Hestamannafélagið Sindri


Flokkur: Sögur

24.03.2008 02:30

Sómi

Ég fór fyrst á bak 10ára gamall. Það var hjá henni Steinu frænku fyrir austan. Við Úlfar frændi minn nýddumst á þægasta hesti heimilisins allan guðslangan daginn.  Við tvímenntum og skoðuðum mestalla sveitina á einum degi. 

Eftir það langaði mig alltaf í hest. Fór stundum á bak en kunni ekkert og lærði lítið. Rétta tækifærið kom ekki fyrr en ég var að nálgast fertugt. Þá eignaðist ég þrjá hesta á einu bretti. Þeir áttu að vera 6 vetra en voru eitthvað eldri. Þeir áttu að vera reiðfærir en það reyndist oflof. Það kom fljótt í ljós að þeir voru mér erfiðir.

Þetta voru allt myndar klárar að sjá. Einn moldóttur, annar leirljós og þriðji sótrauður blesóttur sokkóttur, svolítið kubbslegur en bætti það upp með miklu ljósrauðu faxi.

Sá moldótti var mikið erfiðari en ég gat ráðið við. Hann setti mig af baki á ótrúlega stuttum tíma. Það gekk svo mikið á að einusinni fór ég hring í loftinu og lenti standandi fyrir aftan hann. Ég var svo heppinn að vera boðinn hestur í skiptum fyrir hann. Hann hæfði byrjandanum betur.

Sá leirljósi gat verið fínn eða alveg ómögulegur. Stundum var hann algjör gæðingur. Fór um eins og höfðingi. Stundum brjálaður og sturtaði manni af þegar sýst skyldi. Hann fór fyrir lítið.

Sá blesótti var hrekkjóttur en náði mér samt ekki af. Eftir hrekkinn tók hann roku sem gat verið fjögur fimm hundruð metrar. Eftir það var hann fínn. Á þessu gekk í hvert einasta skipti sem ég fór á bak í tvö ár. Blesi og ég höfðum fasta reglu á hlutunum. Hann hrekti og hljóp og svo fórum við í reiðtúr. Fólk í kringum okkur var hætt að taka eftir þessu. Stundum var þó sagt að við ætluðum í hrekkjaæfingu þegar ég lagði á hann.

Benni nágranni gaf það út eftir stutta skoðun að sér litist ekkert á þá molda og leirljósa. En sá blesótti, hann verður góður,  sagði hann og að ég mætti ekki gefast upp. Þessi hestur verður taustur eins og fjall. Hann hefur lent í einhverju. Ef þú verður þolinmóður og góður við hann þá eiganst þú þinn besta vin í honum. Ég tók Benna á orðinu og gafst ekki upp. Það átti eftir að koma í ljós að Benni hafði rétt fyrir sér. Einhver hafði tekið að sér að temja Blesa og sú saga er varla prenthæf ef hún er þá sönn.

Svo gerðist það einn daginn að Blesi stóð bara grafkyrr þegar ég settist á bak. Engir hrekkir. Engin roka. Ég fór af baki. Er hesturinn lasinn? Er hann með hita? Ég kallaði á nafna og bað hann að skoða klárinn. Sérðu eitthvað að Blesa?

Af hverju heldurðu að það sé eitthvað að honum?

Nei ekkert, fannst hann bara eitthvað skrýtinn svaraði ég og settist á bak.

Blesi hrekti aldrei eftir þetta. Það element var horfið.

Eftir þetta fór Blesi alltaf batnandi. Hann vildi reyndar aldrei koma með mikinn höfuð eða fótaburð en varð alltaf traustari. Í ferðalögum var það hann sem stökk útí árnar þegar enginn vildi fara. Það var líka hann sem skaust eins og elding fyrir. Það var hann sem kom í rólegheitum til mín þegar mig vantaði hest. Ég held hann hefði vaðið eld og brennistein fyrir mig.

Ég notaði Blesa mikið við smölun. Það held ég að hafi verið það allra skemtilegasta sem hann gerði. Þá var ég farþegi. Hann sá alveg um þetta. Fór sjálfur eftir fénu sem reyndi að stinga sér undan og bestur var hann í kjarrinu. Það þýddi lítið fyrir féð að reyna að fela sig þar. Sneri við ef hann varð var við fé í runnunum. Aldrei nein læti eða gassi. Hann bara fór um runnana eins og þeir kæmu honum ekki við. Ég lét hann alveg um þetta. Stundum sá ég alsekki afhverju hann snéri við fyrr en hann sýndi mér það.

Einhverju sinni lentum við í úrhellis rigningu á leið á Þingvelli. Reksturinn var stór og gekk illa. Hrossin köld og vildu ekki áfram. Var þá gripið til þess ráðs að skipta hópnum. Ég var í eftirreið í fyrri hópnum. Blesi hljóp laus, fremst eins og hann var vanur. Þá sé ég að hann tekur sig útúr og hægir verulega á sér. Þegar hann er kominn alveg aftast hleypur hann þvert frá rekstrinum. Ég þurfti að hleypa á eftir honum góða stund áður en mér tókst að stoppa hann og fá hann með mér til baka. Þegar við komum aftur inná slóðan er seinni hópurinn að koma. Blesi hendist þá aftast í reksturinn. Þar var hryssa frá mér meidd á fæti og komst lítið áfram. Hann fylgdi henni það sem eftir var leiðar.

Engan hest hef ég séð jafn natinn við að teyma tryppin. Það var alveg ómetanlegt að fá aðstoð hans við það. Þegar tryppið var komið á síðuna á honum þá beið hann rólegur meðan það var að átta sig. Svo labbaði hann af stað. Ef eithvað kom uppá þá stoppaði hann og beið. Þegar ró komst á aftur hélt hann áfram. Stundum fanst mér hann kummra eitthvað til þeirra og þá komu þau áfram. Fyrir mig var bara að sitja og fylgjast með. Tryppin flugteymdust eftir kennslustund hjá honum.

En honum var meinilla við að vera teymdur sjálfur. Fór hægt og hékk í. Stundum sleit hann sig lausan. Ég hætti fljótlega að leggja þetta á hann heldur lét hann vera lausann ef mögulegt var. Stundum var hann á eftir en á undan ef hann vissi hvert förinni var heitið. Löt tryppi urðu fjörviljug að elta hann heim þegar hann hafði teymt þau að heiman.

Hann tók yfirleitt nýja hesta í hópinn og passaði þá meðan þeir voru að komast inn. Hann stjórnaði reyndar hópnum mínum eins og sannur stóðhestur. Aldrei sá ég hann meiða nokkurn hest. Hann dró eyrun undir faxið og setti hausinn niður að jörðu ef honum mislíkaði. Það þurfti ekki meira. Hópurinn bar virðingu fyrir honum og hann réði.

Hann tók að sér unga graðfolann minn þegar folinn var fyrst á húsi þá á öðrum vetri. Hinir geldingarnir gátu ekki séð folann í friði. Þá stóð Blesi vörð um ræfilinn. Lét ekkert vont koma fyrir hann. Folinn tók ástfóstri við hann og hélt sig hjá honum. Um vorið fór folinn í merar og sást ekki aftur fyrr en um haustið. Þá þóttist hann ekkert hafa með aðstoð Blesa að gera, hann gat bjargað sér sjálfur. Þeir voru svarnir óvinir eftir það. Ég reyndi ekki að hafa þá saman þó að Blesi reyndist ómetanlegur við tamningu folans þegar að því kom. Folinn snerti ekki við Blesa ef hann vissi af mér nálægt. Hann gerði sér fullkomna grein fyrir því hvað mér þótti um þann gamla.

Blesi minn var orðinn fullorðinn þegar graddinn kom í hagagönguhópinn. Þá var ár liðið frá því folinn tapaði kúlunum. Folinn vildi taka yfir stjórn hópsins en Blesi var ekki á því að láta undan. Gekk á ýmsu og ég lagði talsvert á mig að sætta þá. Hafði þá báða með í reiðtúra eins og hægt var. Þegar ég taldi þá vera sátta setti ég þá í girðingu með öðrum hrossum. Daginn eftir var hringt í mig og ég beðinn að sækja Blesa á nálægan bæ. Honum hafði verið bjargað úr skurði nær dauða en lífi. Ég er því miður nokkuð viss um að folinn setti kallinn í skurðinn.

Fólkið sem bjargaði honum var sérstaklega gott við hann. Ekki aðeins var honum bjargað við erfiðar aðstæður heldur var hann fluttur heim á bæ og þrifinn með volgu vatni og pakkað inní teppi. Þegar ég kom að sækja hann var búið að opna rúllu handa honum. Ég er ákaflega þakklátur þessu sóma fólki.

En Blesi minn varð aldrei samur eftir þessa lífsreynslu. Neistinn hvarf og eins og vonleysi tæki yfir. Ég aðskildi folann og Blesa og reyndi að skipta hópnum á milli þeirra. Vonaði að Blesi tæki gleði sýna á ný en allt kom fyrir ekki.

Svo rakst ég á auglýsingu. Unga stúlku í sveit vantaði traustan hest. Mér fannst þarna verðugt verk handa Blesa mínum. Hvað væri betra fyrir hann en að fá að dúlla með ungviðið í ellinni. Hann alveg óbilaður gæti fengið hluta sjálfsvirðingarinnar aftur. Úr varð að hann komst í þægilegan hóp hrossa þar sem hann fær virðingu og gott atlæti. Vinnan létt og þægileg.

Blesi var fljótur að ná ástum stúlkunnar. Hún gætir þess líka að hann fari ekki of nálægt skurðum. Hún frétti af óförum hans og má ekki til þess hugsa að það gerist aftur. Ég veit að þau eiga eftir að reynast hvort öðru vel.

Það verður illa komið fyrir mér ef ég gleymi honum Sóma mínum.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Þessi frásögn er fengin að láni af síðunni http://www.123.is/mellausbeisli 

Það er gaman að segja frá því að unga stúlkan sem fékk þennan hest er hún Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir á Ytri-Sólheimum. 

  • 1


Nafn:

Vefstjóri: Vilborg Smáradóttir

Um:

Minningarsjóður um Óskar Sigurð Þorsteinsson. Hægt er að styrkja sjóðinn með kaupum á minningarkortum að lágmarki 1000 kr hjá: Hjördísi Rut; sudur-foss@simnet.is s: 861-0294, Vilborgu; isbud@simnet.is s: 867-1486, Ástu Öldu; skasta15@gmail.com s: 848-1861. Sjóðurinn styrkir æskulýðsstarf Hmf Sindra.

Kennitala:

540776-0169

Bankanúmer:

0317-26-100622

Tenglar


Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 367
Gestir í gær: 187
Samtals flettingar: 1137967
Samtals gestir: 174217
Tölur uppfærðar: 7.3.2021 14:28:41