Ég rakst á þennan frábæra pistil eftir Ingimar Sveinsson um frjósemi kynbótahrossa og fannst tilvalið að smella honum hingað inn svo að þið gætuð lesið þetta líka.
--------------------------------------------------------------------
Ingimar Sveinsson
Hvanneyri
Áhrif fóðrunar og meðferðar á frjósemi kynbótahrossa.
Inngangur.
Fyrir rúmum áratug var góð frjósemi talinn einn af höfuðkostum íslenska hrossastofnsins.
Í dag er léleg frjósemi eða lágt fyljunarhlutfall hjá stóðhestum aðal áhyggjuefni hrossaræktenda. Því er tímabært að vekja umræðu um þetta vandamál og reyna að finna ástæður vandans .
Ekki ætla ég mér þá dul að ég hafi einhverja allsherjar lausn á vandamálinu, en vil hér aðeins benda á nokkur atriði sem hugsanlega geta haft áhrif þar á.
Hverjar eru líklegar orsakir skertrar frjósemi?
- 1. Minkandi frjósemi í stofninum ?
- a) Vegna rangs úrvals kynbótahrossa, einkum stóðhesta .
- b) Vegna aukinnar skyldleikaræktar.
Vissulega hefur ekki verið tekið nægt tillit til frjósemi stóðhesta við úrval, en sú minkun í frjósemi sem gert hefur vart við sig að undanförnu getur vart verið nema að litlu leyti af þeim sökum á svo stuttu tímabili, eða aðeins rúmu ættliðabili.
Skyldleikarækt hefur aðeins aukist í hrossastofninum á undanförnum áratug (Þorv. Kristjánsson mastersritgerð 2004). Sýnt hefur verið fram á í sumum erlendum hrossastofnum og öðru búfé að skyldleikarækt leiði til minkaðrar frjósemi, en skyldleikarækt íslenska hrossastofnsins í dag er ekki það mikil að hún sé veruleg orsök, og lélegt fanghlutfall er ekki, að séð verði, bundið við skyldleikaræktaða stóðhesta í þessu tilviki.
Því virðist nærtækara að leita annarra orsaka
2.Misbrestur á fóðrun og meðferð kynbótahrossa ?
Mér finnst líklegri skýring á vandamálinu sé sú breyting sem orðið hefur á fóðuröflun og fóðrun á síðustu 10-15 árum.
Hvað hefur breyst ?
Fyrir rúmum áratug voru hross nær einvörðungu fóðruð á þurrheyi. Í dag eru þau mestmegnis fóðruð á ?heymeti". Heymeti kalla eg forþurrkað hey með yfir 50% þurrefni sem verkað er í plasthjúpuðum rúlluböggum eða ferböggum.
Hvaða áhrif hefur breytingin?
Hún hefur veruleg áhrif á vítamíninnihald fóðursins og þar með nýtingu steinefna.
D-vítamín er forsenda fyrir nýtingu steinefnanna kalsíum (Ca) og fosfórs (P) úr fóðrinu. Skortur þessara efna, einkum fosfórs hefur áhrif á frjósemi.
Gras inniheldur ekkert D-vítamín við slátt. Það myndast við skin sólarinnar á heyið eftir að það er slegið. Því styttri tími sem það liggur á velli því minna er D-vítamíninnihald þess. Sem sagt, hey verkað í plasti er D-vítamín snautt, sólþurrkað þurrhey auðugt af því.
Íslenskt hey er yfirleitt með fremur lágt kalsíum- og fosfórinnihald og ef D-vítamín er einnig af skornum skammti í fóðrinu er veruleg hætta á skorti þessara steinefna.
Úr þessu má auðveldlega bæta með viðeigandi steinefnagjöf og einni til tveimur matskeiðum af lýsi á dag yfir innistöðutímann.
E-vítamín, sem oft er kallað frjósemisvítamín, hefur mjög afgerandi áhrif á frjósemi margra dýrategunda. Ekki er ólíklegt að svo sé einnig að einhverju leyti hjá hrossum.
Tilraunir hafa sýnt að mikið álag og stress (algengt í stóðhestagirðingum) eykur bæði C- og E-vítamínþörf hrossa.
Í dönskum tilraunum (Landsbladet Hest 3/97) jókst fyljunarhlutfall hryssna úr 58% í 78% við selen-E gjöf.
E-vítamín og selen eru mjög tengd. Ef lítið er af öðru þeirra í fóðrinu þarf meira af hinu. Skortseinkenni þeirra eru þau sömu enda oftast talað um selen-E skort. Efnagreiningar á íslensku heyi hafa sýnt að seleninnihald er víða í eða undir lágmarki.
Selen-E skortur hefur farið mikið í vöxt í nautgripum (ófrjósemi, kálfadauði, hvítvöðvasýki ) og einnig í hrossum á síðari árum (eftir rúllubaggavæðinguna).
Selenskortur í hrossum lýsir sér sem stirðleiki og hvíðvöðvasýki í ungviði, stirðleiki (einkum í afturparti) og deyfð í reiðhrossum og getur í sumum tilfellum verið orsök fyrir að hryssur ekki hildgast.
Rúllubaggar og selen-E.
Selen er steinefni svo varla hefur verkunaraðferðin áhrif á innihald heysins af því.
Meiri líkur eru á því að E-Vítamínið rýrni eða eyðileggist í rúlluböggunum. Talið er að E-vítamín geymist vel í mjólkusýrugerjuðu votheyi. Í heymeti (forþurrkuðu rúlluheyi) verður næstum engin gerjun. Kolsýra (Co2) sem myndast við öndun heysins í böggunum ver heyið skemmdum og líkur benda til að hún eyðileggi einnig E-vítamínið. Lágt innihald fóðursins af selen og/eða skortur á E-vítamíni getur haft veruleg áhrif á frjósemi.
Úr þessu má bæta með viðeigandi steinefna og vítmíngjöf. Varast ber þó að offóðra með selen, því að mjög stutt er í eituráhrif.
Fóðrun, meðferð og frjósemi stóðhesta.
Sæðismyndun stóðhesta hefst löngu fyrir fengitíð og þarf því að haga fóðrun í samræmi við það og vanda til fóðrunar og meðferðar stóðhesta allt árið til að sem bestur árangur náist. Einnig eru sæðisbirgðir stóðhests ekki óþrjótandi.
- Því þarf að hugsa vel um mikið notaða stóðhesta strax að fengitíma loknum og byrja að undirbúa þá undir næstu ?vertíð"
- Byrja þarf að gefa þeim með beitinni strax í septemberlok.
- Fóðra þá á góðu fóðri (ekki mjög síðslegnu).
- Tryggja steinefna og vítamínþörf.
- Hófleg hreyfing og þjálfun er til bóta. (eftir að tekið er á hús)
Skipuleggja á notkun eftirsóttra stóðhesta þannig að hámarks notkun og árangur náist.
* 1. Við húsnotkun:
a) Nota snuðrara en ekki eftirsótta stóðhesta til að leita á hryssunum. Það dregur úr
fýsn stóðhests að leita á hryssum, og hættan á að þeir verði slegnir er mest við að
leita hryssum sem ekki eru í látum. Við það geta þeir hvekkst og orðið tregari til að
gagnast hryssum.
b) Ekki ráðlegt að halda hryssu fyrr en á þriðja degi eftir að hún byrjar í látum og síðan
ekki tíðar en annan hvern dag. Slíkt sparar stóðhestinn án þess að skerða fanglíkur.
* 2. Í Stóðhestagirðingum
a) Takmarka skal fjölda hryssna hjá hesti. (fjöldi kominn út í öfgar)
Í flestum heimildum er varað við ofnotkun, einkum ungra stóðhesta. Hún er talin geta
leitt til ýmissa óvana, sem stundum koma fram seinna og einnig til tímabundinnar eða
jafnvel vararlegrar ófrjósemi. Í norskum tilraunum kom greinilega í ljós að frjósemi
sumra stóðhesta minkaði verulega við mikla stöðuga brúkun.
b) Tryggja þarf nægan og góðan haga (þessu er oft mjög ábótavant).
. Gróður þarf að vera nægjanlegur og girðingarnar það grösugar að beitin endist út
tímabilið. Stóðhestar eru mikið á ferðinni og gefa sér oft lítinn tíma til að bíta
og fá því ekki næga næringu nema beitin sé það góð að þeir geti fyllt sig á stuttum
tíma. (Aflagning dregur úr fýsn og frjósemi).
Folaldshryssur sem mikið mjólka og ekki hafa næga beit liggja gjarnan niðri (fara
ekki í hestalæti) og fyljast því ekki. Auk þess minkar mjólkurnyt þeirra, sem
kemur þá fram í lélegum þrifum folalda.
Góðar kynbótahryssur eru lykillinn að árangri í hrossarækt.
Því verða ræktendur að vera kröfuharðir um val kynbótahrossa, og tryggja þeim sem besta fóðrun og umhirðu.
Markmið góðs hrossaræktanda er:
- Að fá sem flest folöld undan góðu hryssunum sínum.
- Að þær festi fang þegar þeim er haldið, eignist hraust folöld árlega
og skili þeim vænum að hausti.
Eftirfarandi atriði í fóðrun og meðferð kynbótahryssna stuðla að því:
1. Tryggja þarf nægilegt prótein, steinefni og vítamín í fóðrinu.
2. Hryssur í þriflegum holdum halda best.
3. Magrar hryssur halda ver en hryssur í þriflegum holdum.
4. Mjög feitar hryssur halda ver en hæfilega feitar hryssur,
en varast ber að láta þær leggja af rétt fyrir fengitímann.
5. Hryssur í aflagningu halda illa burtséð frá holdafari þeirra.
6. Bötun eða fengieldi bætir verulega frjósemi og fanglíkur
7. Reynsla er fyrir því erlendis að hryssur í mikilli þjálfun eða
brúkun fari ekki í hestalæti og /eða haldi illa fyrst eftir að
þjálfun er hætt. Allt bendir til að svo sé einnig hérlendis.
Því er árangursríkara að halda þeim á meðan þær eru í þjálfum.
Að lokum:
- Það er dýrt að leiða undir hátt dæmdan og eftirsóttan stóðhest.
- Yfirleitt skilar sá kostnaður sér þó aftur í góðu afkvæmi.
- Það dýrasta af öllu er að eiga góðar hryssur og fá ekki undan þeim afkvæmi.
- Því ber að vanda eins og kostur er aðbúnað, fóðrun og alla meðferð kynbótahrossa.
Með hrossaræktar kveðju
Ingimar Sveinsson