undir eyðublöð hrossaræktarinnar hér undir áhugavert. Grunnskráningarblöð má einnig nálgast hjá búnaðarsamböndunum eða BÍ. Hrossaræktarráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands veitir aðstoð við grunnskráningar ef þess er óskað. Þátttakendur fá síðan senda folalda- og afdrifaskýrslu á hverju hausti.

Hvað segir fæðingarnúmerið okkur?
Út úr fæðingarnúmerinu má lesa fæðingarár, kyn, landssvæði og bæjarnúmer. Bæjarnúmer er það númer sem viðkomandi ræktanda er úthlutað um leið og hann gerist þátttakandi í skýrsluhaldinu. Hér fyrir neðan eru tekin tvö dæmi:

Hvað má lesa úr eftirfarandi númeri IS1999187106?

Fæðingarland Fæðingarár Kyn Landssvæði Bæjarnúmer
IS (Ísland) 1999 1 (hestur) 87 (Árnessýsla) 106 (ræktandi)

Hvað má lesa úr eftirfarandi númeri IS2001285810?

Fæðingarland Fæðingarár Kyn Landssvæði Bæjarnúmer
IS (Ísland) 2001 2 (hryssa) 85 (V-Skaft) 810 (ræktandi)

Gæðaskýrsluhald
Árið 1998 var tekið upp gæðavottað skýrsluhald til að koma til móts við þær kröfur að auka öryggi á ætternisupplýsingum. Folöld fædd 1999 voru fyrstu gripirnir sem komu til skráningar í þessu nýja kerfi. Enn sem komið er er aðeins lítill hluti hrossastofnsins með þessa vottun, af folöldum fæddum 2001 eru aðeins um 30% með A-vottun. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því hvað þarf til að fá folald A-vottað en þetta er í raun einfalt ferli. Í stuttu máli eru það þrjár skýrslur sem þurfa að berast fyrir ákveðinn tíma til skráningar. Nánari útlistun á hverri fyrir sig er að finna hér fyrir neðan.

1) FANGVOTTORÐ/ STÓÐHESTASKÝRSLUR
Fangvottorðið fyllir hryssueigandinn út en lætur síðan umsjónarmann stóðhestsins undirrita þannig það sé staðfest að hryssan hafi verið hjá viðkomandi stóðhesti. Ef hryssan er ómskoðuð vottar dýralæknir það með sinni undirskrift. Ef ræktandi leigir stóðhest sem er í öllum hans hryssum getur hann valið þá leið að fylla út stóðhestaskýrslu. Einstaka umsjónarmenn stóðhesta skila inn slíkum skýrslum en það er alfarið á ábyrð hryssueigandans að kanna hvort það sé gert. Þessum skýrslum ber að skila fyrir 31.12 árið sem hryssan fékk.
2) FOLALDASKÝRSLA
Næsta skýrsla er folaldaskýrslan en hún er send þeim sem eru þátttakendur í skýrsluhaldinu. Þessi skýrsla kemur hálfútfyllt og þar eru listaðar allar hryssur viðkomandi ræktanda, auk þess kemur fram nafn og númer þess stóðhests sem hryssan var leidd til (sbr. fangvottorð síðasta árs). Það eina sem ræktandinn þarf að gera er að merkja við hvort hryssan hafi verð geld, látið eða kastað. Ef hryssan hefur kastað er gert grein fyrir kyni, lit, einstaklingsnúmeri (sem ræktandinn getur valið úr sinni númeraröð) og afdrifum folaldsins. Þessi skýrsla þarf að berast BÍ eða búnaðarsamböndunum fyrir 31.12 árið sem folaldið fæðist.
3) SKÝRSLA UM EINSTAKLINGSMERKINGU
Lokastigið er síðan einstaklingsmerking folaldsins og eru þá jafngildar örmerkingar- og frostmerkingar. Folaldið skal merkja þegar við móðurhlið. Þegar um er að ræða folald í gæðavottuðu skýrsluhaldi er nóg að fram komi á vottorðinu fæðingarnúmer, nafn og uppruni folaldsins auk frost- eða örmerkis. Mikilvægt er að bæði merkingamaður og eigandi/ umráðamaður skrifi undir skýrsluna. Þessi skýrsla verður að berast til BÍ eða búnaðarsambandanna fyrir 1. mars árið eftir að folaldið fæddist. Lista yfir frost- og örmerkingarmenn á Suðurlandi má finna undir "Áhugavert" hægra megin á síðunni.

Hafi þessar þrjár skýrslur skilað sér á réttum tíma fær folaldið gæðavottun á ætternisupplýsingar og er það tekið fram á upprunavottorði ef til útflutnings kemur. Haustið 2002 fengu öll A-vottuð folöld útprentað eignarhaldsskírteini en það skírteini á að fylgja hrossinu sé það selt.

Er hægt að fá gæðavottun eftir öðrum leiðum?
Ef hross hefur af einhverjum ástæðum ekki fengið A-vottun er hægt að fara þá leið að sanna ætternið með DNA-ætternisgreiningu. Dýralæknir tekur þá blóðprufu úr hrossinu og það er síðan sent til greiningar í Svíþjóð. Kostnaður við þetta er þó nokkur, greiningin kostar um 5.000 kr og eitthvað tekur dýralæknirinn fyrir blóðtökuna. Algengt verð fyrir blóðtöku og greiningu er 10.000 kr.

Afdrifaskýrsla
Hvort sem þátttakendur í skýrsluhaldi eru virkir í gæðaskýrsluhaldi eða ekki fá þeir allir senda afdrifaskýrslu. Á afdrifaskýrslunni koma fram öll hross viðkomandi ræktanda og þar er hægt að gera grein fyrir hvað verður um hvert hross, s.s. sölu, geldingu og förgun. Brýnt er að nafn og kennitala kaupanda komi skýrt fram þegar eigendaskipti eru gerð.
Eigendaskiptablað
Eigendaskipti á skýrslufærðum hrossum eru skráð eftir tveim jafngildum leiðum, á afdrifaskýrslu eða á eigendaskiptablað. Eigendaskiptablöðin hafa þann kost að þeim má skila inn til skráningar hvenær sem er ársins en það er eðlilegast að gengið sé frá eigendaskiptum strax og sala hefur átt sér stað. Hægt er að sækja eigendaskiptablað undir eyðublöð hrossaræktarinnar.

22.08.2008 05:30

Gömul vinnubrögð

Í heyskap þótti góður og gegn siður , er rakstrarfólk gekk heim á leið eftir hirtum teignum að draga hrífuna með sér. Því þó vandlega hefði verið rakað varð alltaf einhver vottur af stráum eftir í rótinni. Þá kom æfinlega smá tugga fyrir hrífutindana. Og
hver lambstugga er safnaðist var dýrmæt. Sennilega hefði því fólki sem hér áður gekk að heyvinnu ofboðið þær miklu dreifar sem nú á dögum hverfa aftur til moldar. Þegar gjafatími hófst varð að byrja á að leysa úr dyrum, gera sér gjafarými, svo var hey leyst milli dyra í hlöðunni, þar með var komin geil svo komast mætti í alla garðana úr hlöðu. Hey var leyst með heysting öðru nafni heynál, sumir nefndu áhaldið heykrók. Í  Borgarfirði var yfirleitt talað um heysting. Gjarnan var handfang heystingsins úr birki, og var endinn vinkilbeygður er nam handarbreidd, sverleiki handfangsins var sirka ein og hálf tomma. Skaftið varð að fara vel í hendi því æði marga klukkutíma yfir vetrarmánuðina handlék fjármaðurinn og eða fjósamaðurinn heystinginn.

Í vetrarbyrjun var gjarnan talað um heystæðu í hlöðu, svo leið frammá vetur, þá var farið að tala um heystabbann og undir vorið þegar orðið var heylítið, þá var talað um klegga. Þegar leyst var úr stáli (heystæðunni) var metnaður lagður í að heystálið væri lóðbeint, hvergi holur né önnur missmíð. Ef hey hafði verið borið upp úti, sett í galta, var gjarnan borið inn í hlöðu, hey úr þeim sem dugði í nokkur mál og varð þá að ganga vel frá sárinu. Orðið Strjúpi var líka notað í sömu merkingu. Alltaf var notaður heyskeri þegar tekið var úr galta. Heyskerar fóru að verða algengur á sjötta áratug síðustu aldar. Var gjarnan notað efni úr gömlum herfisdiskum í skerablaðið. Var skerinn mikið þarfatæki og létti mönnum heylosun til mikilla muna. Við veggi og botn hlöðunnar varð hey Dauft, það voru nefndar botndeyfur ( veggdeyfur) þetta var gjarnan gefið útigangi (hrossum.) Einnig var orðið botnrekjur haft um hey er á hlöðubotni var. Oft var lakara hey í efsta hluta heystæðunnar, það skapaðist jú af því, að taðan var hirt fyrst, þá engja heyskapur, og að honum loknum vantaði meira fóður til vetrarins. Þá var máski slegið í flóum. Þetta var oft nefnt flóarubb. Svo var fornslægja, það var hey af bletti er ekki hafði verið
sleginn árið á undann. Trúlega væru svona hey ekki vel fallin til fengieldis nútímans.

Fleiri heytegundir voru til. Til dæmis Finnungur sem líklega hefur aðeins verið til á fjallbæjum, grastegundin sú vex jú aðallega í dalabrekkum til fjalla. Til dæmis vex Finnungur í miklum breiðum í vesturhliðum Staðarmúla á Bröttubrekku. Finnungur þótti gott gemlinga fóður, en vildi setjast í hálsullina á þeim, sökum stífleika stráanna. Elftingar hey var og til. Elfting var mest áberandi á deigum engjum í lá héraðinu, (orða tiltæki um neðri hluta Borgarfjarðar héraðs.) Þetta þótti létt fóður, varð að þurrka mjög vel, en best þótti að binda það í úða rigningu,(Slúð með öðrum orðum Súld.)Elftingin varð að ornast(volna, hitna) aðeins. Hún ást ekki ef hún var græn. Elftingin hvarf að mestu úr gróður flórunni er farið var að nota tilbúinn áburð. Henni líkaði ekki sá siður. Stör var líka sleginn. Störin óx best í útjöðrum tjarna og kýla. Eg heyrði talað um að sláttumaðurinn hefði staðið í vatni upp fyrir hné við verk sitt. Dæmi hef eg um að stör væri sleginn eftir að frost var komið, og ís orðinn mannheldur. Faðir minn sagði mér sögu af bónda nokkrum er sló stararkraga á ís. Setti störina í lítil Drýli (sátu) og stakk göt á með priki. Sagði svo grönnum sínum að hann hefði Prikþurrkað störina. Semsagt, tilraun með einfalda súgþurrkun. Þetta gerðist í byrjun tuttugustu aldarinnar. Stör varð að þurrka vel til að hún yrði gott fóður. Annars vildi stararhey verða myglað. Hún var það sem kallað var þekkirramt gras, þurfti helst skerpuþerri. BROK var og nýtt
til vetrarfóðurs. Þegar sumri fer að halla skartar þessi grastegund sínum fallega rauðbrúna lit. Brok vex eingöngu í deigu landi. Ekki blautu en með góðum jarðraka. Annað séreinkenni broksins er að það varðveitir kólfinn grænan og safaríkan langt fram á vetur. Á sumrin sækja kindur ekki í brok, en eru sólgnar í það er vetrar, einkum í Krafsjörð. Það var talað um að kind fyllti sig í þremur kröfsum, í góðum brokflóa.

Einn var hlutur í hverri hlöðu. Það var hríssópur. Hann var gerður úr limi af birki. Gert var dálítið knippi og bundið vel saman. Neðri endinn var snyrtur til og þar með var sópurinn kominn. Að loknum gjöfum var svo hlöðugólfið vandlega sópað. Það var einn liðurinn í að ganga vel um gripahúsin. Einn var sá siður að hrista allt hey áður en það var gefið á garðann. Mygla var vandlega hrist úr. Svo tilhneiging sumra að blanda lakara fóðri samanvið gott. Allt þurfti að hrista saman. Maðurinn stóð í ryk og myglu mekki við þetta verk. En samt skildi hrist. Ekki er fjarri lagi að ímynda sér að uppspretta heymæði sem margan manninn þjáði hafi verið þarna. Þá er komið að lokum í þessum þætti. Hér er strikað á stóru og aðeins fátt eitt nefnd að öllum þeim aragrúa orða og orðasambanda er notuð voru um þessi verk.

Með kveðju.

Jakob Jónsson,Smáraflöt 1, Akranesi.

08.08.2008 16:00

ÞÓRSMERKURFERÐ

Datt í hug að setja hér inn nokkrar línur.
Þá er föngulegur hópur manna og kvenna lagður af stað inn í Þórsmörk. Í blíðskaparveðri var farið af stað frá Efstu Grund kl 12:30 í dag.
Yngsti ferðalangurinn er 12 ára og sá elsti vel yfir 70 ára. Svo það er breitt aldursbil á fólkinu. En vonandi fá þau jafn gott veður og er hér í Vík.
Góða skemmtun og hafið það gott.
  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 150
Samtals flettingar: 1136504
Samtals gestir: 173513
Tölur uppfærðar: 2.3.2021 19:43:44