Hestamannafélagið Sindri


Færslur: 2008 Mars

28.03.2008 17:30

REGLUGERÐ

REGLUGERÐ

um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa.

 

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Tilgangur, markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja góðan aðbúnað hrossa og að þau hafi ætíð nægilega beit/fóður og vatn. Einnig að notkun á hrossum sé í samræmi við þrek þeirra og þol og að þau fái góða meðferð að öðru leyti. 

Reglugerð þessi gildir um öll hross, hvort sem þau eru haldin í atvinnuskyni, svo sem á ræktunarbúum, tamningastöðvum, hestaleigum og reiðskólum, eða til nota í frístundum.

 

2. gr.

Orðskýringar.

1.   Aðbúnaður, er húsakostur og/eða skjól.

2.   Umhirða hrossa, er fóðrun, beitarstýring, eftirlit með holdafari og heilbrigði og hirðing á feldi, hófum og tönnum.

3.   Tamningastöð, er staður þar sem hross eru tamin eða þjálfuð gegn gjaldi.

4.   Reiðskóli, er staður þar sem fram fer kennsla í reiðmennsku gegn gjaldi.

5.   Hestaleiga, er staður þar sem hross eru leigð til útreiða gegn gjaldi.

 

3. gr.

Yfirstjórn og eftirlit.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.  Land­búnaðarstofnun er ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis og hefur undir sinni stjórn dýralækni hrossasjúkdóma.

Dýralæknir hrossasjúkdóma skal með störfum sínum stuðla að góðri meðferð og heil­brigði hrossa í samvinnu við dýralækna, ráðunauta, búfjáreftirlitsmenn, Umhverfisstofnun og hrossaeigendur. Hann skal með rannsóknum, almennri fræðslu og leiðbeiningarstarfi auka skilning á hrossasjúkdómum, vinna að vörnum gegn þeim og gera árlega skrá um tíðni hrossa­sjúkdóma, í samvinnu við dýralækna.

Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt, sbr. ákvæði reglugerðar um búfjáreftirlit nr. 743/2002.

Hver sá sem verður var við að eiganda eða umráðamann hrossa skorti fóður, beit, vatn eða viðeigandi aðbúnað fyrir hross sín, hann vanhirði þau eða beiti þau harðýðgi, skal til­kynna það héraðsdýralækni. Berist slíkar upplýsingar til dýralæknis, búfjáreftirlitsmanns, bún­aðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni samdægurs. Héraðsdýralæknir skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand hrossanna og aðbúnað. Að öðru leyti fer um mál skv. 4. mgr. eftir ákvæðum 16. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

 

II. KAFLI

Umhirða.

4. gr.

Fóðrun og beit.

Hross skulu ávallt hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni.  Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notk­unar.

Hross skulu hafa aðgang að beit í a.m.k. tvo mánuði samfellt á tímabilinu 1. maí til 1. október.

Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umhirðu. Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir c-lið viðauka I við reglugerðina, um holdastigun.  

Forðast skal allar snöggar fóðurbreytingar og aðeins nota óskemmt fóður. Hvort sem fóðrað er utandyra eða innan, skal þess gætt að undirlag sé þurrt og laust við taðmengun.

Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring. Óheimilt er að hafa hross án fóðurs lengur en 14 klst. og án drykkjarvatns lengur en fjórar klst. Folalds­hryssur er óheimilt að hafa án vatns og fóðurs lengur en tvær klst. Eftir notkun skulu hross ávallt hafa aðgang að nægu drykkjarvatni.

 

5. gr.

Hirðing og heilbrigðiseftirlit.

Eigandi eða umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans eigu/umsjá og leita lækninga ef með þarf. Hann skal koma í veg fyrir að ormasmit nái að magnast upp með beitarstjórnun og ormalyfjagjöf. Gefa skal ormalyf a.m.k. einu sinni á ári. Halda skal hrossum hreinum, verja þau ytri óværu, snyrta hófa  og raspa tennur eftir þörfum.

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að hross sé haldið alvarlegum eða áður óþekktum smitsjúkdómi er skylt að tilkynna það héraðsdýralækni þegar í stað.

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um merkingar nr. 289/2005 er eigandi eða umráða­maður ábyrgur fyrir að sjúkdómar í hrossi á hans vegum og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Dýralæknum er skylt í lok hverrar vitjunar að skrá á viðurkenndan hátt upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meðhöndlun og lyfjanotkun. Einnig skal skrá leið­beiningar um framhaldsmeðferð, nýtingu afurða og takmarkanir á þátttöku í sýningu og keppni. Upplýsingarnar skulu ávallt vera aðgengilegar Landbúnaðarstofnun og eiganda.

Að vetri skal fylgjast daglega með hrossum á útigangi, en vikulega með hrossum í heimahögum að sumri. Umráðamenn stóðhesta skulu hafa daglegt eftirlit með stóðhesta­girðingum.

Hross á húsi skulu fá hreyfingu eða aðra útivist í a.m.k. klukkustund á dag, nema sjúk­dómar eða veður hamli. Óheimilt er að halda hross ein á húsi.

 

6. gr.

Notkun.

Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra leyfir. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar.

Hross skulu járnuð ef hætta er á að hófar slitni til skaða við notkun eða rekstur. Þess skal gætt að hvíla hross reglulega á ferðalögum og að þeim sé ekki ofgert.

Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og  valdi ekki sárum eða öðrum skaða.

 

7. gr.

Skráning dagbókar.

Halda skal dagbók um notkun og umhirðu hrossa á hestaleigum, tamningastöðvum og í reiðskólum. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum skv. reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

 

III. KAFLI

Aðbúnaður.

8. gr.

Hesthús og innréttingar.

Innréttingar og annar útbúnaður hesthúsa skulu vera þannig að ekki skapist hætta á að hross verði fyrir meiðslum eða heilsutjóni. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að fljótlegt sé að rýma þau í neyðartilvikum. Stíuveggir skulu vera þannig gerðir að ekki skapist hætta á að fætur eða höfuð festist. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 cm.

Innréttingar skulu vera þannig gerðar að hross geti séð önnur hross á húsi. Í byggingar og innréttingar skal nota efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hvers konar hættuleg og heilsuspillandi efni.

Gólf skulu vera með stömu yfirborði sem auðvelt er að þrífa. Steypt gólf í básum skulu klædd  gúmmímottum eða öðru mjúku efni.  Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku. Ganga skal frá niðurföllum þannig að þau valdi ekki slysum eða óþægindum.

Stíur skulu vera svo stórar að hestur/hestar geti auðveldlega legið og snúið sér innan hennar.

Básar skulu einungis notaðir tímabundið fyrir hvert hross. Básar og stíur skulu uppfylla kröfur um lágmarksstærðir sem fram koma í a-lið viðauka I við reglugerð þessa.

 

9. gr.

Loftræsting.

Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum, en loftskipti eiga að vera næg til að magn skaðlegra loftegunda sé að jafnaði innan viðurkenndra hættumarka sbr. b-lið  viðauka I við reglugerð þessari. 

Hita og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í b-lið viðauka I.

Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur vera innan þeirra marka sem um getur í b-lið viðauka I við reglugerð þessa.

 

10. gr.

Birta og lýsing.

Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo að ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum.  Glugga, ljós og rafmagnsleiðslur skal verja þannig að ekki valdi slysum. 

 

11. gr.

Gerði og girðingar.

Gerði við hesthús skal að lágmarki vera 100 fermetrar. Óheimilt er að nota gaddavír og háspenntar rafgirðingar í gerði.  Afrennsli skal vera gott þannig að ekki myndist svað og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum.

Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum.

Forðast skal að nota ristahlið á girðingar umhverfis hrossahólf eða þar sem umferð hrossa er mikil. Um hrossagirðingar fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglugerðar nr. 748/2002 um girðingar, sbr. 13. og 14. gr.

 

12. gr.

Skjól i hrossahögum.

Hross sem ganga úti frá 1. október til 1. júní skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vind­um. Þar sem fullnægjandi náttúruleg skjól eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem ganga í þrjár stefnur eða mynda með öðrum hætti skjól úr öllum áttum. Hver skjólveggur skal vera að lágmarki 2,5 m á hæð og 4 m á lengd eða svo stór að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls. Skjólveggirnir skulu traustlega byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossunum. Eftirlitsaðilar skv. 3. mgr. 3. gr. fylgjast með því að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt. 

Umhverfi, hönnun og viðhald húsa og skýla skal vera þannig að ekki valdi slysum og gripir haldist hreinir.

 

13. gr.

Umhverfi.

Frágangi taðþróa og haughúsa skal þannig háttað að ekki valdi mengun umhverfis eða hættu fyrir menn og skepnur, sbr. reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns o.fl.

 

IV. KAFLI

Gildistaka o.fl.

14. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýra­lækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 132/1999.

 

15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Hesthús sem innréttuð eru fyrir gildistökudag reglugerðar þessarar, eða sem hlotið hafa samþykki byggingaryfirvalda fyrir gildistöku hennar eru undanþegin ákvæðum a-liðar viðauka I um stíu- og básastærðir og ákvæðum 11. gr. um lágmarksstærð gerða. Um þau gilda áfram ákvæði eldri reglugerðar nr. 132/1999 hvað þær stærðir varðar.

 

Landbúnaðarráðuneytinu 16. febrúar 2006.

 

F. h. r.

Ólafur Friðriksson.

Atli Már Ingólfsson.

 

 

VIÐAUKI I

 

A.   Básastærðir og rými í stíum (lágmarksmál).

Básar þar sem hross eru bundin:

Lengd          165 sm

Breidd          110 sm

Stíustærð/rýmisþörf í stíu, lágmarksmál á hvert hross. Í stíu má skemmsta hlið ekki vera styttri en 150 sm fyrir hross yngri en fjögurra vetra, en eigi styttri en 180 sm fyrir hross fjögurra vetra og eldri. Stíur skulu ekki vera minni að flatarmáli en hér segir:

Hross, fjögurra vetra og eldri                            4,0 m²

Folöld og tryppi, yngri en fjögurra vetra             3,0 m²

 

B.   Loftræsting o.fl.

Magn eftirtalinna loftegunda skal að jafnaði ekki vera meira en hér segir:

Ammóníak (NH3)                                           10 ppm

Koltvísýringur (CO2)                                   3000 ppm

Brennisteinsvetni (H2S)                                  0,5 ppm

Við hönnun loftræstikerfis skal leitast við að lofthraði umhverfis hrossin fari ekki yfir 0,2 m/sek.

Rakastig í einangruðum húsum skal ekki fara yfir 80%.

Rakastig í óeinangruðum húsum skal að jafnaði ekki fara umfram 10% þess sem er úti.

Hljóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 65 dB (A).

 

C.   Holdstigun.

 

Holdastig

Stutt lýsing

Lengri lýsing

 

 

 

1

Grindhoraður

Öll rifbein sjást, skinnið er strengt á beinin og hvergi fitu að finna. Mikið gengið á vöðva, makki fallinn, herðar og hryggsúla standa mikið upp úr, lend holdlaus. Hesturinn hengir haus og sýnir lítil viðbrögð við ytra áreiti.

 

 

Heilsutjón er varanlegt og rétt er að aflífa hross í þessu ásigkomulagi.

 

 

 

1,5

Horaður

Flest rifbein sjást. Fastur átöku.

 

 

Verulega tekið úr hálsi, baki og lend.

 

 

Hárafar er gróft, strítt og matt.

 

 

Mikil hætta að hrossið nái sér ekki að fullu.

 

 

 

2

Verulega aflagður

Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum.

 

 

Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel.

 

 

Hárafar matt og hrossið vansælt.

 

 

 

2,5

Fullþunnur

Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er mjög lítil fita, sem gjarnan er föst átöku, nema hrossið sé í bata.

 

 

Vöðvar í lend, baki og hálsi ekki nægjanlega fylltir. Hrossið er í tæpum reiðhestsholdum og þarf að bæta á sig.

 

 

 

3

Reiðhestshold

Tvö-fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreif­ingu en sjást ekki.  Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (ca 1 cm). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu.

 

 

Hárafar slétt og jafnt

 

 

 

3,5

Ríflegur

Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er gott og laust fitulag.  Öftustu rifbein má samt greina.

 

 

Lend, bak og háls eru fallega vöðvafyllt og fitusöfnun má oft merkja t.d. fyrir aftan herðar.

 

 

Hrossið er í ríflegum reiðhestsholdum og hefur nokkurn forða til að taka af.

 

 

 

4

Feitur

Þykk fita á síðu, rifbein verða ekki greind.

 

 

Bak mjög fyllt og hryggsúlan oft örlítið sokkin í hold.

 

 

 

4,5

Mjög feitur

Greinileg fitusöfnun í hálsi, aftan við herðar og á lend

 

 

 

5

Afmyndaður

Rifbein finnast alls ekki, fitan mjög þétt átöku.

 

 

Laut eftir baki og mikil dæld í lend.

 

 

Keppir og hnyklar af fitu, á síðu, hálsi, lend.

 

Notkun á skalanum.

Flest hross fá holdastig á bilinu 2-4.  Sé hrossið með holdastig 2 er það í mjög slæmu fóðurástandi.  Þannig hross þarf að fóðra sérstaklega, og getur ekki gengið úti að vetrarlagi nema hafa mjög gott skjól í eða við hús. Holdastig 1 - 2 telst til illrar meðferðar og varða við dýraverndarlög.

Reiðhestshold eru eins og nafnið bendir til hæfileg hold á hesti í brúkun og einnig telst það holdafar viðunandi fyrir útigönguhross að vori.  Hins vegar eru reiðhestshold knöpp að hausti eigi hrossið að ganga úti yfir veturinn.  Hross sem eru að fara á útigang þurfa síðla hausts að hafa gott fitulag undir húð (holdastig 3,5-4).  Það virðist auka kuldaþol þeirra og gerir þau betur í stakk búin að standa af sér illviðri. Æskilegt er að hross séu í ríflegum reiðhestsholdum þegar lagt er upp í ferðalag.

Hafi hrossið holdastig 4 er það orðið vel feitt og því vel undir útigang búið. Ástæðulaust er að hross séu feitari en  svo.  Hross sem eru með 5 í holdastig hafa haft óhóflegan aðgang að fóðri og telst það ekki góð meðferð enda getur það komið niður á heilsufari þeirra.*

 

*Heimild: Guðrún Stefánsdóttir og Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma.

__________

 

B-deild - Útgáfud.: 23. febrúar 2006

 

26.03.2008 05:50

Hvað er múkk ?

Múkk er húðbólga í kjúkubótinni á hestum, en kjúkubótina er að finna aftan til á kjúkunni, undir hófskegginu. Húðin er tiltölulega þunn og viðkvæm á þessu svæði. Fyrstu einkennin eru aukin fitumyndun í húðinni sem getur þróast í vessandi bólgu og sár. Hross geta orðið hölt af þessum sökum. Ekki er vitað með vissu af hverju múkk myndast en orsakirnar eru taldar vera fjölþátta:

Álag. Múkk er algengast í reiðhrossum í stífri þjálfun.
Fóðrun. Hross í þjálfun eru alla jafna á kraftmiklu fóðri, sérstaklega þegar líða tekur á vorið, og er ekki hægt að útiloka að það eigi þátt í þróun sjúkdómsins.
Umhverfi. Blautar stíur og gerði geta átt þátt í þróuninni en þó er múkk líka að finna þar sem umhverfisaðstæður eru hvað bestar.
Kuldi. Hross sem ganga á blautum mýrum á haustbeit geta fengið múkk þó svo þau séu ekki í notkun. Í þeim tilfellum virðist sem kuldinn og bleytan örvi fitumyndun húðarinnar um of.
Bakteríusýkingar. Þær fylgja venjulega í kjölfarið en geta verið frumorsök í einhverjum tilfellum. Múkk er þó ekki talið smitandi.

Misjafnt er hversu næm eða veik hross eru fyrir múkki og þar með hversu mikil áhrif umhverfisaðstæðurnar, sem nefndar eru hér að framan, hafa. Því getur það gerst að til dæmis eitt hross af tíu í sama húsi (þar sem umhverfisaðstæður eru sambærilegar) fær múkk en hin ekki. Álagið hefur einnig mikið að segja í þessu sambandi.

Mikilvægt er að fylgjast reglulega með kjúkubótinni á hrossum á húsi og hefja meðhöndlun um leið og fyrstu einkenna verður vart. Dýralæknar nota venjulega fúkkalyf samhliða bólgueyðandi lyfjum við múkki og oftast dugar staðbundin meðhöndlun. Sé bólgan það mikil að hún valdi helti þurfa hrossin að fá hvíld frá þjálfun á meðan á meðhöndlun stendur og í það minnsta viku betur. Þá þarf að íhuga hvort rétt sé að minnka álagið á hrossið. Athuga ber að ekki má nota hross í keppni sem fengið hafa lyfjameðhöndlun fyrr en að ákveðnum tíma liðnum (mismunandi eftir lyfjum).

25.03.2008 00:37

Seinna vetrarmót

Seinna vetrarmót Sindra verður haldið á reiðvellinum í Vík kl: 14 sunnudaginn 30. mars.
Skráning hefst kl: 13:15
Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og taka þátt eða fylgjast með spennandi keppni.
24.03.2008 02:30

Sómi

Ég fór fyrst á bak 10ára gamall. Það var hjá henni Steinu frænku fyrir austan. Við Úlfar frændi minn nýddumst á þægasta hesti heimilisins allan guðslangan daginn.  Við tvímenntum og skoðuðum mestalla sveitina á einum degi. 

Eftir það langaði mig alltaf í hest. Fór stundum á bak en kunni ekkert og lærði lítið. Rétta tækifærið kom ekki fyrr en ég var að nálgast fertugt. Þá eignaðist ég þrjá hesta á einu bretti. Þeir áttu að vera 6 vetra en voru eitthvað eldri. Þeir áttu að vera reiðfærir en það reyndist oflof. Það kom fljótt í ljós að þeir voru mér erfiðir.

Þetta voru allt myndar klárar að sjá. Einn moldóttur, annar leirljós og þriðji sótrauður blesóttur sokkóttur, svolítið kubbslegur en bætti það upp með miklu ljósrauðu faxi.

Sá moldótti var mikið erfiðari en ég gat ráðið við. Hann setti mig af baki á ótrúlega stuttum tíma. Það gekk svo mikið á að einusinni fór ég hring í loftinu og lenti standandi fyrir aftan hann. Ég var svo heppinn að vera boðinn hestur í skiptum fyrir hann. Hann hæfði byrjandanum betur.

Sá leirljósi gat verið fínn eða alveg ómögulegur. Stundum var hann algjör gæðingur. Fór um eins og höfðingi. Stundum brjálaður og sturtaði manni af þegar sýst skyldi. Hann fór fyrir lítið.

Sá blesótti var hrekkjóttur en náði mér samt ekki af. Eftir hrekkinn tók hann roku sem gat verið fjögur fimm hundruð metrar. Eftir það var hann fínn. Á þessu gekk í hvert einasta skipti sem ég fór á bak í tvö ár. Blesi og ég höfðum fasta reglu á hlutunum. Hann hrekti og hljóp og svo fórum við í reiðtúr. Fólk í kringum okkur var hætt að taka eftir þessu. Stundum var þó sagt að við ætluðum í hrekkjaæfingu þegar ég lagði á hann.

Benni nágranni gaf það út eftir stutta skoðun að sér litist ekkert á þá molda og leirljósa. En sá blesótti, hann verður góður,  sagði hann og að ég mætti ekki gefast upp. Þessi hestur verður taustur eins og fjall. Hann hefur lent í einhverju. Ef þú verður þolinmóður og góður við hann þá eiganst þú þinn besta vin í honum. Ég tók Benna á orðinu og gafst ekki upp. Það átti eftir að koma í ljós að Benni hafði rétt fyrir sér. Einhver hafði tekið að sér að temja Blesa og sú saga er varla prenthæf ef hún er þá sönn.

Svo gerðist það einn daginn að Blesi stóð bara grafkyrr þegar ég settist á bak. Engir hrekkir. Engin roka. Ég fór af baki. Er hesturinn lasinn? Er hann með hita? Ég kallaði á nafna og bað hann að skoða klárinn. Sérðu eitthvað að Blesa?

Af hverju heldurðu að það sé eitthvað að honum?

Nei ekkert, fannst hann bara eitthvað skrýtinn svaraði ég og settist á bak.

Blesi hrekti aldrei eftir þetta. Það element var horfið.

Eftir þetta fór Blesi alltaf batnandi. Hann vildi reyndar aldrei koma með mikinn höfuð eða fótaburð en varð alltaf traustari. Í ferðalögum var það hann sem stökk útí árnar þegar enginn vildi fara. Það var líka hann sem skaust eins og elding fyrir. Það var hann sem kom í rólegheitum til mín þegar mig vantaði hest. Ég held hann hefði vaðið eld og brennistein fyrir mig.

Ég notaði Blesa mikið við smölun. Það held ég að hafi verið það allra skemtilegasta sem hann gerði. Þá var ég farþegi. Hann sá alveg um þetta. Fór sjálfur eftir fénu sem reyndi að stinga sér undan og bestur var hann í kjarrinu. Það þýddi lítið fyrir féð að reyna að fela sig þar. Sneri við ef hann varð var við fé í runnunum. Aldrei nein læti eða gassi. Hann bara fór um runnana eins og þeir kæmu honum ekki við. Ég lét hann alveg um þetta. Stundum sá ég alsekki afhverju hann snéri við fyrr en hann sýndi mér það.

Einhverju sinni lentum við í úrhellis rigningu á leið á Þingvelli. Reksturinn var stór og gekk illa. Hrossin köld og vildu ekki áfram. Var þá gripið til þess ráðs að skipta hópnum. Ég var í eftirreið í fyrri hópnum. Blesi hljóp laus, fremst eins og hann var vanur. Þá sé ég að hann tekur sig útúr og hægir verulega á sér. Þegar hann er kominn alveg aftast hleypur hann þvert frá rekstrinum. Ég þurfti að hleypa á eftir honum góða stund áður en mér tókst að stoppa hann og fá hann með mér til baka. Þegar við komum aftur inná slóðan er seinni hópurinn að koma. Blesi hendist þá aftast í reksturinn. Þar var hryssa frá mér meidd á fæti og komst lítið áfram. Hann fylgdi henni það sem eftir var leiðar.

Engan hest hef ég séð jafn natinn við að teyma tryppin. Það var alveg ómetanlegt að fá aðstoð hans við það. Þegar tryppið var komið á síðuna á honum þá beið hann rólegur meðan það var að átta sig. Svo labbaði hann af stað. Ef eithvað kom uppá þá stoppaði hann og beið. Þegar ró komst á aftur hélt hann áfram. Stundum fanst mér hann kummra eitthvað til þeirra og þá komu þau áfram. Fyrir mig var bara að sitja og fylgjast með. Tryppin flugteymdust eftir kennslustund hjá honum.

En honum var meinilla við að vera teymdur sjálfur. Fór hægt og hékk í. Stundum sleit hann sig lausan. Ég hætti fljótlega að leggja þetta á hann heldur lét hann vera lausann ef mögulegt var. Stundum var hann á eftir en á undan ef hann vissi hvert förinni var heitið. Löt tryppi urðu fjörviljug að elta hann heim þegar hann hafði teymt þau að heiman.

Hann tók yfirleitt nýja hesta í hópinn og passaði þá meðan þeir voru að komast inn. Hann stjórnaði reyndar hópnum mínum eins og sannur stóðhestur. Aldrei sá ég hann meiða nokkurn hest. Hann dró eyrun undir faxið og setti hausinn niður að jörðu ef honum mislíkaði. Það þurfti ekki meira. Hópurinn bar virðingu fyrir honum og hann réði.

Hann tók að sér unga graðfolann minn þegar folinn var fyrst á húsi þá á öðrum vetri. Hinir geldingarnir gátu ekki séð folann í friði. Þá stóð Blesi vörð um ræfilinn. Lét ekkert vont koma fyrir hann. Folinn tók ástfóstri við hann og hélt sig hjá honum. Um vorið fór folinn í merar og sást ekki aftur fyrr en um haustið. Þá þóttist hann ekkert hafa með aðstoð Blesa að gera, hann gat bjargað sér sjálfur. Þeir voru svarnir óvinir eftir það. Ég reyndi ekki að hafa þá saman þó að Blesi reyndist ómetanlegur við tamningu folans þegar að því kom. Folinn snerti ekki við Blesa ef hann vissi af mér nálægt. Hann gerði sér fullkomna grein fyrir því hvað mér þótti um þann gamla.

Blesi minn var orðinn fullorðinn þegar graddinn kom í hagagönguhópinn. Þá var ár liðið frá því folinn tapaði kúlunum. Folinn vildi taka yfir stjórn hópsins en Blesi var ekki á því að láta undan. Gekk á ýmsu og ég lagði talsvert á mig að sætta þá. Hafði þá báða með í reiðtúra eins og hægt var. Þegar ég taldi þá vera sátta setti ég þá í girðingu með öðrum hrossum. Daginn eftir var hringt í mig og ég beðinn að sækja Blesa á nálægan bæ. Honum hafði verið bjargað úr skurði nær dauða en lífi. Ég er því miður nokkuð viss um að folinn setti kallinn í skurðinn.

Fólkið sem bjargaði honum var sérstaklega gott við hann. Ekki aðeins var honum bjargað við erfiðar aðstæður heldur var hann fluttur heim á bæ og þrifinn með volgu vatni og pakkað inní teppi. Þegar ég kom að sækja hann var búið að opna rúllu handa honum. Ég er ákaflega þakklátur þessu sóma fólki.

En Blesi minn varð aldrei samur eftir þessa lífsreynslu. Neistinn hvarf og eins og vonleysi tæki yfir. Ég aðskildi folann og Blesa og reyndi að skipta hópnum á milli þeirra. Vonaði að Blesi tæki gleði sýna á ný en allt kom fyrir ekki.

Svo rakst ég á auglýsingu. Unga stúlku í sveit vantaði traustan hest. Mér fannst þarna verðugt verk handa Blesa mínum. Hvað væri betra fyrir hann en að fá að dúlla með ungviðið í ellinni. Hann alveg óbilaður gæti fengið hluta sjálfsvirðingarinnar aftur. Úr varð að hann komst í þægilegan hóp hrossa þar sem hann fær virðingu og gott atlæti. Vinnan létt og þægileg.

Blesi var fljótur að ná ástum stúlkunnar. Hún gætir þess líka að hann fari ekki of nálægt skurðum. Hún frétti af óförum hans og má ekki til þess hugsa að það gerist aftur. Ég veit að þau eiga eftir að reynast hvort öðru vel.

Það verður illa komið fyrir mér ef ég gleymi honum Sóma mínum.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Þessi frásögn er fengin að láni af síðunni http://www.123.is/mellausbeisli 

Það er gaman að segja frá því að unga stúlkan sem fékk þennan hest er hún Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir á Ytri-Sólheimum. 

22.03.2008 10:26

Myndir

Eigið þið ekki einhverjar skemmtilegar myndir til að sýna okkur.
Hvort sem það eru myndir af krökkunum á baki, folöldum, litfögrum hestum eða bara hverju sem er.
Svo hlýtur að vera að einhverjir eigi myndir frá gömlum mótum og samkomum sem væri gaman að setja hér inn.
Endilega sendið mér myndir á dorajg@simnet.is 

Kær kveðja

Dóra

19.03.2008 11:03

Ný byrjun enn á ný

Það kom víst sú tillaga fram á síðasta aðalfundi að ég, undirrituð, yrði vefstjóri Sindrasíðunnar. 
Það er auðvitað ekki eftir neinu að bíða svo að ég er búin að setja upp nýja síðu fyrir okkur til reynslu í einn mánuð.
Það er ótrúlega leiðinlegt að setja inn og halda utan um myndir á hinni síðunni og vinnuumhverfið hér er mun betra.
Endilega verið dugleg að láta vita hvað ykkur finnst og senda inn tillögur ef ykkur dettur eitthvað sniðugt í hug.
Það eru komnar inn myndir frá fyrra vetrarmóti og nokkrar eldri.
Það heldur áfram að tínast inn meira af slíku næstu daga.


Kær kveðja
Dóra
  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 215
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 367
Gestir í gær: 187
Samtals flettingar: 1137984
Samtals gestir: 174217
Tölur uppfærðar: 7.3.2021 15:13:00