Hestamannafélagið Sindri


Flokkur: Fróðleikur

12.12.2008 09:57

Hrossasótt

Einkenni hrossasóttar:

 • Liggja flatir í lengri tíma
 • Ekki með sjálfum sér
 • Eirðarlausir
 • Fíla grön
 • Horfa afturfyrir sig - eftir kviðnum
 • Standa eins og þeir reyni að losa sig við þvag
 • Sparka með afturfótum upp í kvið
 • Svitna
 • Láta sig falla til jarðar og velta sér

Þegar hestur greinist með hrossasótt er ýmislegt
sem við verðum að hafa í huga:


 • Hvort hann sé í stíu eða á bási
 • Í haga
 • Í sendnu gerði
 • Veðrabreytingar
 • Fóður
 • Hvernig fóður
 • Breytingar á fóðri
 • Breytingar á tíma sem gefið er
 • Hegðun
 • Rop
 • Græðgi
 • Saga
 • Hefur hrossið fengið hrossasótt áður
 • Hvenær byrjuðu einkennin
 • Breytingar á þjálfun
 • Flutningur á milli staða
 • Ormasýkingar

Meðferð:

 • Taka frá fóður
 • Hafa greiðan aðgang að vatni
 • Lyfjameðferð dýralæknis
 • Verkjastillandi lyf
 • Lyf sem örva/slaka á vöðvum þarmanna
 • Gott er að rölta um með hrossasóttarsjúkan hest

09.09.2008 19:07

Reiðtygi

Frá því Ísland byggðist hefur hesturinn, sem nú er kenndur við landið, þjónað íbúum þess af eljusemi og þeim til yndisauka. Hann var aðal flutningstækið þar til vélar tóku við um og fyrir miðja 20. öld og ýmist notaður til reiðar, burðar eða dráttar. Vísbendingar um þessi þrautseygu burðardýr eru mörkuð í fjöll og heiðar þessa lands og víða má enn sjá gamlar götur milli landshluta sem bera þögult vitni um ferðir hesta og manna, fram og til baka í aldanna rás. Umfjöllunarefnið hér er umbúnaður hestanna, hvað var notað á þá til burðar, dráttar og reiðar.

Þegar talað er reiðver er um að ræða allan reiðskap á hest, þ.e. reiðtygi, aktygi, klyfjareiðskap og allt sem tilheyrði flutningum. Öll reiðver voru unnin af ýmsum hagleiksmönnum og smiðum, en söðlasmíði varð ekki sérstök iðngrein fyrr en á 19. öld. Hér verður því leitast við að gefa yfirlit yfir reiðverasmíð frá landnámi til þeirra tíma er iðnlærðir meistarar tóku að smíða reiðtygi með nýjum aðferðum, og nýju útliti um miðja 19. öld.

Reiðverasmíði hefur alla tíð verið stunduð í landinu. Fáar heimildir eru þó til um þá iðju á fyrstu öldum, en fleiri er nær dregur nútíma. Gera má ráð fyrir að handverkfæri sem notuð voru við söðla- og reiðverasmíð hafi lítið breyst fyrr en farið var að nota ný tæki í kjölfar iðnbyltingar á 18. og 19. öld. Nærtækt er að virða fyrir sér reiðver sem varðveist hafa og skoða lýsingar á þeim í rituðum heimildum. Ritaðar lýsingar eru góðar svo langt sem þær ná en mikilvægust eru sjálf reiðverin. Víða í minjasöfnum landsins eru varðveitt reiðver frá fyrr tíð og lýsa best bæði tækni og þekkingu söðlasmiðanna og hvað bauðst til afnota. Elstu íslensku reiðtygin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Ísland og í danska þjóðminjasafninu.

Ritaðar heimildir um reiðver er víða að finna og vitnað til þeirra í lesmáli þar sem það á við. Veigamestu upplýsingarnar eru í Íslenzku fornbréfasafni, Búalögum, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, Íslendinga sögum, Sturlunga sögu, Íslenzkum þjóðháttum eftir séra Jónas Jónasson, Faxa dr. Brodda Jóhannessonar og greinum um söðlasmíðar í Iðnsögu Íslands eftir Guðmund Finnbogason og Ögmund Helgason í bókinni Hugvit þarf til hagleikssmíðar.

Reiðtygi tóku ýmsum breytingum í aldanna rás. Efnafólk átti glæsilega söðla og fagurlega búin beisli sem hinir efnaminni horfðu á með lotningu. Sauðsvartur almúginn lét sér lynda tvo jafnfljóta eða að henda reiðskinni eða þófa á bak reiðskjótans. Margar útgáfur af reiðtygjum mátti sjá eftir efnum og ástæðum. Í flestum tilvikum riðu menn á þófa heimafyrir en söðluðu hestana ef þeir ætluðu í kirkju eða kaupstað. Karl og kona tvímenntu oft og sat þá konan kvenveg aftan við karlinn eða kona reið ein í söðli sínum. Þófi var úr ullarþæfu og alltaf girtur undir söðla eins og dýna. Söðlar voru yfirleitt frábærlega skreyttir, málaðir eða settir dýrum málmum og steinum. Í setu var söðulesessa til að mýkja sætið og yfir söðulinn var breitt söðuláklæði til að verja söðulinn og konuna fyrir ryki og öðrum óhreinindum.

Standsöðlar karlmannanna sem voru með háum bríkum að aftan og framan og voru notaðir langt fram á 17. öld viku þá fyrir þægilegri og léttari útgáfu, hinum svokallaða bryggjusöðli, en á honum voru bríkurnar framan og aftan miklu lægri en á gömlu söðlunum og farið var fljótlega að tala um hnakka því þeir líktust mjög stólkollum með því nafni. Kvensöðlarnir héldi lagi og nafni miklu lengur. Um miðja 19. öld breyttust bæði kvensöðlarnir og hnakkarnir. Bæði fengu fastan þófa eða dýnu og baksveif kvensöðulsins var mjókkuð og settur klakkur fyrir hægri fót þannig að konan skásnéri fram á hestinum, með vinstri fót á fótafjöl. Reiðbeislin voru yfirleitt stangabeisli, fagurlega skreytt og mjög vandað til þeirra. Taumbeislin voru miklu einfaldari. Auk reiðvera og ýmissa fylgihluta þeirra verða samgöngur og flutningar einnig hér til umfjöllunar.

Nútíma reiðverasmíð á rætur sínar á 19. öld og stendur enn með miklum blóma. Litlu söðlasmíðaverkstæðin, sem tóku við af handverksfólki fyrri alda, virðast senn víkja fyrir stærri framleiðleiðendum og síauknum innflutningi. Vonandi er þó að einhver þeirra haldi velli því ef þau hverfa, hverfur um leið skrefið frá handverkfærum til vélvæðingar. Skrefið sem gjörbreytti áferð og útliti reiðvera fortíðarinnar. Skrefið sem tekið var af gildislærðum iðnmeisturum í kjölfar iðnbyltingarinnar.

Áður tóku margir til hendinni er söðull var smíðaður. Hver vann sitt. Einn komst í rekavið, annar sútaði skinn og elti, þriðji smíðaði skreytti úr góðmálmi, fjórði óf voð, fimmti þæfði ull í þófa, sjötti vann gjarðir úr hrosshári og svo framvegis. Allt kom það saman í fullkomið reiðver þess tíma og verkfærin sem þá voru notuð eru flest horfin í glatkistuna. Sumt af því sem framleitt var er horfið og gleymt, annað hefur varðveist og verið notaðar lengi. Hringamélin halda enn velli og létt reiðver hafa alltaf þótt þægilegri en þung og stirð, þótt enginn þurfi að velkjast í vafa um hvort þótti flottara glæsibúinn standsöðullinn eða ullaþófinn. Mörg tískufyrirbrigði hafa litið dagsins ljós í útliti og gerð reiðtygja, en flest hafa horfið í aldanna skaut.

31.08.2008 15:03

Skýrsluhald í hrossarækt

Bændasamtök Íslands halda utan um miðlægan gagnagrunn á netinu um íslenska hestinn. Þessi gagnagrunnur hefur fengið nafnið WorldFengur enda aðgengilegur öllu áhugafólki um íslenska hestinn hvar sem er í heiminum. Gagnagrunnurinn hefur að geyma upplýsingar um alla kynbótadóma, ætterni, kynbótamat, uppruna, ræktendur, eigendur, afdrif og einstaklingsmerkingar. Inn í þennan gagnagrunn senda hrossaræktendur upplýsingar um sín ræktunarhross gegnum skýrsluhald í hrossarækt. Í dag eru öll aðildarlönd FEIF aðilar að WorldFengnum, að Frakklandi, Færeyjum og Kanada undanskildum.

Skýrsluhald í hrossarækt er lykilatriði í ræktun íslenska hestsins en með því er haldið utan um mikilvægustu upplýsingarnar, ætternið. Án þeirra væri ekki um neitt ræktunarstarf að ræða. Bændasamtök Íslands hafa yfirumsjón með skýrsluhaldinu í samvinnu við búnaðarsamböndin.

Hvað þarf til að gerast þátttakandi?
Hafa samband við viðkomandi búnaðarsamband eða Bændasamtök Íslands og óska eftir því að fá senda folaldaskýrslu. Ræktandinn fær úthlutað númeraröð sem hann notar síðan á sín hross. Ef viðkomandi á hross sem ekki eru grunnskráð er nauðsynlegt að byrja á því að skrá þau. Það er hægt að gera með því að fylla út grunnskráningareyðublöð sem hægt er að nálgast undir eyðublöð hrossaræktarinnar hér undir áhugavert. Grunnskráningarblöð má einnig nálgast hjá búnaðarsamböndunum eða BÍ. Hrossaræktarráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands veitir aðstoð við grunnskráningar ef þess er óskað. Þátttakendur fá síðan senda folalda- og afdrifaskýrslu á hverju hausti.

Hvað segir fæðingarnúmerið okkur?
Út úr fæðingarnúmerinu má lesa fæðingarár, kyn, landssvæði og bæjarnúmer. Bæjarnúmer er það númer sem viðkomandi ræktanda er úthlutað um leið og hann gerist þátttakandi í skýrsluhaldinu. Hér fyrir neðan eru tekin tvö dæmi:

Hvað má lesa úr eftirfarandi númeri IS1999187106?

Fæðingarland Fæðingarár Kyn Landssvæði Bæjarnúmer
IS (Ísland) 1999 1 (hestur) 87 (Árnessýsla) 106 (ræktandi)

Hvað má lesa úr eftirfarandi númeri IS2001285810?

Fæðingarland Fæðingarár Kyn Landssvæði Bæjarnúmer
IS (Ísland) 2001 2 (hryssa) 85 (V-Skaft) 810 (ræktandi)

Gæðaskýrsluhald
Árið 1998 var tekið upp gæðavottað skýrsluhald til að koma til móts við þær kröfur að auka öryggi á ætternisupplýsingum. Folöld fædd 1999 voru fyrstu gripirnir sem komu til skráningar í þessu nýja kerfi. Enn sem komið er er aðeins lítill hluti hrossastofnsins með þessa vottun, af folöldum fæddum 2001 eru aðeins um 30% með A-vottun. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því hvað þarf til að fá folald A-vottað en þetta er í raun einfalt ferli. Í stuttu máli eru það þrjár skýrslur sem þurfa að berast fyrir ákveðinn tíma til skráningar. Nánari útlistun á hverri fyrir sig er að finna hér fyrir neðan.

1) FANGVOTTORÐ/ STÓÐHESTASKÝRSLUR
Fangvottorðið fyllir hryssueigandinn út en lætur síðan umsjónarmann stóðhestsins undirrita þannig það sé staðfest að hryssan hafi verið hjá viðkomandi stóðhesti. Ef hryssan er ómskoðuð vottar dýralæknir það með sinni undirskrift. Ef ræktandi leigir stóðhest sem er í öllum hans hryssum getur hann valið þá leið að fylla út stóðhestaskýrslu. Einstaka umsjónarmenn stóðhesta skila inn slíkum skýrslum en það er alfarið á ábyrð hryssueigandans að kanna hvort það sé gert. Þessum skýrslum ber að skila fyrir 31.12 árið sem hryssan fékk.
2) FOLALDASKÝRSLA
Næsta skýrsla er folaldaskýrslan en hún er send þeim sem eru þátttakendur í skýrsluhaldinu. Þessi skýrsla kemur hálfútfyllt og þar eru listaðar allar hryssur viðkomandi ræktanda, auk þess kemur fram nafn og númer þess stóðhests sem hryssan var leidd til (sbr. fangvottorð síðasta árs). Það eina sem ræktandinn þarf að gera er að merkja við hvort hryssan hafi verð geld, látið eða kastað. Ef hryssan hefur kastað er gert grein fyrir kyni, lit, einstaklingsnúmeri (sem ræktandinn getur valið úr sinni númeraröð) og afdrifum folaldsins. Þessi skýrsla þarf að berast BÍ eða búnaðarsamböndunum fyrir 31.12 árið sem folaldið fæðist.
3) SKÝRSLA UM EINSTAKLINGSMERKINGU
Lokastigið er síðan einstaklingsmerking folaldsins og eru þá jafngildar örmerkingar- og frostmerkingar. Folaldið skal merkja þegar við móðurhlið. Þegar um er að ræða folald í gæðavottuðu skýrsluhaldi er nóg að fram komi á vottorðinu fæðingarnúmer, nafn og uppruni folaldsins auk frost- eða örmerkis. Mikilvægt er að bæði merkingamaður og eigandi/ umráðamaður skrifi undir skýrsluna. Þessi skýrsla verður að berast til BÍ eða búnaðarsambandanna fyrir 1. mars árið eftir að folaldið fæddist. Lista yfir frost- og örmerkingarmenn á Suðurlandi má finna undir "Áhugavert" hægra megin á síðunni.

Hafi þessar þrjár skýrslur skilað sér á réttum tíma fær folaldið gæðavottun á ætternisupplýsingar og er það tekið fram á upprunavottorði ef til útflutnings kemur. Haustið 2002 fengu öll A-vottuð folöld útprentað eignarhaldsskírteini en það skírteini á að fylgja hrossinu sé það selt.

Er hægt að fá gæðavottun eftir öðrum leiðum?
Ef hross hefur af einhverjum ástæðum ekki fengið A-vottun er hægt að fara þá leið að sanna ætternið með DNA-ætternisgreiningu. Dýralæknir tekur þá blóðprufu úr hrossinu og það er síðan sent til greiningar í Svíþjóð. Kostnaður við þetta er þó nokkur, greiningin kostar um 5.000 kr og eitthvað tekur dýralæknirinn fyrir blóðtökuna. Algengt verð fyrir blóðtöku og greiningu er 10.000 kr.

Afdrifaskýrsla
Hvort sem þátttakendur í skýrsluhaldi eru virkir í gæðaskýrsluhaldi eða ekki fá þeir allir senda afdrifaskýrslu. Á afdrifaskýrslunni koma fram öll hross viðkomandi ræktanda og þar er hægt að gera grein fyrir hvað verður um hvert hross, s.s. sölu, geldingu og förgun. Brýnt er að nafn og kennitala kaupanda komi skýrt fram þegar eigendaskipti eru gerð.
Eigendaskiptablað
Eigendaskipti á skýrslufærðum hrossum eru skráð eftir tveim jafngildum leiðum, á afdrifaskýrslu eða á eigendaskiptablað. Eigendaskiptablöðin hafa þann kost að þeim má skila inn til skráningar hvenær sem er ársins en það er eðlilegast að gengið sé frá eigendaskiptum strax og sala hefur átt sér stað. Hægt er að sækja eigendaskiptablað undir eyðublöð hrossaræktarinnar.

22.08.2008 05:30

Gömul vinnubrögð

Í heyskap þótti góður og gegn siður , er rakstrarfólk gekk heim á leið eftir hirtum teignum að draga hrífuna með sér. Því þó vandlega hefði verið rakað varð alltaf einhver vottur af stráum eftir í rótinni. Þá kom æfinlega smá tugga fyrir hrífutindana. Og
hver lambstugga er safnaðist var dýrmæt. Sennilega hefði því fólki sem hér áður gekk að heyvinnu ofboðið þær miklu dreifar sem nú á dögum hverfa aftur til moldar. Þegar gjafatími hófst varð að byrja á að leysa úr dyrum, gera sér gjafarými, svo var hey leyst milli dyra í hlöðunni, þar með var komin geil svo komast mætti í alla garðana úr hlöðu. Hey var leyst með heysting öðru nafni heynál, sumir nefndu áhaldið heykrók. Í  Borgarfirði var yfirleitt talað um heysting. Gjarnan var handfang heystingsins úr birki, og var endinn vinkilbeygður er nam handarbreidd, sverleiki handfangsins var sirka ein og hálf tomma. Skaftið varð að fara vel í hendi því æði marga klukkutíma yfir vetrarmánuðina handlék fjármaðurinn og eða fjósamaðurinn heystinginn.

Í vetrarbyrjun var gjarnan talað um heystæðu í hlöðu, svo leið frammá vetur, þá var farið að tala um heystabbann og undir vorið þegar orðið var heylítið, þá var talað um klegga. Þegar leyst var úr stáli (heystæðunni) var metnaður lagður í að heystálið væri lóðbeint, hvergi holur né önnur missmíð. Ef hey hafði verið borið upp úti, sett í galta, var gjarnan borið inn í hlöðu, hey úr þeim sem dugði í nokkur mál og varð þá að ganga vel frá sárinu. Orðið Strjúpi var líka notað í sömu merkingu. Alltaf var notaður heyskeri þegar tekið var úr galta. Heyskerar fóru að verða algengur á sjötta áratug síðustu aldar. Var gjarnan notað efni úr gömlum herfisdiskum í skerablaðið. Var skerinn mikið þarfatæki og létti mönnum heylosun til mikilla muna. Við veggi og botn hlöðunnar varð hey Dauft, það voru nefndar botndeyfur ( veggdeyfur) þetta var gjarnan gefið útigangi (hrossum.) Einnig var orðið botnrekjur haft um hey er á hlöðubotni var. Oft var lakara hey í efsta hluta heystæðunnar, það skapaðist jú af því, að taðan var hirt fyrst, þá engja heyskapur, og að honum loknum vantaði meira fóður til vetrarins. Þá var máski slegið í flóum. Þetta var oft nefnt flóarubb. Svo var fornslægja, það var hey af bletti er ekki hafði verið
sleginn árið á undann. Trúlega væru svona hey ekki vel fallin til fengieldis nútímans.

Fleiri heytegundir voru til. Til dæmis Finnungur sem líklega hefur aðeins verið til á fjallbæjum, grastegundin sú vex jú aðallega í dalabrekkum til fjalla. Til dæmis vex Finnungur í miklum breiðum í vesturhliðum Staðarmúla á Bröttubrekku. Finnungur þótti gott gemlinga fóður, en vildi setjast í hálsullina á þeim, sökum stífleika stráanna. Elftingar hey var og til. Elfting var mest áberandi á deigum engjum í lá héraðinu, (orða tiltæki um neðri hluta Borgarfjarðar héraðs.) Þetta þótti létt fóður, varð að þurrka mjög vel, en best þótti að binda það í úða rigningu,(Slúð með öðrum orðum Súld.)Elftingin varð að ornast(volna, hitna) aðeins. Hún ást ekki ef hún var græn. Elftingin hvarf að mestu úr gróður flórunni er farið var að nota tilbúinn áburð. Henni líkaði ekki sá siður. Stör var líka sleginn. Störin óx best í útjöðrum tjarna og kýla. Eg heyrði talað um að sláttumaðurinn hefði staðið í vatni upp fyrir hné við verk sitt. Dæmi hef eg um að stör væri sleginn eftir að frost var komið, og ís orðinn mannheldur. Faðir minn sagði mér sögu af bónda nokkrum er sló stararkraga á ís. Setti störina í lítil Drýli (sátu) og stakk göt á með priki. Sagði svo grönnum sínum að hann hefði Prikþurrkað störina. Semsagt, tilraun með einfalda súgþurrkun. Þetta gerðist í byrjun tuttugustu aldarinnar. Stör varð að þurrka vel til að hún yrði gott fóður. Annars vildi stararhey verða myglað. Hún var það sem kallað var þekkirramt gras, þurfti helst skerpuþerri. BROK var og nýtt
til vetrarfóðurs. Þegar sumri fer að halla skartar þessi grastegund sínum fallega rauðbrúna lit. Brok vex eingöngu í deigu landi. Ekki blautu en með góðum jarðraka. Annað séreinkenni broksins er að það varðveitir kólfinn grænan og safaríkan langt fram á vetur. Á sumrin sækja kindur ekki í brok, en eru sólgnar í það er vetrar, einkum í Krafsjörð. Það var talað um að kind fyllti sig í þremur kröfsum, í góðum brokflóa.

Einn var hlutur í hverri hlöðu. Það var hríssópur. Hann var gerður úr limi af birki. Gert var dálítið knippi og bundið vel saman. Neðri endinn var snyrtur til og þar með var sópurinn kominn. Að loknum gjöfum var svo hlöðugólfið vandlega sópað. Það var einn liðurinn í að ganga vel um gripahúsin. Einn var sá siður að hrista allt hey áður en það var gefið á garðann. Mygla var vandlega hrist úr. Svo tilhneiging sumra að blanda lakara fóðri samanvið gott. Allt þurfti að hrista saman. Maðurinn stóð í ryk og myglu mekki við þetta verk. En samt skildi hrist. Ekki er fjarri lagi að ímynda sér að uppspretta heymæði sem margan manninn þjáði hafi verið þarna. Þá er komið að lokum í þessum þætti. Hér er strikað á stóru og aðeins fátt eitt nefnd að öllum þeim aragrúa orða og orðasambanda er notuð voru um þessi verk.

Með kveðju.

Jakob Jónsson,Smáraflöt 1, Akranesi.

03.07.2008 09:15

ERU HROSS ÞÍN Í GÓÐUM HAGA

Góð haustbeit er afar mikilvæg hrossum á útigangi, sérstaklega ef þeim er ætlað að ganga úti allan veturinn. Á hausti safna þau mikilvægum fituforða og aðlaga sig kaldara veðurfari. Alþekkt er að haustrigningar koma illa við grönn hross enda fitulagið undir húðinni helsta vörnin gegn kulda áður en hross eru komin í vetrarhárin.

Þegar ekið er um þjóðvegi landsins má víða sjá hross á lélegum hausthögum. Sum virðast nánast hafa gleymst í uppnöguðum sumarhólfum og mörg dæmi eru um að hross séu haldin á mýrum sem ekki henta til haustbeitar. Jafnvel má sjá hross á rýrum lyng- og flagmóum sem alls ekki ætti að nota til beitar. Það segir sína sögu að hross snerta helst ekki við föllnum mýrargróðri á meðan þau naga þurra skurðbakka alveg niður í rót. Loðið mýrlendi er oft mistúlkað þannig að næg haustbeit sé til staðar. Þá virðist hafa farið framhjá mörgum að skylt er að koma upp hagaskjóli þar sem náttúrulegt skjól er ekki til staðar og á það við á öllum árstímum.

Hross sem eiga að ganga úti þurfa að vera í ríflegum reiðhestsholdum að hausti eða sem svarar 3,5 á holdastigunarkvarða þeim sem fylgir aðbúnaðarreglugerð hrossa (160/2006). Þau mega gjarnan vera feit á þessum árstíma (holdastig 4) þó varast beri að hross verði afmynduð af spiki (holdastig 5).

Þess skal gætt að hross fari ekki niður fyrir 3 í holdastigun og á það við um öll hross á hvaða árstíma sem er. Því miður er ekki óalgengt að stóðhestar og hross sem hafa verið í mikilli brúkun séu nær 2,5 í holdastigun á þessum árstíma. Slík hross þurfa mjög góða beit, t.d. á túni eða ábornum úthaga og þörf getur verið á að hýsa þau á nóttunni. Hross sem komin eru niður í 2 í holdastigun eru byrjuð að ganga á vöðva og þurfa sérstaka aðhlynningu, annað varðar við illa meðferð dýra. Séu hross komin niður í 1,5 í holdastigun eða neðar (horuð eða grindhoruð) hafa þau gengið verulega á vöðva og hætt er við að þau nái sér ekki að fullu þrátt fyrir aðhlynningu. Slík meðferð varðar við lög um búfjárhald og dýravernd. Velferð dýra er á sameiginlegri ábyrgð okkar allra og hverjum sem verður var við slæman aðbúnað hrossa ber að gera viðkomandi héraðsdýralækni viðvart.

Til haustbeitar dugar best sumarfriðað valllendi. Varasamt getur verið að setja hross sem vön eru úthaga of snögglega á tún en dæmi eru um að slíkar fóðurbreytingar hafi orðið hrossum að heilsutjóni. Með hæfilegri aðlögun og þegar líða tekur á haustið eru tún þó hið besta beitiland fyrir þá hrossahópa sem þurfa best atlæti, þ.e. fylfullar og/eða mjólkandi hryssur, folöld, trippi og hross sem af einhverjum orsökum þarf að bata, s.s. hross sem hafa verið notuð til keppni eða langferða.

Nauðsynlegt er að ormahreinsa öll hross við beitarskipti enda er einn helsti tilgangur ormahreinsunarinnar að minnka smit í beitilandinu. Þannig má fyrirbyggja alvarlegar ormasýkingar. Ormalyfjagjafir hafa skammvinn áhrif gangi hrossin áfram á smituðu landi. Ef þannig háttar þarf að gefa ormalyf á 2ja-3ja mánaða fresti en með góðu skipulagi getur dugað að gefa ormalyf tvisvar á ári. Ormaveik hross þarf auðvitað að meðhöndla þó það geti verið hættulegt. Folöld og trippi geta stíflast af dauðum þráðormum og þarmaslímhimnan getur skaddast alvarlega af dreyrormalirfum sem fara af stað þegar fullorðnu ormarnir hafa verið drepnir. Því er heldur seint í rassinn gripið að gefa ormalyf eftir að einkenni ormaveiki eru farin að sjást. Slíkt ætti að gefa tilefni til endurskoðunar á beitarstjórnun og notkun ormalyfja.

 Aðgangur að góðu drykkjarvatni er að sjálfsögðu nauðsynlegur og á ábyrgð eigenda að fylgjast vel með vatnsbólum og grípa til ráðstafana ef kemur til þurrðar s.s. vegna langvarandi þurrka eða kulda.

 Þegar líður á útigönguna er æskilegt að feit hross sem nota á til reiðar gangi aðeins á þann forða þannig að þau séu á bilinu 3 - 3,5 í holdastigun þegar þau eru tekin á hús. Það er betri meðferð að láta hrossin ganga hægt og bítandi á fituforðann meðan þau eru á útigangi fremur en að halda mikið í við þau á húsi. Mjólkandi og/eða fylfullar hryssur og trippi í örum vexti þurfa hinsvegar á öllum sínum forða að halda með vorinu og alls ekki má slá af fóðrun á þeim hópi.

 Lykilatriðið er að flokka hross eftir fóðurþörfum og velja beitiland og fóðurgjöf eftir því.

Sigríður Björnsdóttir

Dýralæknir hrossasjúkdóma,

Landbúnaðarstofnun

24.06.2008 23:40

Tannröspun

Björgvin Þórisson dýralæknir

Oft er því fleygt fram að óþarfi sé að raspa hross og oft bent á villihesta til marks um að hestar komist af án tannhirðu. Raunin er sú að þau villihross sem hafa mikinn tannbrodd drepast vegna þess að þau nærast ekki. Náttúran sér þannig um að velja best tenntu einstaklingana úr hópnum - ,,hinir best tenntu lifa af".

Tannbroddar
Við tyggingu fæðu slitna jaxlar hrossa jafn óðum og þeir vaxa. Vegna þeirrar líffræðilegrar byggingar efri og neðri góms Ð efri gómur er breiðari en sá neðri Ð og vegna ónógra hliðarhreyfinga gómanna við tyggingu myndast broddur á ytri kant efri góms og innri kant neðri góms. Óhætt er að halda því fram að tannbroddar í hrossum hafi aukist í seinni tíð vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á fóðri. Gróffóður þ.e. gróft hey heldur broddum í skefjum en fínt hey og fóðurkögglar gera það í mun minna mæli.

Einkenni
Beislisbúnaður gerir það að verkum að þegar togað er í taumana þrýsta mélin kinnum og tungu hestsins að jöxlunum. Skarpir tannbroddar geta þá auðveldlega sært mjúkvefi munnholsins. Þegar hross með tannbrodd eru brúkuð og hafa sært sig verður knapinn oft var við eftirfarandi einkenni:

 • taumstífni á annan eða báða tauma
 • hesturinn skekkir hálsinn
 • blóðug froða
 • blæðing úr munni
 • hestur hristir hausinn
 • ofreising eða lágreising
 • rokur

Röspun
Nauðsynlegt er að líta yfir tennur hrossa að minnsta kosti einu sinni á ári og þá helst á þeim tíma sem hross eru tekin á hús áður en brúkun hefst. Mjög misjafnt er hversu mikill broddur myndast á jöxlum hrossa. Þegar raspað er þá á ekki að leggja áherslu á að raspa mikið heldur að raspa burt þá brodda sem eru hvassir og stórir. Ekki er nóg að raspa fremstu jaxlana heldur þarf að raspa alla jaxlaröðina aftur til þess að tryggja að hesturinn særi sig ekki. Þess ber þó að gæta að aftast í kokinu eru stórar æðar sem geta farið í sundur ef raspurinn er rekinn með miklu afli of djúpt í munnholið. Þegar dýralæknar raspa tennur geta þeir komið auga á ýmis tannvandamál sem geta verið til staðar hjá hestum og getur það verið frá litlum tanngöllum til mikilla tannskemmda.

Tannröspun á að vera fyrirbyggjandi aðgerð, að minnka líkur á að tennur hesta særi þá. Hestamönnum ber þó einnig að líta í eigin barm þegar upp koma vandamál tengd tönnum og munni hestsins. Athuga þarf hvort mél passi hestinum og eins þarf knapinn að endurskoða taumhald sitt.

Að raspa tennur er vandaverk og ekki sama hvernig það er gert. Eins og í ýmsu öðru er oft betur heima setið en af stað farið - því ef röspun er ekki rétt gerð getur hún skapað ný vandamál eða aukið á þau vandamál sem fyrir voru.

15.06.2008 23:50

Reglur um járningar

1.1.1   Járningar

1.1.1.1     Halli hófs

Halli hófs skal vera í samræmi við halla kjúkubeins.

1.1.1.2     Lengd hófs

Lengd hófsins skal vera eðlileg.  Hófveggurinn má ekki vera lengri en 10mm niður fyrir hófbotn, mældur á tásvæði.  Allar gervilengingar eru bannaðar.

1.1.1.3     Skeifur

Sé hestur járnaður er einungis heimilt að nota skeifur sem sérstaklega eru gerðar til þess að þjóna sem skeifur fyrir hesta.  Allir fjórir fætur skulu þá vera járnaðir.  Allar fjórar skeifur þurfa að vera úr sama efni.  Eðlisþyngd efnisins má ekki vera meiri en venjulegs skeifnajárns.  Skeifan má að hámarki vera 10.0 mm að þykkt og 23,0 mm á breidd og skulu vera jafnar að lögun.  Eðlilegt slit er leyft. 

Ákvörðun dómara um lögmæti skeifu á tilteknu móti er endanleg fyrir það tiltekna mót.

1.1.1.4     Staðsetning skeifu

Skeifan má ekki fara fram fyrir eðlilega tálínu hófsins og að aftan ekki aftar en lóðrétt lína dregin niður af þófa/hæl.

1.1.1.5     Skaflar

Leyfðir eru tveir venjulegir skaflar á hverja skeifu, hnykktir, soðnir eða skrúfaðir, ein á hvorn hæl skeifunnar.  Skafl má ekki vera stærri en: 15 x 15 x 12 mm (l x b x h) og má ekki vera festur með meira en 4 suðupunktum. Hafi skaflar brodd(karbít), má hann ekki ná meira en 3 mm niður fyrir skaflinn.

1.1.1.6     Uppslættir

Leyfðir eru að hámarki þrír uppslættir, hver að hámarki 2 mm að þykkt á hverja skeifu. Ásoðnir uppslættir eru ekki leyfðir.

1.1.1.7     Ásuður og pottanir

Ásuður og pottanir eru ekki leyfðar.

1.1.1.8     Botnar

Nota má hringi úr leðri og gerviefni sem og botna, opna fleyga og fleygbotna.   Flatir botnar og hringir skulu fylgja lögun skeifunnar, og mega vera að hámarki 5 mm þykkir.  Opnir fleygar og fleygbotnar mega vera að hámarki 8 mm þykkir á hæl og að hámarki 2 mm í tá.  Sé botn og/eða fyllingarefni notað má skeifa ekki vera þykkri en 8,0 mm.  Með 10 mm skeifu má einungis nota hring (krans).  Einungis er heimilt að nota einn hring eða botn eða fleyg á hvern fót.  Styrkingar, sem stuðla að réttri virkni botnsins/hringsins  eru leyfilegar.

Ákvörðun dómara um lögmæti botns,hrings eða fleygs á tilteknu móti er endanleg fyrir það tiltekna mót.

1.1.1.9     Bannaðar skeifur, hringir og botnar

Þær skeifur, hringir eða botnar sem greinilega eru ekki framleiddir í þeim tilgangi að notast fyrir reiðhesta eru bannaðir.

Til viðbótar þessari almennu reglu heldur sportnefndin lista yfir skeifur, hringi og botna sem eru af sérstökum ástæðum ekki leyfðar.  Listinn inniheldur lýsingu og mynd af viðkomandi skeifu, hring eða botni.  Listinn er birtur á heimasíðu FEIF, www.feif.org og heimasíðu LH www.lhhestar.is.

Til að bæta ákveðinni skeifu, botni eða hring inn á lista yfir bannaðar skeifur, botna eða hringi, geta sportfulltrúar hvers lands, meðlimir íþróttanefndar FEIF og alþjóðlegir íþróttadómarar lagt fram tillögur til íþróttanefndar FEIF.  Greinileg lýsing, skýr mynd og gildur rökstuðningur skal fylgja slíkri tillögu.  Íþróttanefnd FEIF fer yfir slíkar tillögur að minnsta kosti þrisvar á ári, nema það sé sérstök ástæða til að taka ákvörðun með stuttum fyrirvara.

Árlegur fundur íþróttafulltrúa getur tekið ákvörðun um að taka skeifur, botna eða hringi út af lista yfir bannaðar skeifur, botna eða hringi.

1.1.2   Hlífar

Leyfðar eru hlífar, fyrir ofan hófbotn að hámarki 250 gr á hvern fót.   Ekki má breyta hlífðarútbúnaði frá því að komið er inn á hringvöllinn þar til sýningu er lokið. 

Ef hlíf fellur af í forkeppni skal knapinn ákveða hvort hann lýkur sýningu án hlífarinnar eða hættir keppni.

Hlíf sem fellur af á meðan á úrslitum stendur, má setja á aftur með leyfi dómara á meðan einkunnir eru lesnar upp á milli atriða eða á milli skeiðspretta í fimmgangi.   Slitni hlíf á meðan á úrslitum stendur, má með leyfi dómara setja samskonar hlíf á aftur.

Þessar reglur gilda fyrir allt keppnissvæðið sem og allan tímann sem mót stendur.

1.1.2.1     Endurjárningar

Ekki má járna hest aftur, eftir að hann hefur hafið keppni í sinni fyrstu grein, nema með leyfi yfirdómara.

1.1.2.2     Járninga- og hlífaskoðun

Skoðun á járningum og hlífum er á ábyrgð dómara.  Ef ekki er um opinbera, kerfisbundna fótaskoðun að ræða skal gefa knöpum kost á að fá járningar og hlífar skoðaðar fyrir upphaf keppni. Á meðan á keppni stendur, geta starfsmenn vallarins skoðað reiðtygi um leið og hver hestur yfirgefur völl eftir að hafa lokið keppni.  Ef ekki er um kerfisbundna skoðun að ræða, skal taka tilviljunarkennt úrtak úr ráslista og skoða hjá þeim.  Þá skal einnig ávallt skoða einn af efstu þremur hestum í hverri keppnisgrein og skal dregið um hver þeirra kemur til skoðunar.  Knapar skulu vera undir það búnir að draga undan hesti sínum, séu þeir dregnir út til fótaskoðunar.

Leiki minnsti vafi á því að mati dómara að reglur um járningar eða hlífar hafi verið brotnar, getur hvaða dómari sem er farið fram á sérstaka skoðun.  Einn eða fleiri dómarar sem valdir hafa verið til þessara starfa, framkvæma skoðunina.  Knapinn og dómarar geta farið fram á aðstoð mótsjárningamanns eða mótsdýralæknis.  Dómararnir skera úr um hvort járning og/eða hlífar uppfylli reglugerð.  Þeir geta farið fram á að skeifa sé fjarlægð og sett undir að nýju.  Knapi hefur ekki rétt á að fara fram á bætur.  Ef mótsjárningamaður fjarlægir skeifu skal kostnaður greiddur af mótshöldurum, annars er kostnaður á ábyrgð þess knapa sem í hlut á.

Á öllum mótum skal knapi upplýsa yfirdómara eða þann dómara sem sér um fótaskoðun um notkun botna.  Gera skal lista yfir þau hross sem járnuð eru á botna.  Hópur dómara skal draga út nokkra hesta af þessum lista.  Draga skal undan þeim hrossum til skoðunar.  Sé hestur sem dreginn er út til skoðunar járnaður á botna, skal fjarlægja botninn til skoðunar. 

Venjulega skal ekki fjarlægja skeifur af sama hestinum oftar en einu sinni á sama móti.  Hesta, sem hafa verið dregnir út eða teknir út til skoðunar, má járna aftur en aðeins undir eftirliti yfirdómara eða fulltrúa hans.

Knapinn sem í hlut á hefur engan rétt á að fara fram á bætur.  Fari knapi ekki að fyrirmælum dómara verður hesturinn útilokaður frá allri þátttöku á viðkomandi móti. 

14.05.2008 01:21

Góður pistill

Ég rakst á þennan frábæra pistil eftir Ingimar Sveinsson um frjósemi kynbótahrossa og fannst tilvalið að smella honum hingað inn svo að þið gætuð lesið þetta líka.

--------------------------------------------------------------------

Ingimar Sveinsson

Hvanneyri

Áhrif fóðrunar og meðferðar á frjósemi kynbótahrossa.

Inngangur.

Fyrir rúmum áratug var góð frjósemi talinn einn af höfuðkostum íslenska hrossastofnsins.

Í dag er léleg frjósemi eða lágt fyljunarhlutfall hjá stóðhestum aðal áhyggjuefni hrossaræktenda. Því er tímabært að vekja umræðu um þetta vandamál og reyna að finna ástæður vandans .

Ekki ætla ég mér þá dul að ég hafi einhverja allsherjar lausn á vandamálinu, en vil hér aðeins benda á nokkur atriði sem hugsanlega geta haft áhrif þar á.

Hverjar eru líklegar orsakir skertrar frjósemi?

   

 1. 1. Minkandi frjósemi í stofninum ?

   

    

  1. a) Vegna rangs úrvals kynbótahrossa, einkum stóðhesta .

    

    

  2. b) Vegna aukinnar skyldleikaræktar.

    

    1. Vissulega hefur ekki verið tekið nægt tillit til frjósemi stóðhesta við úrval, en sú minkun í frjósemi sem gert hefur vart við sig að undanförnu getur vart verið nema að litlu leyti af þeim sökum á svo stuttu tímabili, eða aðeins rúmu ættliðabili.

     Skyldleikarækt hefur aðeins aukist í hrossastofninum á undanförnum áratug (Þorv. Kristjánsson mastersritgerð 2004). Sýnt hefur verið fram á í sumum erlendum hrossastofnum og öðru búfé að skyldleikarækt leiði til minkaðrar frjósemi, en skyldleikarækt íslenska hrossastofnsins í dag er ekki það mikil að hún sé veruleg orsök, og lélegt fanghlutfall er ekki, að séð verði, bundið við skyldleikaræktaða stóðhesta í þessu tilviki.

     Því virðist nærtækara að leita annarra orsaka

   2.Misbrestur á fóðrun og meðferð kynbótahrossa ?

   Mér finnst líklegri skýring á vandamálinu sé sú breyting sem orðið hefur á fóðuröflun og fóðrun á síðustu 10-15 árum.

   Hvað hefur breyst ?

   Fyrir rúmum áratug voru hross nær einvörðungu fóðruð á þurrheyi. Í dag eru þau mestmegnis fóðruð á ?heymeti". Heymeti kalla eg forþurrkað hey með yfir 50% þurrefni sem verkað er í plasthjúpuðum rúlluböggum eða ferböggum.

   Hvaða áhrif hefur breytingin?

   Hún hefur veruleg áhrif á vítamíninnihald fóðursins og þar með nýtingu steinefna.

   D-vítamín er forsenda fyrir nýtingu steinefnanna kalsíum (Ca) og fosfórs (P) úr fóðrinu. Skortur þessara efna, einkum fosfórs hefur áhrif á frjósemi.

    

   Gras inniheldur ekkert D-vítamín við slátt. Það myndast við skin sólarinnar á heyið eftir að það er slegið. Því styttri tími sem það liggur á velli því minna er D-vítamíninnihald þess. Sem sagt, hey verkað í plasti er D-vítamín snautt, sólþurrkað þurrhey auðugt af því.

   Íslenskt hey er yfirleitt með fremur lágt kalsíum- og fosfórinnihald og ef D-vítamín er einnig af skornum skammti í fóðrinu er veruleg hætta á skorti þessara steinefna.

   Úr þessu má auðveldlega bæta með viðeigandi steinefnagjöf og einni til tveimur matskeiðum af lýsi á dag yfir innistöðutímann.

   E-vítamín, sem oft er kallað frjósemisvítamín, hefur mjög afgerandi áhrif á frjósemi margra dýrategunda. Ekki er ólíklegt að svo sé einnig að einhverju leyti hjá hrossum.

   Tilraunir hafa sýnt að mikið álag og stress (algengt í stóðhestagirðingum) eykur bæði C- og E-vítamínþörf hrossa.

   Í dönskum tilraunum (Landsbladet Hest 3/97) jókst fyljunarhlutfall hryssna úr 58% í 78% við selen-E gjöf.

   E-vítamín og selen eru mjög tengd. Ef lítið er af öðru þeirra í fóðrinu þarf meira af hinu. Skortseinkenni þeirra eru þau sömu enda oftast talað um selen-E skort. Efnagreiningar á íslensku heyi hafa sýnt að seleninnihald er víða í eða undir lágmarki.

   Selen-E skortur hefur farið mikið í vöxt í nautgripum (ófrjósemi, kálfadauði, hvítvöðvasýki ) og einnig í hrossum á síðari árum (eftir rúllubaggavæðinguna).

   Selenskortur í hrossum lýsir sér sem stirðleiki og hvíðvöðvasýki í ungviði, stirðleiki (einkum í afturparti) og deyfð í reiðhrossum og getur í sumum tilfellum verið orsök fyrir að hryssur ekki hildgast.

   Rúllubaggar og selen-E.

   Selen er steinefni svo varla hefur verkunaraðferðin áhrif á innihald heysins af því.

   Meiri líkur eru á því að E-Vítamínið rýrni eða eyðileggist í rúlluböggunum. Talið er að E-vítamín geymist vel í mjólkusýrugerjuðu votheyi. Í heymeti (forþurrkuðu rúlluheyi) verður næstum engin gerjun. Kolsýra (Co2) sem myndast við öndun heysins í böggunum ver heyið skemmdum og líkur benda til að hún eyðileggi einnig E-vítamínið. Lágt innihald fóðursins af selen og/eða skortur á E-vítamíni getur haft veruleg áhrif á frjósemi.

   Úr þessu má bæta með viðeigandi steinefna og vítmíngjöf. Varast ber þó að offóðra með selen, því að mjög stutt er í eituráhrif.

   Fóðrun, meðferð og frjósemi stóðhesta.

   Sæðismyndun stóðhesta hefst löngu fyrir fengitíð og þarf því að haga fóðrun í samræmi við það og vanda til fóðrunar og meðferðar stóðhesta allt árið til að sem bestur árangur náist. Einnig eru sæðisbirgðir stóðhests ekki óþrjótandi.

   1. Því þarf að hugsa vel um mikið notaða stóðhesta strax að fengitíma loknum og byrja að undirbúa þá undir næstu ?vertíð"

   2. Byrja þarf að gefa þeim með beitinni strax í septemberlok.

   3. Fóðra þá á góðu fóðri (ekki mjög síðslegnu).

   4. Tryggja steinefna og vítamínþörf.

   5. Hófleg hreyfing og þjálfun er til bóta. (eftir að tekið er á hús)

   Skipuleggja á notkun eftirsóttra stóðhesta þannig að hámarks notkun og árangur náist.

   * 1. Við húsnotkun:

   a) Nota snuðrara en ekki eftirsótta stóðhesta til að leita á hryssunum. Það dregur úr

   fýsn stóðhests að leita á hryssum, og hættan á að þeir verði slegnir er mest við að

   leita hryssum sem ekki eru í látum. Við það geta þeir hvekkst og orðið tregari til að

   gagnast hryssum.

   b) Ekki ráðlegt að halda hryssu fyrr en á þriðja degi eftir að hún byrjar í látum og síðan

   ekki tíðar en annan hvern dag. Slíkt sparar stóðhestinn án þess að skerða fanglíkur.

   * 2. Í Stóðhestagirðingum

    

    

   a) Takmarka skal fjölda hryssna hjá hesti. (fjöldi kominn út í öfgar)

   Í flestum heimildum er varað við ofnotkun, einkum ungra stóðhesta. Hún er talin geta

   leitt til ýmissa óvana, sem stundum koma fram seinna og einnig til tímabundinnar eða

   jafnvel vararlegrar ófrjósemi. Í norskum tilraunum kom greinilega í ljós að frjósemi

   sumra stóðhesta minkaði verulega við mikla stöðuga brúkun.

   b) Tryggja þarf nægan og góðan haga (þessu er oft mjög ábótavant).

   . Gróður þarf að vera nægjanlegur og girðingarnar það grösugar að beitin endist út

   tímabilið. Stóðhestar eru mikið á ferðinni og gefa sér oft lítinn tíma til að bíta

   og fá því ekki næga næringu nema beitin sé það góð að þeir geti fyllt sig á stuttum

   tíma. (Aflagning dregur úr fýsn og frjósemi).

    

   Folaldshryssur sem mikið mjólka og ekki hafa næga beit liggja gjarnan niðri (fara

   ekki í hestalæti) og fyljast því ekki. Auk þess minkar mjólkurnyt þeirra, sem

   kemur þá fram í lélegum þrifum folalda.

   Góðar kynbótahryssur eru lykillinn að árangri í hrossarækt.

   Því verða ræktendur að vera kröfuharðir um val kynbótahrossa, og tryggja þeim sem besta fóðrun og umhirðu.

   Markmið góðs hrossaræktanda er:

     

   1. Að fá sem flest folöld undan góðu hryssunum sínum.

     

     

   2. Að þær festi fang þegar þeim er haldið, eignist hraust folöld árlega

     

    1. og skili þeim vænum að hausti.

    Eftirfarandi atriði í fóðrun og meðferð kynbótahryssna stuðla að því:

    1. Tryggja þarf nægilegt prótein, steinefni og vítamín í fóðrinu.

    2. Hryssur í þriflegum holdum halda best.

    3. Magrar hryssur halda ver en hryssur í þriflegum holdum.

    4. Mjög feitar hryssur halda ver en hæfilega feitar hryssur,

    en varast ber að láta þær leggja af rétt fyrir fengitímann.

    5. Hryssur í aflagningu halda illa burtséð frá holdafari þeirra.

    6. Bötun eða fengieldi bætir verulega frjósemi og fanglíkur

    7. Reynsla er fyrir því erlendis að hryssur í mikilli þjálfun eða

    brúkun fari ekki í hestalæti og /eða haldi illa fyrst eftir að

    þjálfun er hætt. Allt bendir til að svo sé einnig hérlendis.

    Því er árangursríkara að halda þeim á meðan þær eru í þjálfum.

    Að lokum:

    1. Það er dýrt að leiða undir hátt dæmdan og eftirsóttan stóðhest.

    2. Yfirleitt skilar sá kostnaður sér þó aftur í góðu afkvæmi.

    3. Það dýrasta af öllu er að eiga góðar hryssur og fá ekki undan þeim afkvæmi.

    4. Því ber að vanda eins og kostur er aðbúnað, fóðrun og alla meðferð kynbótahrossa.

    Með hrossaræktar kveðju

    Ingimar Sveinsson

    05.05.2008 11:54

    Ormalyf í útigang

    Mikilvægast er að halda smiti á beitilandinu í lágmarki og forðast þannig að hross verði fyrir stórfelldum ormasýkingum. Ormalyf ber að notka kerfisbundið í þessum tilgangi og samhliða beitarskiptum. Það er til lítils að meðhöndla hross með ormalyfjum ef þau fara jafn harðan út á smitað beitiland.

    Vor- og sumarbeit / haust- og vetrarbeit
    Nauðsynlegt er að skipta beitilandinu upp milli vor og sumarbeitar annars vegar og haust og vetrarbeitar hins vegar. Með því að friða landið fyrir hrossabeit hálft árið eyðist ormasmitið á beitilandinu að mestu. Land sem hefur verið friðað fyrir hrossabeit í heilt ár er talið nánast laust við ormasmit og ætti að vera hægt að nýta það til hrossabeitar árið þar á eftir, frá hausti til hausts, án þess að ormasmitið verði mikið fyrr en í lokin. Þar sem ormasmit berst ekki á milli dýrategunda er hægt er að nýta landið til annarar búfjárbeitar annað hvert ár.

    Ormalyf þegar skipt er um hólf
    Nauðsynlegt er að gefa ormalyf þegar skipt er um hólf því að öðrum kosti verður smitið fljótt að magnast upp. Þetta á sérstaklega við um beitarskipti að vorinu. Þá ber að hafa í huga að það eru ekki síst fullorðnu hrossin sem smita landið þó svo minni hætta sé á að þau verði ormaveik. Þegar kemur fram á haustið nær nýtt smit ekki að magnast upp (fækkun eggja í taði og kaldara í veðri) en hross geta áfram smitast af lirfusmiti sem fyrir er á landinu frá undangengnu sumri. Ormalyfjagjöf að haustinu er nauðsynleg til að tryggja heilbrigði og hámarks fóðurnýtingu yfir veturinn.
    Hafi menn möguleika á að reka hross á afrétt frá miðju sumri og fram á haust heldur það ormasmiti í heimalöndum niðri. Landið er þá friðað á þeim tíma sem hættast er við að smitið magnist upp. Skilyrðislaust ætti að gefa öllum hrossum ormalyf áður en þau eru rekin á fjall. Gera verður ráð fyrir að folöld og tryppi séu þá þegar orðin sýkt og hætta er á að þau fái ormaveiki án þess að eigandinn verði þess var eða geti komið til hjálpar. Þá nýtist sumarið ekki eins vel til vaxtar og þroska og hætta er á að ormasmitið magnist upp á afréttinum því hrossin halda sig mikið í hópum og tiltekin svæði geta verið mikið bitin þó svo landrými sé mikið.

    Ormalyf fyrir folöld og tryppi
    Ef folöld og tryppi ganga í þröngum högum eða er haldið við hús að vori og/eða sumri er þörf á tíðari ormalyfjagjöfum. Þannig ættu öll folöld og hryssur að fá ormalyf þegar þau koma úr stóðhestagirðingum. Til að hindra að mikið spóluormasmit magnist upp þurfa folöld og tryppi að vera á rúmgóðu beitilandi og gott er að skipta um hólf frá ári til árs.
    Þar sem ormalyf er gefið aðeins tvisvar á ári er lítil hætta á að ónæmi myndist fyrir ormalyfinu. Venjulega er þó gefið sitthvort lyfið í þessi tvö skipti. Þar sem hrossum er haldið á þröngu landi og ormalyf gefið oftar, þarf að huga að ónæmi fyrir lyfjunum getur orðið vandamál og er ráðlegt að skipta um ormalyf á 2-3ja ára fresti í þeim tilgangi. Skipti menn of títt um ormalyf skapast hætta á fjölónæmi. Skynsamlegt er að nota öðru hvoru lyf sem heldur bandorminum í skefjum. 
     

    17.04.2008 18:35

    Ræktunarmarkmið

     
    Ræktunarmarkmið í íslenskri hrossarækt

    Almenn ræktunarmarkmið
    Heilbrigði, frjósemi, ending
    Hið opinbera ræktunartakmark miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan hest ? hraustan íslenskan hest.
    Litir
    Hið opinbera ræktunartakmark er að viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins.
    Stærð
    Hið opinbera ræktunartakmark gefur færi á allmiklum breytileika hvað varðar stærð hrossanna. Almennt er talið að heppileg stærð sé á bilinu 135 til 145 cm á hæstar herðar mælt á stöng.

    Sérstök ræktunarmarkmið
    Sköpulag almennt
    Almennt er stefnt að því að rækta hina léttbyggðari gerð íslenska hestsins með mikilli áherslu á styrk, skrokkmýkt og vöðvastælta líkamsbyggingu. Sköpulagið á að stuðla að mikilli ganghæfni og eðlisgóðum höfuðburði og á sama tíma að taka mið af almennt viðurkenndum fagurfræðilegum þáttum.

    Sköpulag nánar
    Vísað til einkunnarinnar 10 fyrir eiginleikana höfuð, háls, herðar og bógar, bak og lend, samræmi, fótagerð, réttleiki, hófar, prúðleiki á fax og tagl.

    Reiðhestshæfileikar almennt
    Almennt er stefnt að því að rækta fjölhæfan, taktfastan og öruggan, viljugan og geðprúðan hest sem fer glæsilega í reið - hinn íslenskan gæðing.

    Reiðhestshæfileikar nánar
    Vísað til lýsingar á einkunninni 10 fyrir eiginleikana tölt, brokk, skeið, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið, fet

    Eiginleikarnir vega síðan misjafnlega innbyrðis eins og fram kemur í töflunni hér að neðan:

    Höfuð
    3%
    Tölt
    15%
    Háls, herðar og bógar
    10%
    Brokk
    7,5%
    Bak og lend
    3%
    Skeið
    9%
    Samræmi
    7,5%
    Stökk
    4,5%
    Fótagerð
    6%
    Vilji og geðslag
    12,5%
    Réttleiki
    3%
    Fegurð í reið
    10%
    Hófar
    6%
    Fet
    1,5%
    Prúðleiki
    1,5%
    Samtals:
    40%
    60%

    07.04.2008 01:00

    Beislisbúnaður: Hringamél og stangabeisli

    Hringamél
    Hringamél eru margvísleg að gerð og lögun. Velja þarf mélin með tilliti til þess hvað hesturinn er munnbreiður. Lengi var þeirri reglu fylgt að mélin ættu að rúmast vel í hendi fullorðins karlmanns. Ekki þarf að hugsa sig lengi um til að sjá að þessi regla stenst ekki. Menn eru mishandbreiðir og sama má segja um munnbreidd hesta. Kjaftgrannir hestar þurfa mél allt niður í 10 cm á milli hringa. Óvanalegt er að breiddin sé meiri en svo að 12,5 cm mél dugi ekki. Ef mélin eru of stutt liggja hringirnir of þétt að munnvikum og geta sært þau. Of löng mél auka hættu á tungubasli og sárum undan tönnum. Hæfilegt er að mélin séu allt að 1 cm lengri en breiddin á munninum en ekki meir.

    Gildleiki mélanna skiptir einnig máli. Gild mél dreifa taumtakinu á stærri flöt í munni hestsins og eru þess vegna mýkri. Grönn mél eru skarpari og harðari og fara ekki eins vel með munninn. Þyngdin á mélunum þarf ekki að haldast í hendur við gildleikann því mörg gildari mél eru framleidd hol að innan. Hringirnir á mélunum eru betri stórir því þá er minni hætta á að þeir dragist upp í hestinn við tak á annan tauminn.

    Þegar beisli er sett í fyrsta skipti upp í unghest er best að nota gild og létt hringamél. Munnurinn er mjúkur og viðkvæmur og harður beislisbúnaður getur valdið hestinum óþægindum. Sérstaklega er mikilvægt að nota mjúkan beislisbúnað við viðkvæma og skapmikla hesta. Óþægindi og meiðsli í munni valda því að folinn fer að taka á móti og verður jafnvel óþekkur. Alltaf verður að gefa gaum að munni hestsins og draga ályktanir af því sem maður sér og finnur. Undantekningar eru alltaf hugsanlegar.

    Knapinn verður að gefa sér góðan tíma til að kenna hestinum að gefa eftir. Best er að ríða á feti, áfram og í hringi á báðar hendur og leggja þarf áherslu á að hesturinn gefi eftir í hnakkanum og hringi makkann við taumtak. Þegar knapinn hreyfir mélin uppi í hestinum á hann að bryðja þau og gefa eftir um leið. Þá er munnur hestsins votur og ef til vill freyðir hann svolítið. Hestur sem hreyfir ekki munninn á mélunum við taumtak gefur illa eftir og er ,frosinn" eins og það er gjarnan kallað. Við slíkan hest er best að nota mél sem hafa á miðjunni lausa hlekki eða annað álíka sem hangir niður á tunguna. Hesturinn fer að leika sér að þessu, bryður mélin og um leið eykst tilfinningin í munninum. Mikið japl getur haft þær afleiðingar að tungan hreyfist of mikið, hesturinn dregur hana upp og styttist þá í tungubasl. Þá þarf að skipta um mél í tíma.

    Ef illa gengur með hringamél er oftast um að kenna hörðum og tilfinningalitlum höndum, háu taumhaldi og of miklum hraða áður en hesturinn hefur lært að gefa eftir. Þegar þannig stendur á er það einungis um sjálfsblekkingu að ræða ef notaður er harðari búnaður í stað þess fyrri. Laga þarf taumhöndina, lækka taumhaldið þannig að átakið komi meira þvert á munninn. Ríða þarf hægt þar til hesturinn fer rétt í beisli og þá má auka hraðann smám saman. Knapinn nær beinna og stöðugra sambandi við munn hestsins þegar riðið er við hringamél en við stangir. Flestir hestar gefa betur eftir til hliðanna þegar riðið er við hringamél. Eru þau sjálfsögð þegar reynt er að liðka upp taum og þá hlið sem hesturinn er stirður í og á erfitt með að beygja, einnig við slökunaræfingar.

    Algengt er að menn telji betra að ráða við erfiða hesta með hörðu beisli. Þetta er ekki algilt. Skaphestur getur orðið reiður og grimmur þegar hann finnur þrýstinginn frá keðju stangarbeislis en hinn ljúfasti í skapi með mjúkt beisli.

    Stangabeisli
    Kjálkar stangaméla mynda vogarafl sem með hjálp keðjunnar auka átak taumtaksins. Aukning átaksins er mismikil eftir því hvað keðjan er strekkt og stangirnar langar. Óþarfi ætti að vera að taka það fram að mikla nákvæmni þarf við notkun þessa tækis svo vel fari og er það ekki við hæfi byrjenda.

    Hinar hefðbundnu íslensku stangir eru skemmtilegur og sérstæður beislisbúnaður sem hvergi á sinn líka. Þær eru notaðar á töluvert annan hátt en stangir erlendis. Erlendar stangir eru ætlaðar fyrir stífa keðju og eru þær ekki settar við fyrr en hesturinn er að mestu fulltaminn og settur.

    Hringamélin eru heppilegri í byrjun og á meðan hesturinn er að læra á beislið og ná hreyfingajafnvægi. Oft er gripið til íslensku stanganna þegar fara á að móta hestinn og setja. Þetta er engin algild regla og þarf hver og einn að finna út hvað hentar honum og hans hesti best.
    Stangirnar eru yfirleitt notaðar með fremur léttri keðju. Þegar verið er að móta höfuðburð með stöngum er hestinum kennt að "elta keðjuna", eins og það er kallað. Keðjan er þá stillt þannig að hún snerti hestinn lítillega þegar hann hringar makkann hæfilega. Stöng og taumur mynda þá beina línu upp í hönd knapans. Lítið sem ekkert átak er þá á keðjunni. Ef hesturinn er með óstöðugan höfuðburð og fer upp í gan byrjar keðjan strax að taka á, reyndar um leið og línan stöng-taumur brotnar. Þegar þetta gerist er nauðsynlegt að hægja ferðina eða stansa. Hesturinn er þá látinn gefa eftir í hnakkanum og finna hvar hann þarf að halda höfðinu til þess að þrýstingurinn frá keðunni minnki eða hverfi. Þannig lærir hann hvar best er að hafa höfuðið. Knapinn getur líka stjórnað átakinu með því að lækka eða hækka hendurnar. Hægt er að ríða við stífari keðju síðar ef þurfa þykir, en það sem máli skiptir er að kenna hestinum að gefa eftir í rétta átt. Í einstaka tilfellum fer hesturinn að gefa sig um of, eltir keðjuna of langt niður, fer með nefið bak við lóðlínu og lætur ekki að stjórn. Hesturinn er þá ekki lengur við taum og er þetta ekki síður slæmur galli en gan. Ef hestur byrjar að fara á bak við beislið skal strax skipta yfir í hringamél.

    Taumhald á stöngum er oft nokkru hærra en á hringamélum og taumsambandið þarf að vera örlítið frjálsara. Ef hafður er stöðugur taumstuðningur og keðjan liggur alltaf með átaki á kjálkanum, er hætta á að hesturinn verði kaldur á tauma. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gefa frjálsan tauminn af og til og létta þannig átakið. Yfirleitt er gott að skipta yfir í hringamél til hvíldar frá stöngunum.

    Festing stanganna við mélin er þannig að þær geta hreyfst nánast í allar áttir. Þegar riðið er við frjálsan taum hreyfast stangirnar örlítið til og frá, þær hreyfa mélin uppi í hestinum og hann svarar með því að bryðja þau.

    Stangirnar eru misjafnar að stærð og lögun. Það sem áður hefur verið sagt um mélin, hvað snertir lengd og gildleika, nær einnig til méla í stöngum. Eitt þýðingarmikið atriði er þó á annan veg. Hringamélin liggja alltaf eins í munni hestsins en staða mélanna í stöngum er breytileg. Frá því að stangirnar hanga niður við slakan taum og þar til þær vísa aftur, þegar tekið er í taum, breytist staða mélanna allt að 90°, en minna ef riðið er við stífa keðju.

    Kjaftmél eru þannig að armar þeirra eru jafnlangir á einn veg en mislangir á annan. Er þetta vegna liðarins í miðjunni og sést þetta vel ef mél er lagt saman á tvo vegu með 90° horni á milli þeirra. Armar mélanna í stöngum verða að vera jafnir á þá hliðina sem leggst að munninum þegar tekið er í taum, en minna máli skiptir þó armarnir séu misjafnir þegar stöngin hangir niður. Þeir stangasmiðir sem smíða sín mél sjálfir gæta sín jafnan á þessu. Þeir sem notast við mél úr hringamélum, óbreytt, lenda í vandræðum. Þá eru mélin rétt upp í hestinum þegar stöngin hangir niður en um leið og tekið er í tauminn snýst mélið og verður skakkt í átaksátt. Þetta gerir það að verkum að hesturinn tekur misjafnt á stöngunum og skekkir sig. Þetta er kannski það sem skiptir mestu máli að athuga við val á stöngum.

    Allir liðir þurfa að vera þjálir og gæta þarf þess að fjarlægja brúnir sem myndast við slit. Keðjan þarf að grípa í keðjufarið neðst á kjálkanum fram við hökuna. Þar er kjálkinn samvaxinn og keðjan getur lagst jafnt að alls staðar. Ef keðjan grípur ofar, þar sem beinið er tvískipt, er hætta á keðjusæri vegna þess að allt átakið lendir á kjálkabörðunum en dreifist ekki jafnt. Til þess að keðjan grípi nógu neðarlega, þarf bilið frá mélum að keðju að vera sem minnst. Stangirnar þurfa að vera grannar efst og nægilegt pláss er nauðsynlegt fyrir keðju og króka. Bestar eru keðjurnar sem eru með alla hlekki jafn stóra. Þær leggjast jafnar og gæta þarf að því að keðjunni sé snúið þannig að allir hlekkirnir leggist flatir saman. Best er að krókarnir séu stuttir og sem líkastir báðum megin.

    28.03.2008 17:30

    REGLUGERÐ

    REGLUGERÐ

    um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa.

     

    I. KAFLI

    Almennt.

    1. gr.

    Tilgangur, markmið og gildissvið.

    Markmið reglugerðarinnar er að tryggja góðan aðbúnað hrossa og að þau hafi ætíð nægilega beit/fóður og vatn. Einnig að notkun á hrossum sé í samræmi við þrek þeirra og þol og að þau fái góða meðferð að öðru leyti. 

    Reglugerð þessi gildir um öll hross, hvort sem þau eru haldin í atvinnuskyni, svo sem á ræktunarbúum, tamningastöðvum, hestaleigum og reiðskólum, eða til nota í frístundum.

     

    2. gr.

    Orðskýringar.

    1.   Aðbúnaður, er húsakostur og/eða skjól.

    2.   Umhirða hrossa, er fóðrun, beitarstýring, eftirlit með holdafari og heilbrigði og hirðing á feldi, hófum og tönnum.

    3.   Tamningastöð, er staður þar sem hross eru tamin eða þjálfuð gegn gjaldi.

    4.   Reiðskóli, er staður þar sem fram fer kennsla í reiðmennsku gegn gjaldi.

    5.   Hestaleiga, er staður þar sem hross eru leigð til útreiða gegn gjaldi.

     

    3. gr.

    Yfirstjórn og eftirlit.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.  Land­búnaðarstofnun er ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis og hefur undir sinni stjórn dýralækni hrossasjúkdóma.

    Dýralæknir hrossasjúkdóma skal með störfum sínum stuðla að góðri meðferð og heil­brigði hrossa í samvinnu við dýralækna, ráðunauta, búfjáreftirlitsmenn, Umhverfisstofnun og hrossaeigendur. Hann skal með rannsóknum, almennri fræðslu og leiðbeiningarstarfi auka skilning á hrossasjúkdómum, vinna að vörnum gegn þeim og gera árlega skrá um tíðni hrossa­sjúkdóma, í samvinnu við dýralækna.

    Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt, sbr. ákvæði reglugerðar um búfjáreftirlit nr. 743/2002.

    Hver sá sem verður var við að eiganda eða umráðamann hrossa skorti fóður, beit, vatn eða viðeigandi aðbúnað fyrir hross sín, hann vanhirði þau eða beiti þau harðýðgi, skal til­kynna það héraðsdýralækni. Berist slíkar upplýsingar til dýralæknis, búfjáreftirlitsmanns, bún­aðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni samdægurs. Héraðsdýralæknir skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand hrossanna og aðbúnað. Að öðru leyti fer um mál skv. 4. mgr. eftir ákvæðum 16. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

     

    II. KAFLI

    Umhirða.

    4. gr.

    Fóðrun og beit.

    Hross skulu ávallt hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni.  Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notk­unar.

    Hross skulu hafa aðgang að beit í a.m.k. tvo mánuði samfellt á tímabilinu 1. maí til 1. október.

    Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umhirðu. Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir c-lið viðauka I við reglugerðina, um holdastigun.  

    Forðast skal allar snöggar fóðurbreytingar og aðeins nota óskemmt fóður. Hvort sem fóðrað er utandyra eða innan, skal þess gætt að undirlag sé þurrt og laust við taðmengun.

    Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring. Óheimilt er að hafa hross án fóðurs lengur en 14 klst. og án drykkjarvatns lengur en fjórar klst. Folalds­hryssur er óheimilt að hafa án vatns og fóðurs lengur en tvær klst. Eftir notkun skulu hross ávallt hafa aðgang að nægu drykkjarvatni.

     

    5. gr.

    Hirðing og heilbrigðiseftirlit.

    Eigandi eða umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans eigu/umsjá og leita lækninga ef með þarf. Hann skal koma í veg fyrir að ormasmit nái að magnast upp með beitarstjórnun og ormalyfjagjöf. Gefa skal ormalyf a.m.k. einu sinni á ári. Halda skal hrossum hreinum, verja þau ytri óværu, snyrta hófa  og raspa tennur eftir þörfum.

    Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að hross sé haldið alvarlegum eða áður óþekktum smitsjúkdómi er skylt að tilkynna það héraðsdýralækni þegar í stað.

    Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um merkingar nr. 289/2005 er eigandi eða umráða­maður ábyrgur fyrir að sjúkdómar í hrossi á hans vegum og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Dýralæknum er skylt í lok hverrar vitjunar að skrá á viðurkenndan hátt upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meðhöndlun og lyfjanotkun. Einnig skal skrá leið­beiningar um framhaldsmeðferð, nýtingu afurða og takmarkanir á þátttöku í sýningu og keppni. Upplýsingarnar skulu ávallt vera aðgengilegar Landbúnaðarstofnun og eiganda.

    Að vetri skal fylgjast daglega með hrossum á útigangi, en vikulega með hrossum í heimahögum að sumri. Umráðamenn stóðhesta skulu hafa daglegt eftirlit með stóðhesta­girðingum.

    Hross á húsi skulu fá hreyfingu eða aðra útivist í a.m.k. klukkustund á dag, nema sjúk­dómar eða veður hamli. Óheimilt er að halda hross ein á húsi.

     

    6. gr.

    Notkun.

    Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra leyfir. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar.

    Hross skulu járnuð ef hætta er á að hófar slitni til skaða við notkun eða rekstur. Þess skal gætt að hvíla hross reglulega á ferðalögum og að þeim sé ekki ofgert.

    Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og  valdi ekki sárum eða öðrum skaða.

     

    7. gr.

    Skráning dagbókar.

    Halda skal dagbók um notkun og umhirðu hrossa á hestaleigum, tamningastöðvum og í reiðskólum. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum skv. reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

     

    III. KAFLI

    Aðbúnaður.

    8. gr.

    Hesthús og innréttingar.

    Innréttingar og annar útbúnaður hesthúsa skulu vera þannig að ekki skapist hætta á að hross verði fyrir meiðslum eða heilsutjóni. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að fljótlegt sé að rýma þau í neyðartilvikum. Stíuveggir skulu vera þannig gerðir að ekki skapist hætta á að fætur eða höfuð festist. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 cm.

    Innréttingar skulu vera þannig gerðar að hross geti séð önnur hross á húsi. Í byggingar og innréttingar skal nota efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hvers konar hættuleg og heilsuspillandi efni.

    Gólf skulu vera með stömu yfirborði sem auðvelt er að þrífa. Steypt gólf í básum skulu klædd  gúmmímottum eða öðru mjúku efni.  Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku. Ganga skal frá niðurföllum þannig að þau valdi ekki slysum eða óþægindum.

    Stíur skulu vera svo stórar að hestur/hestar geti auðveldlega legið og snúið sér innan hennar.

    Básar skulu einungis notaðir tímabundið fyrir hvert hross. Básar og stíur skulu uppfylla kröfur um lágmarksstærðir sem fram koma í a-lið viðauka I við reglugerð þessa.

     

    9. gr.

    Loftræsting.

    Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum, en loftskipti eiga að vera næg til að magn skaðlegra loftegunda sé að jafnaði innan viðurkenndra hættumarka sbr. b-lið  viðauka I við reglugerð þessari. 

    Hita og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í b-lið viðauka I.

    Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur vera innan þeirra marka sem um getur í b-lið viðauka I við reglugerð þessa.

     

    10. gr.

    Birta og lýsing.

    Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo að ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum.  Glugga, ljós og rafmagnsleiðslur skal verja þannig að ekki valdi slysum. 

     

    11. gr.

    Gerði og girðingar.

    Gerði við hesthús skal að lágmarki vera 100 fermetrar. Óheimilt er að nota gaddavír og háspenntar rafgirðingar í gerði.  Afrennsli skal vera gott þannig að ekki myndist svað og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum.

    Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum.

    Forðast skal að nota ristahlið á girðingar umhverfis hrossahólf eða þar sem umferð hrossa er mikil. Um hrossagirðingar fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglugerðar nr. 748/2002 um girðingar, sbr. 13. og 14. gr.

     

    12. gr.

    Skjól i hrossahögum.

    Hross sem ganga úti frá 1. október til 1. júní skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vind­um. Þar sem fullnægjandi náttúruleg skjól eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem ganga í þrjár stefnur eða mynda með öðrum hætti skjól úr öllum áttum. Hver skjólveggur skal vera að lágmarki 2,5 m á hæð og 4 m á lengd eða svo stór að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls. Skjólveggirnir skulu traustlega byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossunum. Eftirlitsaðilar skv. 3. mgr. 3. gr. fylgjast með því að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt. 

    Umhverfi, hönnun og viðhald húsa og skýla skal vera þannig að ekki valdi slysum og gripir haldist hreinir.

     

    13. gr.

    Umhverfi.

    Frágangi taðþróa og haughúsa skal þannig háttað að ekki valdi mengun umhverfis eða hættu fyrir menn og skepnur, sbr. reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns o.fl.

     

    IV. KAFLI

    Gildistaka o.fl.

    14. gr.

    Refsiákvæði og gildistaka.

    Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

    Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýra­lækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 132/1999.

     

    15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða.

    Hesthús sem innréttuð eru fyrir gildistökudag reglugerðar þessarar, eða sem hlotið hafa samþykki byggingaryfirvalda fyrir gildistöku hennar eru undanþegin ákvæðum a-liðar viðauka I um stíu- og básastærðir og ákvæðum 11. gr. um lágmarksstærð gerða. Um þau gilda áfram ákvæði eldri reglugerðar nr. 132/1999 hvað þær stærðir varðar.

     

    Landbúnaðarráðuneytinu 16. febrúar 2006.

     

    F. h. r.

    Ólafur Friðriksson.

    Atli Már Ingólfsson.

     

     

    VIÐAUKI I

     

    A.   Básastærðir og rými í stíum (lágmarksmál).

    Básar þar sem hross eru bundin:

    Lengd          165 sm

    Breidd          110 sm

    Stíustærð/rýmisþörf í stíu, lágmarksmál á hvert hross. Í stíu má skemmsta hlið ekki vera styttri en 150 sm fyrir hross yngri en fjögurra vetra, en eigi styttri en 180 sm fyrir hross fjögurra vetra og eldri. Stíur skulu ekki vera minni að flatarmáli en hér segir:

    Hross, fjögurra vetra og eldri                            4,0 m²

    Folöld og tryppi, yngri en fjögurra vetra             3,0 m²

     

    B.   Loftræsting o.fl.

    Magn eftirtalinna loftegunda skal að jafnaði ekki vera meira en hér segir:

    Ammóníak (NH3)                                           10 ppm

    Koltvísýringur (CO2)                                   3000 ppm

    Brennisteinsvetni (H2S)                                  0,5 ppm

    Við hönnun loftræstikerfis skal leitast við að lofthraði umhverfis hrossin fari ekki yfir 0,2 m/sek.

    Rakastig í einangruðum húsum skal ekki fara yfir 80%.

    Rakastig í óeinangruðum húsum skal að jafnaði ekki fara umfram 10% þess sem er úti.

    Hljóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 65 dB (A).

     

    C.   Holdstigun.

     

    Holdastig

    Stutt lýsing

    Lengri lýsing

     

     

     

    1

    Grindhoraður

    Öll rifbein sjást, skinnið er strengt á beinin og hvergi fitu að finna. Mikið gengið á vöðva, makki fallinn, herðar og hryggsúla standa mikið upp úr, lend holdlaus. Hesturinn hengir haus og sýnir lítil viðbrögð við ytra áreiti.

     

     

    Heilsutjón er varanlegt og rétt er að aflífa hross í þessu ásigkomulagi.

     

     

     

    1,5

    Horaður

    Flest rifbein sjást. Fastur átöku.

     

     

    Verulega tekið úr hálsi, baki og lend.

     

     

    Hárafar er gróft, strítt og matt.

     

     

    Mikil hætta að hrossið nái sér ekki að fullu.

     

     

     

    2

    Verulega aflagður

    Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum.

     

     

    Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel.

     

     

    Hárafar matt og hrossið vansælt.

     

     

     

    2,5

    Fullþunnur

    Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er mjög lítil fita, sem gjarnan er föst átöku, nema hrossið sé í bata.

     

     

    Vöðvar í lend, baki og hálsi ekki nægjanlega fylltir. Hrossið er í tæpum reiðhestsholdum og þarf að bæta á sig.

     

     

     

    3

    Reiðhestshold

    Tvö-fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreif­ingu en sjást ekki.  Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (ca 1 cm). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu.

     

     

    Hárafar slétt og jafnt

     

     

     

    3,5

    Ríflegur

    Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er gott og laust fitulag.  Öftustu rifbein má samt greina.

     

     

    Lend, bak og háls eru fallega vöðvafyllt og fitusöfnun má oft merkja t.d. fyrir aftan herðar.

     

     

    Hrossið er í ríflegum reiðhestsholdum og hefur nokkurn forða til að taka af.

     

     

     

    4

    Feitur

    Þykk fita á síðu, rifbein verða ekki greind.

     

     

    Bak mjög fyllt og hryggsúlan oft örlítið sokkin í hold.

     

     

     

    4,5

    Mjög feitur

    Greinileg fitusöfnun í hálsi, aftan við herðar og á lend

     

     

     

    5

    Afmyndaður

    Rifbein finnast alls ekki, fitan mjög þétt átöku.

     

     

    Laut eftir baki og mikil dæld í lend.

     

     

    Keppir og hnyklar af fitu, á síðu, hálsi, lend.

     

    Notkun á skalanum.

    Flest hross fá holdastig á bilinu 2-4.  Sé hrossið með holdastig 2 er það í mjög slæmu fóðurástandi.  Þannig hross þarf að fóðra sérstaklega, og getur ekki gengið úti að vetrarlagi nema hafa mjög gott skjól í eða við hús. Holdastig 1 - 2 telst til illrar meðferðar og varða við dýraverndarlög.

    Reiðhestshold eru eins og nafnið bendir til hæfileg hold á hesti í brúkun og einnig telst það holdafar viðunandi fyrir útigönguhross að vori.  Hins vegar eru reiðhestshold knöpp að hausti eigi hrossið að ganga úti yfir veturinn.  Hross sem eru að fara á útigang þurfa síðla hausts að hafa gott fitulag undir húð (holdastig 3,5-4).  Það virðist auka kuldaþol þeirra og gerir þau betur í stakk búin að standa af sér illviðri. Æskilegt er að hross séu í ríflegum reiðhestsholdum þegar lagt er upp í ferðalag.

    Hafi hrossið holdastig 4 er það orðið vel feitt og því vel undir útigang búið. Ástæðulaust er að hross séu feitari en  svo.  Hross sem eru með 5 í holdastig hafa haft óhóflegan aðgang að fóðri og telst það ekki góð meðferð enda getur það komið niður á heilsufari þeirra.*

     

    *Heimild: Guðrún Stefánsdóttir og Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma.

    __________

     

    B-deild - Útgáfud.: 23. febrúar 2006

     

    26.03.2008 05:50

    Hvað er múkk ?

    Múkk er húðbólga í kjúkubótinni á hestum, en kjúkubótina er að finna aftan til á kjúkunni, undir hófskegginu. Húðin er tiltölulega þunn og viðkvæm á þessu svæði. Fyrstu einkennin eru aukin fitumyndun í húðinni sem getur þróast í vessandi bólgu og sár. Hross geta orðið hölt af þessum sökum. Ekki er vitað með vissu af hverju múkk myndast en orsakirnar eru taldar vera fjölþátta:

    Álag. Múkk er algengast í reiðhrossum í stífri þjálfun.
    Fóðrun. Hross í þjálfun eru alla jafna á kraftmiklu fóðri, sérstaklega þegar líða tekur á vorið, og er ekki hægt að útiloka að það eigi þátt í þróun sjúkdómsins.
    Umhverfi. Blautar stíur og gerði geta átt þátt í þróuninni en þó er múkk líka að finna þar sem umhverfisaðstæður eru hvað bestar.
    Kuldi. Hross sem ganga á blautum mýrum á haustbeit geta fengið múkk þó svo þau séu ekki í notkun. Í þeim tilfellum virðist sem kuldinn og bleytan örvi fitumyndun húðarinnar um of.
    Bakteríusýkingar. Þær fylgja venjulega í kjölfarið en geta verið frumorsök í einhverjum tilfellum. Múkk er þó ekki talið smitandi.

    Misjafnt er hversu næm eða veik hross eru fyrir múkki og þar með hversu mikil áhrif umhverfisaðstæðurnar, sem nefndar eru hér að framan, hafa. Því getur það gerst að til dæmis eitt hross af tíu í sama húsi (þar sem umhverfisaðstæður eru sambærilegar) fær múkk en hin ekki. Álagið hefur einnig mikið að segja í þessu sambandi.

    Mikilvægt er að fylgjast reglulega með kjúkubótinni á hrossum á húsi og hefja meðhöndlun um leið og fyrstu einkenna verður vart. Dýralæknar nota venjulega fúkkalyf samhliða bólgueyðandi lyfjum við múkki og oftast dugar staðbundin meðhöndlun. Sé bólgan það mikil að hún valdi helti þurfa hrossin að fá hvíld frá þjálfun á meðan á meðhöndlun stendur og í það minnsta viku betur. Þá þarf að íhuga hvort rétt sé að minnka álagið á hrossið. Athuga ber að ekki má nota hross í keppni sem fengið hafa lyfjameðhöndlun fyrr en að ákveðnum tíma liðnum (mismunandi eftir lyfjum).
    • 1


    Nafn:

    Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

    Um:

    Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

    Kennitala:

    540776-0169

    Bankanúmer:

    0317-26-100622

    Tenglar


    Flettingar í dag: 198
    Gestir í dag: 97
    Flettingar í gær: 367
    Gestir í gær: 187
    Samtals flettingar: 1137967
    Samtals gestir: 174217
    Tölur uppfærðar: 7.3.2021 14:28:41