Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2008 Apríl

28.04.2008 11:50

Skilaðboð til unglinganna okkar!!!!

Halló krakkar og þá kannski foreldrar líka!

Mér var að berast eftirfarandi póstur!

Kæri æskulýðsfulltrúi

Við erum að senda út bréf í öll félögin til að kanna áhuga á þátttöku í hestaíþróttum á unglinga landsmóti UMFÍ sem haldið verður dagana 1-3 ágúst 2008 í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina.

Okkur þætti vænt um að heyra frá ykkur, hvort áhugi er fyrir hendi hjá börnum og unglingum í ykkar félagi . Keppt er í tölti og fjórgangi barna 11-13 ára og tölti og fjórgangi unglinga 14-18 ára. Keppt er eftir FIPO reglum.

Við erum að reyna finna út c. fjölda keppenda til að geta boðið upp á sem besta aðstöðu fyrir keppendur, Mjög gott væri að fá svar frá ykkur fyrir 20 maí.

Endilega hafði samband ef þið viljið frekari uppl.

F.H. Háfeta.
Anna L. Gunnarsdóttir.
893-6782
heljar@simnet.is

Svo krakkar nú er bara að taka gæðingana til, þið megið hafa samband við mig og ég get skráð ykkur. Inni á Lhhestar.is undir æskulýðsnefnd LH og fræðsla er handbók þar sem þið getið lesið um reglur í barna og unglingakeppni á blaðsíðu 15, endilega kíkið á þetta:  http://www.landsmot.is/files/38/20080421230446994.pdf

Með kveðju Vilborg

25.04.2008 10:15

Auglýsingar.

Ertu með hest, hnakk, beisli, bíl í hestana, reiðföt eða hvað sem er sem þú vilt selja? 
Vantar þig eitthvað sérstakt í hestamennskuna?
Sendu póst á dorag@hive.is og auglýsingin þín kemur hér inn....

22.04.2008 18:09

ÚRTAKA FYRIR LANDSMÓT 2008..

Halló halló gott fólk.
Vegna fyrirspurnar um úrtöku fyrir Landsmót 2008.
Þá talaði ég við formann Geysis um að hvort við mættum vera með á þeirra úrtöku móti. Það var auðvitað auðsótt mál. Eina sem við þurfum að gera er að fylgjast með hvenær skráning á það mót er.
Það mót verður 7-8 júní.
Hmf- Sindri má senda 2 hesta í hvern flokk. Þ.e barna- unglinga- ungmenna- B og A flokk. Þannig að nú er um að gera að vera með og reyna að komast inn á Landsmót.
Ég ætla að fá frekari upplýsingar þegar nær dregur en þið megið gjarnan banka í mig ef ég gleymi mér. (gerist stundum með aldraðar konur)
þar til næst.
Sjáumst
Petra Kristín Kristinsdóttir

18.04.2008 23:24

FÉLAGSGJÖLD

Vegna fyrirspurnar hér fyrir neðan varðandi félagsgjöld.
Þá var það samþykkt á Aðalfundi félagsins 29. febrúar síðast liðinn að hækka félagsgjöldin.
Ástæðan er einfaldlega sú að þegar við erum búin að greiða okkar gjald af hverjum einstakling á aldrinum 16 til 67 ára til LH. Þá var nánast ekkert eftir.
Félagsgjöldin hafa verið þau sömu í all mörg ár. Man nú ekki alveg hversu mörg.
Það má kanski segja líka að við þurfum að fá einhverjar tekjur inn í félagið líka.
Ég skal algjörlega taka það á mig að þetta hafi ekki verið tilkynnt til félagsmanna með formlegum hætti. EN mér láðist að setja þetta inn í fréttabréfið sem fór út fyrir páska.
Nú eru félagsgjöldin þannig að börn 0-5 ára borga 0 kr. 6- 15 ára greiða 1000 kr. 16 ára og eldri 3500 kr.
Börnin voru að greiða 500 kr. Þau fengu svo 500 kr í afslátt í reiðskólanum þannig að þau komu út á núlli.
En svona að lokum þá vona ég að þetta komi ekki að sök og mér finnst líka alltaf skemmtilegra að fá athugasemdir undir nafni.
En læt þessu lokið og hafi þið einhverjar fleiri athugasemdir þá beinið þeim endilega til mín og ég reyni að svara þeim eftir fremsta megni.
þar til næst.
Sjáumst.
Petra Kristín Kristinsdóttir
formaður

17.04.2008 18:35

Ræktunarmarkmið

 
Ræktunarmarkmið í íslenskri hrossarækt

Almenn ræktunarmarkmið
Heilbrigði, frjósemi, ending
Hið opinbera ræktunartakmark miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan hest ? hraustan íslenskan hest.
Litir
Hið opinbera ræktunartakmark er að viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins.
Stærð
Hið opinbera ræktunartakmark gefur færi á allmiklum breytileika hvað varðar stærð hrossanna. Almennt er talið að heppileg stærð sé á bilinu 135 til 145 cm á hæstar herðar mælt á stöng.

Sérstök ræktunarmarkmið
Sköpulag almennt
Almennt er stefnt að því að rækta hina léttbyggðari gerð íslenska hestsins með mikilli áherslu á styrk, skrokkmýkt og vöðvastælta líkamsbyggingu. Sköpulagið á að stuðla að mikilli ganghæfni og eðlisgóðum höfuðburði og á sama tíma að taka mið af almennt viðurkenndum fagurfræðilegum þáttum.

Sköpulag nánar
Vísað til einkunnarinnar 10 fyrir eiginleikana höfuð, háls, herðar og bógar, bak og lend, samræmi, fótagerð, réttleiki, hófar, prúðleiki á fax og tagl.

Reiðhestshæfileikar almennt
Almennt er stefnt að því að rækta fjölhæfan, taktfastan og öruggan, viljugan og geðprúðan hest sem fer glæsilega í reið - hinn íslenskan gæðing.

Reiðhestshæfileikar nánar
Vísað til lýsingar á einkunninni 10 fyrir eiginleikana tölt, brokk, skeið, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið, fet

Eiginleikarnir vega síðan misjafnlega innbyrðis eins og fram kemur í töflunni hér að neðan:

Höfuð
3%
Tölt
15%
Háls, herðar og bógar
10%
Brokk
7,5%
Bak og lend
3%
Skeið
9%
Samræmi
7,5%
Stökk
4,5%
Fótagerð
6%
Vilji og geðslag
12,5%
Réttleiki
3%
Fegurð í reið
10%
Hófar
6%
Fet
1,5%
Prúðleiki
1,5%
Samtals:
40%
60%

15.04.2008 11:37

Myndir

Nú eru loksins komnar inn myndirnar frá seinna vetrarmótinu     ég er búin að gera milljón tilraunir til að koma þeim inn en ekki tekist fyrr en nú.
Ef það eru einhverjar myndir þarna sem ykkur langar að eiga sjálfum þá er auðvelt að senda þær í pósthólfið ykkar beint úr myndaalbúminu eða hægri smella á músina og velja "save as".
Það voru margir á Firmakeppni með myndavélar að smella af á fullu....  ég sá ykkur !!!
Sendið mér nú einhverjar skemmtilegar myndir á dorag@hive.is svo að ég geti sett þær hér inn.  Ekki vera feimin. 

12.04.2008 18:45

FIRMAKEPPNI...

Jæja gott fólk.
Þá er Firmakeppnin búin að gekk alveg glimrandi vel.
Ég held að okkur hafi tekist að byrja á nokkurn vegin réttum tíma.
Það voru seld á milli 90 og 100 firma.. Og skráningin í alla flokka var mjög góð.
Ég setti inn úrslitin undir úrslit móta og vonandi hefur þetta tekist eins og það átti að gera.
Ég skora svo á alla mynda smiðina að setja inn myndir hér. Ég veit að Dóra er með fullt af myndum og líka Linda svo við erum vel byrg eftir daginn.
En mig langar til að þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum fyrir stuðninginn í kringum þetta mót. 
Og svona aðeins að lokum þá hefur verið ákveðið að nota þessa síðu áfram og byð ég ykkur þá um að setja inn hér því gamla síðan verður svo gerð óvirk með tíð og tíma.
Læt þetta duga í bili  og segi bara enn og aftur takk fyrir samveruna í dag. Bæði knapar og áhorfendur.

07.04.2008 14:49

FIRMAKEPPNIN

jæja gott fólk.
Þá er komið að okkar árlegu Firmakeppni.
Hún verður haldin á laugardaginn 12. apríl 2008 kl 14.  Á Sindravelli. Skráning hefst klukkutíma fyrr. Einnig hægt að skrá sig á netfangið solheimar2@simnet.is
keppt verður í polla- barna- unglinga- kvenna- karla- og unghrossa flokki.

Ef við verðum svo óheppin að veðrið verði okkur óhagstætt. Þá mun ég tala við Mumma í Skálakoti um að fá að flytja okkur þangað. En sú ákvörðun verður tekin á laugardagsmorguninn...
Ef einhverjir vilja kaupa firma og eru ekki í Mýrdalnum eða Undir Eyjafjöllunum þá má líka hafa samband við mig í netfangið solheimar2@simnet.is

En sjáumst svo öll hress og kát á Laugardaginn.
með kveðju fyrir hönd Mótanefndar.
Petra Kristín Kristinsdóttir.

07.04.2008 01:00

Beislisbúnaður: Hringamél og stangabeisli

Hringamél
Hringamél eru margvísleg að gerð og lögun. Velja þarf mélin með tilliti til þess hvað hesturinn er munnbreiður. Lengi var þeirri reglu fylgt að mélin ættu að rúmast vel í hendi fullorðins karlmanns. Ekki þarf að hugsa sig lengi um til að sjá að þessi regla stenst ekki. Menn eru mishandbreiðir og sama má segja um munnbreidd hesta. Kjaftgrannir hestar þurfa mél allt niður í 10 cm á milli hringa. Óvanalegt er að breiddin sé meiri en svo að 12,5 cm mél dugi ekki. Ef mélin eru of stutt liggja hringirnir of þétt að munnvikum og geta sært þau. Of löng mél auka hættu á tungubasli og sárum undan tönnum. Hæfilegt er að mélin séu allt að 1 cm lengri en breiddin á munninum en ekki meir.

Gildleiki mélanna skiptir einnig máli. Gild mél dreifa taumtakinu á stærri flöt í munni hestsins og eru þess vegna mýkri. Grönn mél eru skarpari og harðari og fara ekki eins vel með munninn. Þyngdin á mélunum þarf ekki að haldast í hendur við gildleikann því mörg gildari mél eru framleidd hol að innan. Hringirnir á mélunum eru betri stórir því þá er minni hætta á að þeir dragist upp í hestinn við tak á annan tauminn.

Þegar beisli er sett í fyrsta skipti upp í unghest er best að nota gild og létt hringamél. Munnurinn er mjúkur og viðkvæmur og harður beislisbúnaður getur valdið hestinum óþægindum. Sérstaklega er mikilvægt að nota mjúkan beislisbúnað við viðkvæma og skapmikla hesta. Óþægindi og meiðsli í munni valda því að folinn fer að taka á móti og verður jafnvel óþekkur. Alltaf verður að gefa gaum að munni hestsins og draga ályktanir af því sem maður sér og finnur. Undantekningar eru alltaf hugsanlegar.

Knapinn verður að gefa sér góðan tíma til að kenna hestinum að gefa eftir. Best er að ríða á feti, áfram og í hringi á báðar hendur og leggja þarf áherslu á að hesturinn gefi eftir í hnakkanum og hringi makkann við taumtak. Þegar knapinn hreyfir mélin uppi í hestinum á hann að bryðja þau og gefa eftir um leið. Þá er munnur hestsins votur og ef til vill freyðir hann svolítið. Hestur sem hreyfir ekki munninn á mélunum við taumtak gefur illa eftir og er ,frosinn" eins og það er gjarnan kallað. Við slíkan hest er best að nota mél sem hafa á miðjunni lausa hlekki eða annað álíka sem hangir niður á tunguna. Hesturinn fer að leika sér að þessu, bryður mélin og um leið eykst tilfinningin í munninum. Mikið japl getur haft þær afleiðingar að tungan hreyfist of mikið, hesturinn dregur hana upp og styttist þá í tungubasl. Þá þarf að skipta um mél í tíma.

Ef illa gengur með hringamél er oftast um að kenna hörðum og tilfinningalitlum höndum, háu taumhaldi og of miklum hraða áður en hesturinn hefur lært að gefa eftir. Þegar þannig stendur á er það einungis um sjálfsblekkingu að ræða ef notaður er harðari búnaður í stað þess fyrri. Laga þarf taumhöndina, lækka taumhaldið þannig að átakið komi meira þvert á munninn. Ríða þarf hægt þar til hesturinn fer rétt í beisli og þá má auka hraðann smám saman. Knapinn nær beinna og stöðugra sambandi við munn hestsins þegar riðið er við hringamél en við stangir. Flestir hestar gefa betur eftir til hliðanna þegar riðið er við hringamél. Eru þau sjálfsögð þegar reynt er að liðka upp taum og þá hlið sem hesturinn er stirður í og á erfitt með að beygja, einnig við slökunaræfingar.

Algengt er að menn telji betra að ráða við erfiða hesta með hörðu beisli. Þetta er ekki algilt. Skaphestur getur orðið reiður og grimmur þegar hann finnur þrýstinginn frá keðju stangarbeislis en hinn ljúfasti í skapi með mjúkt beisli.

Stangabeisli
Kjálkar stangaméla mynda vogarafl sem með hjálp keðjunnar auka átak taumtaksins. Aukning átaksins er mismikil eftir því hvað keðjan er strekkt og stangirnar langar. Óþarfi ætti að vera að taka það fram að mikla nákvæmni þarf við notkun þessa tækis svo vel fari og er það ekki við hæfi byrjenda.

Hinar hefðbundnu íslensku stangir eru skemmtilegur og sérstæður beislisbúnaður sem hvergi á sinn líka. Þær eru notaðar á töluvert annan hátt en stangir erlendis. Erlendar stangir eru ætlaðar fyrir stífa keðju og eru þær ekki settar við fyrr en hesturinn er að mestu fulltaminn og settur.

Hringamélin eru heppilegri í byrjun og á meðan hesturinn er að læra á beislið og ná hreyfingajafnvægi. Oft er gripið til íslensku stanganna þegar fara á að móta hestinn og setja. Þetta er engin algild regla og þarf hver og einn að finna út hvað hentar honum og hans hesti best.
Stangirnar eru yfirleitt notaðar með fremur léttri keðju. Þegar verið er að móta höfuðburð með stöngum er hestinum kennt að "elta keðjuna", eins og það er kallað. Keðjan er þá stillt þannig að hún snerti hestinn lítillega þegar hann hringar makkann hæfilega. Stöng og taumur mynda þá beina línu upp í hönd knapans. Lítið sem ekkert átak er þá á keðjunni. Ef hesturinn er með óstöðugan höfuðburð og fer upp í gan byrjar keðjan strax að taka á, reyndar um leið og línan stöng-taumur brotnar. Þegar þetta gerist er nauðsynlegt að hægja ferðina eða stansa. Hesturinn er þá látinn gefa eftir í hnakkanum og finna hvar hann þarf að halda höfðinu til þess að þrýstingurinn frá keðunni minnki eða hverfi. Þannig lærir hann hvar best er að hafa höfuðið. Knapinn getur líka stjórnað átakinu með því að lækka eða hækka hendurnar. Hægt er að ríða við stífari keðju síðar ef þurfa þykir, en það sem máli skiptir er að kenna hestinum að gefa eftir í rétta átt. Í einstaka tilfellum fer hesturinn að gefa sig um of, eltir keðjuna of langt niður, fer með nefið bak við lóðlínu og lætur ekki að stjórn. Hesturinn er þá ekki lengur við taum og er þetta ekki síður slæmur galli en gan. Ef hestur byrjar að fara á bak við beislið skal strax skipta yfir í hringamél.

Taumhald á stöngum er oft nokkru hærra en á hringamélum og taumsambandið þarf að vera örlítið frjálsara. Ef hafður er stöðugur taumstuðningur og keðjan liggur alltaf með átaki á kjálkanum, er hætta á að hesturinn verði kaldur á tauma. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gefa frjálsan tauminn af og til og létta þannig átakið. Yfirleitt er gott að skipta yfir í hringamél til hvíldar frá stöngunum.

Festing stanganna við mélin er þannig að þær geta hreyfst nánast í allar áttir. Þegar riðið er við frjálsan taum hreyfast stangirnar örlítið til og frá, þær hreyfa mélin uppi í hestinum og hann svarar með því að bryðja þau.

Stangirnar eru misjafnar að stærð og lögun. Það sem áður hefur verið sagt um mélin, hvað snertir lengd og gildleika, nær einnig til méla í stöngum. Eitt þýðingarmikið atriði er þó á annan veg. Hringamélin liggja alltaf eins í munni hestsins en staða mélanna í stöngum er breytileg. Frá því að stangirnar hanga niður við slakan taum og þar til þær vísa aftur, þegar tekið er í taum, breytist staða mélanna allt að 90°, en minna ef riðið er við stífa keðju.

Kjaftmél eru þannig að armar þeirra eru jafnlangir á einn veg en mislangir á annan. Er þetta vegna liðarins í miðjunni og sést þetta vel ef mél er lagt saman á tvo vegu með 90° horni á milli þeirra. Armar mélanna í stöngum verða að vera jafnir á þá hliðina sem leggst að munninum þegar tekið er í taum, en minna máli skiptir þó armarnir séu misjafnir þegar stöngin hangir niður. Þeir stangasmiðir sem smíða sín mél sjálfir gæta sín jafnan á þessu. Þeir sem notast við mél úr hringamélum, óbreytt, lenda í vandræðum. Þá eru mélin rétt upp í hestinum þegar stöngin hangir niður en um leið og tekið er í tauminn snýst mélið og verður skakkt í átaksátt. Þetta gerir það að verkum að hesturinn tekur misjafnt á stöngunum og skekkir sig. Þetta er kannski það sem skiptir mestu máli að athuga við val á stöngum.

Allir liðir þurfa að vera þjálir og gæta þarf þess að fjarlægja brúnir sem myndast við slit. Keðjan þarf að grípa í keðjufarið neðst á kjálkanum fram við hökuna. Þar er kjálkinn samvaxinn og keðjan getur lagst jafnt að alls staðar. Ef keðjan grípur ofar, þar sem beinið er tvískipt, er hætta á keðjusæri vegna þess að allt átakið lendir á kjálkabörðunum en dreifist ekki jafnt. Til þess að keðjan grípi nógu neðarlega, þarf bilið frá mélum að keðju að vera sem minnst. Stangirnar þurfa að vera grannar efst og nægilegt pláss er nauðsynlegt fyrir keðju og króka. Bestar eru keðjurnar sem eru með alla hlekki jafn stóra. Þær leggjast jafnar og gæta þarf að því að keðjunni sé snúið þannig að allir hlekkirnir leggist flatir saman. Best er að krókarnir séu stuttir og sem líkastir báðum megin.

02.04.2008 13:39

Myndir

Það gengur hægt að koma myndum inn á meðan vefurinn er í andlitslyftingu en þetta kemur vonandi allt fljótlega.
Ég er búin að fá loforð um nokkrar gamlar myndir fá Sindrafélögum en ég veit að það eru fleiri þarna úti sem luma á einhverjum gullmolum.
  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 215
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 367
Gestir í gær: 187
Samtals flettingar: 1137984
Samtals gestir: 174217
Tölur uppfærðar: 7.3.2021 15:13:00